Fara í efni
Tré vikunnar

Drekablóð

TRÉ VIKUNNAR - LVI

Löngu fyrir ísöld var Ísland hluti af einhvers konar landbrú milli Norður-Ameríku og Evrópu. Smám saman hvarf þessi landbrú í sjóinn eftir því sem Atlandshafið stækkaði. Þá varð Ísland eyja og trén sem voru á henni fóru að þróast eftir eigin leiðum. Hér voru tré sem sennilega voru hvergi annars staðar í heiminum. Við höfum sagt frá sumum þeirra og munum halda því áfram í náinni framtíð.

En spilin lágu ekki þannig að hér fengju að þróast og vaxa einstök tré á heimsvísu fram á okkar daga. Það fór að kólna. Það endaði með ísöld og þessi einlendu tré hurfu með öllu. Sunnar á hnettinum eru til eyjar sem ekki huldust ísum á þessum tíma. Á mörgum þeirra eru tré og aðrar lífverur sem hvergi eru til nema einmitt þar. Sum þessara trjáa eru engum öðrum lík. Pistill dagsins fjallar um eitt slíkt tré og eyjuna þar sem það er að finna.
 
 

Drekablóðstré, Dracaena cinnabari. Myndin fengin frá Wikipediu. 

Socotra
 
Eyjan Socotra og nágrannaeyjar hennar eru rauðar á þessu korti frá Wikipedia. Eyjan er 380 km suður af Jemen og 240 austan við Sómalíu.

Á milli Indlandshafs og Rauðahafs er Adenflói með Sómalíu í suðri og Arabíuskagann í norðri. Utan við hann eru nokkrar eyjar. Stærst þeirra er eyja sem heitir Socotra. Hún tilheyrir Jemen en er beint undan ströndum Sómalíu. Socotra er ein af þessum eyjum sem hafa einstaka náttúru. Þar er hálfur annar hellingur af einlendum tegundum dýra og plantna. Þær finnast á þessari eyju og hvergi annars staðar nema hvað sumar finnast einnig á nálægum eyjum. 37% af þeim 825 plöntutegundum sem finna má á Socotra vaxa bara þar og hvergi annars staðar. Að auki er sagt að 31 tegund skriðdýra og næstum öll lindýrin (sniglar og þess háttar) sem eru á þessari hálendu eyju séu einlendar.

Tegund sem kallast drekablóðstré, Dracaena Cinnabari, er talin lykiltegund fyrir hin einstöku vistkerfi sem þarna eru. Rannsóknir sýna að tréð skiptir öllu máli fyrir að minnsta kosti 12 einlendar dýrategundir. 10 eðlutegundir, kameljón og snákategund eru talin algerlega háð því. Á þessari sólbökuðu eyju skiptir skuggi trjánna miklu máli og hefur meðal annars áhrif á annan gróður sem aftur skiptir dýralífið máli.
 
 
 

Talið er að þessi eyja geymi sýnishorn af þeirri náttúru sem var bæði í Norður-Afríku og á Arabíuskaga áður en þessir landmassar klofnuðu hvor frá öðrum. Síðan hefur vistkerfi Socotra þróast á eigin forsendum en bæði Afríka og Arabíuskaginn hafa breyst miklu meira. Rétt er að hafa í huga að talið er að lífríki Arabíuskagans hafi verið mun gróskumeira fyrir ekki nema um 7000 árum, en það er nokkur þúsund árum eftir að ísar tóku að hörfa af Íslandi og löngu eftir að Socotra einangraðist frá bæði Afríku og Arabíu. Að koma til Socotra er því að sumu leyti eins og að fara tugþúsundir og aftur þúsundir ára aftur í tímann.

 

Drekablóðstré í sólbökuðum fjöllum Socotra. Myndin fengin héðan en hana tók Rod Waddington.

Mannlífið á þessari eyju er líka einstakt. Þar, eins og svo víða, eru töluð tvö tungumál. Ekki kemur a óvart að annað þeirra er arabíska en hitt heitir soqotri. Sjálfsagt hafa enn færri heyrt um það en eyjuna Socotra. UNESCO hefur skilgreint eyjuna sem sérstakt heimsminjasvæði bæði vegna náttúru og mannlífs. Um eyjuna má fræðast meira á þessari síðu.

Hálendi Socotra er engu líkt. Myndin er héðan en hana tók Zanskar.
 

Útlit

Ekkert í okkar veröld líkist drekablóðstrénu. Þess vegna skulum við reyna að lýsa því en bendum jafnframt á myndirnar ef ykkur þykja lýsingarnar ótrúlegar. Tréð getur orðið um 600 ára gamalt og verður um 9-18 metrar á hæð. Í hinum stóra heimi þykir það ef til vill ekkert voðalega stórt en ekki heldur mjög lítið. Miðlungshátt tré væri það kallað í stóra samhenginu en teldist stórt ef það væri á Íslandi.

Tréð myndar oft einn stofn en stundum myndast nokkrir stofnar. Þeir eru að jafnaði uppréttir og beinir og á helmingi þeirra eða jafnvel allt upp í þrjá/fjórðu eru engar greinar. Bara nakinn, grár stofn. Svo er eins og tréð hafi ákveðið að stofninn sé orðinn nægilega stór. „Hingað og ekki lengra“ gæti hann sagt ef hann gæti talað og kynni íslensku. Þá taka við fjölmargar og fremur smáar greinar sem vaxa í allar áttir. Þær mynda einskonar greinaflækju og minna dálítið á rætur annarra trjáa. Þessar greinar eru að mestu naktar. Lauf myndast aðeins á bláendum þeirra. Ef horft er á tréð úr fjarlægð myndar það eitthvað sem minnir á græna regnhlíf ofan á þráðbeinu skafti. Ef til vill væri meira viðeigandi að tala um sólhlíf en regnhlíf, því algengt er að hitinn fari yfir 30°C á Socotra og ský teljast þar til munaðar. Greinarnar eru þá grindin sem heldur regnhlífinni (eða sólhlífinni) spenntri. Sumar „regnhlífarnar“ líta út fyrir að gegna sínu hlutverki með sóma en aðrar eru eins og þær hafi verið notaðar á Íslandi og fokið upp. Gott er að taka fram að til eru fleiri tegundir trjáa sem hafa svona regnhlífarútlit en fleira kemur til sem gerir þetta tré alveg einstakt.

Rétt er að skoða einstaka hluta þessa einkennilega trés aðeins betur. Áður en við gerum það skulum við, að íslenskum sið, skoða ættfræðina.

 

Tvær regnhlífar. Önnur hefur fokið upp, hin ekki. Myndin er héðan.

Ættfræði 

Drekablóðstré eru einkímblöðungar. Það merkir að þau eru skyldari grasi en flestum þeim trjám sem við þekkjum. Við höfum áður fjallað um tilraunir einkímblöðunga til að mynda tré og sjá má þann pistil hér. Þar er líka útskýrt hver munurinn er á einkímblöðungum og tvíkímblöðungum. Við höfum meira að segja sagt nánar frá einum ættingja þessa trés þegar við heiðruðum þrjátíu ára gamla plötu með írsku hljómsveitinni U2, The Joshua tree. Þau eru af sömu ætt. Í greininni kemur fram að ættin heitir spergilsætt (Asparagaceae) og er lesendum bent á greinina ef þeir vilja fræðast um fjölskyldumeðlimina.

 

Önnur mynd eftir Rod Waddington. Þessi mynd er héðan.

Latínuheiti þessa trés er Dracaena Cinnabari. Ættkvíslarheitið er dregið af gríska orðinu yfir dreka og á flestum tungumálum eru öll tré af þessari ættkvísl kölluð dreka- hitt og þetta. Samkvæmt Orðabanka íslenskrar málstofu á það líka við um íslensku. Þetta tiltekna tré er samt ekki þar en nokkur önnur (og reyndar ekki bara tré) sem öll eru kennd við dreka. Allt í allt eru yfir 100 tegundir til af þessari ættkvísl en aðeins fá þeirra mynda tré. Sum hinna má finna sem stofublóm á Íslandi. Allar þessar rúmlega 100 tegundir vaxa villtar í hitabeltinu og eru, hver um sig, aðeins að finna á afmörkuðum svæðum, svo sem á eyjum. Ef Íslendingar hafa séð einhver tré af þessari ættkvísl er það líklega Dracaena draco, en það tré vex á Kanaríeyjum og gengur líka undir nafninu drekablóðstré.

 

Dracaena draco frá Kanaríeyjum. Þessi tegund er líka kölluð drekablóðstré og er af sömu ættkvísl og okkar tré. Myndin fengin héðan en hana tók Jose Mesa.

Laufin

Þegar tréð er skoðað mætti ætla að það sé dautt en ofan á því vaxi grasþúfur. Laufin eru löng og heilrend, nokkuð mjó miðað við lengd. Þau eru eins og óvenju breið strá frekar en laufblöð. Þau mynda einskonar vöndla og eru aðeins á enda greinanna. Þess vegna sjást engin laufblöð þegar horft er upp í krónuna að neðan. Aðeins greinflækja. Svipuð laufblöð getum við séð á frænkum drekablóðstrésins sem við köllum jukkur. Þær eru víða ræktaðar í stofum landsmanna.

Þessi laufgerð hefur sína kosti. Loftslag á Socotra er þurrt. Það kemur þó fyrir að þoka skríður yfir eyjuna. Laufin geta fangað vatn úr henni og það nýtist trjánum (og reyndar öllu vistkerfinu) þegar lítið annað vatn er að hafa.

 

Laufin á trénu minna meira á gras en trjálauf enda er drekablóð skyldara grasi en venjulegum trjám. Myndin er héðan en hana tók Vladimir Melnik.

Blómgun 

Þessi tré mynda lítil hvít eða rjómagul blóm. Heimildir segja að þau sitji saman á löngum öxum, líkt og við sjáum hjá ýmsum grastegundum, nema hvað grösin mynda sjaldnast litfögur blóm. Á myndum líta þau frekar út eins og sveipur, frekar en öx.

Það sem vekur mesta athygli við þessi blóm er hvernig þau eru frjóvguð. Flestar grastegundir sem við þekkjum treysta algerlega á vindfrjóvgun. Þess vegna þurfa þau ekki að auglýsa sig með einhverjum litum. Drekablóðstréð er stundum talið gera það líka, en þau fá líka hjálp úr óvæntri átt.

 

Drekablóðstré kafin blómum. Mynd: Edoardo Scepi og hann birti hana á www.flickriver.com

Tiltekin runnategund vex mjög gjarnan í nágrenni þessara trjáa. Runnarnir eru aðalheimkynni sérstakra, einlendra eðlutegunda sem kenndar er við eyjuna og kallast einu nafni socotra-eðlur. Sennilega er þó rétt að umrita heitið og skrifa sókótraeðlur. Ein af þessum tegundum er talin svo nátengd drekablóðstrénu að fræðiheiti hennar er dregið af trjátegundinni. Hún heitir Hermidactylus dracaenacolus.

Þegar vísindamenn fóru að skoða þessar eðlur sáu þeir að á trýni margra þeirra var að finna frjókorn drekablóðstrjáa. Ekki ber á öðru en að þessar eðlur skottist upp í tré sem geta verið 18 metrar á hæð og stingi trýninu á kaf í blómin áður en þær leggja í langferð niður stofninn og upp þann næsta til að endurtaka leikinn. Þessi tré eru frjóvguð af eðlum! Það auðveldar ekki þetta ferðalag eðlanna að blómgunin, rétt eins og laufin, er aðeins á ystu greinunum. Um hlutverk eðlutegunda sem frjóbera má fræðast hér.

Ef frjóvgun tekst myndast einhvers konar ber. Þau eru fyrst græn og verða síðan svört er þau þroskast en rauðgul þegar þau eru að fullu þroskuð. Fuglar á eyjunni sækja í þessi ber og dreifa fræjunum með driti sínu. Eflaust spíra mörg þeirra en því miður verða fá þeirra að trjám vegna þess hversu mörgum geitum er beitt á eyjuna. Þær éta litlu trjáplönturnar upp til agna.

Þrjár tegundir af einlendum eðlum sem allar skríða um stofna drekablóðstrés. Myndirnar fengnar héðan.

Drekablóðið 

Eins og svo mörg önnur tré framleiðir þetta tré trjákvoðu sem getur lekið út um sár sem myndast á trénu. Trjákvoðan lokar sárunum og kemur í veg fyrir sýkingar. Þetta er vel þekkt. Það sem gerir trjákvoðuna á þessum trjám svo eftirtektarverða er að hún er blóðrauð. Eflaust eru til einhverjar hrútleiðinlegar, líffræðilegar útlistanir á því af hverju trjákvoðan er svona á litinn. Við sleppum þeim en skoðum frekar þjóðsögurnar. Indversk arfsögn greinir frá því að dreki, sem tákngervingur guðsins Brama, hafi átt í útistöðum við fíl sem er tákngervingur fyrir Shivu. Drekinn hafði betur, náði góðu biti í fílinn og byrjaði strax að drekka úr honum blóðið. Fíllinn stóð dálitla stund en féll að lokum dauður ofan á drekann og varð það honum að aldurtila, enda ekki gott að fá fíl ofan á sig. Blóð þessara beggja dýra blandaðist saman og er enn í trjánum sem uxu upp þar sem einvígið átti sér stað. Önnur útgáfa af sömu sögu er aðeins barnvænni og segir að drekinn hafi aðeins særst í bardaganum við fílinn og af blóði hins særða dreka hafi fyrsta drekablóðstréð vaxið upp. Ekkert segir í þeirri útgáfu frá örlögum fílsins. Grísk saga segir frá dreka sem hélt vörð um gyllt epli. Hafði hann eina 100 hausa. Herkúles drap þann dreka með boga og örvum. Úr sárum drekans lak blóð og upp af því spratt fyrsta drekablóðstré sögunnar.

Þessi eiginleiki trésins, að framleiða eldrauða trjákvoðu, hefur gert það frægt. Það sést meðal annars á því að sögurnar hér að ofan koma frá fjarlægum löndum, Grikklandi og Indlandi. Samt tengjast þær báðar blæðandi drekum.

Safanum hefur í gegnum tíðina verið safnað saman og hann látinn harðna í rauða klumpa. Þeir eru síðan muldir og úr þeim er búið til rautt duft sem nýtt er sem litarefni. Íbúar eyjarinnar hafa einnig nýtt duftið til lækninga en nútíma læknavísindi hafa ekki rennt stoðum undir slíka notkun. Á meðal annarra nota má nefna að kvoðuna má nota sem varalit, lím og sem einskonar lakk á húsgögn og hljóðfæri eins og fiðlur. Er þó aðeins fátt eitt nefnt.
 

Smellið hér til að sjá allan pistil Sigurðar

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga
 
  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

Sigurður Arnarson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:30

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Rúbínreynir

Sigurður Arnarson skrifar
13. nóvember 2024 | kl. 10:00

Alaskasýprus og hringlið með nöfnin

Sigurður Arnarson skrifar
06. nóvember 2024 | kl. 12:45

Gífurrunnar

Sigurður Arnarson skrifar
31. október 2024 | kl. 09:00

Korkeik

Sigurður Arnarson skrifar
23. október 2024 | kl. 10:00