Fara í efni
Svavar Alfreð Jónsson

Kamarsnið á turninum eins og dómkirkjunni

Verðlaunauppdráttur Árna Finsens, vesturhlið Akureyrarkirkju. Myndin birtist í Sögu Akureyrarkirkju.

Haustið 1930 birti hið akureyska bæjarblað Íslendingur greinarkorn sem bar yfirskriftina „Akureyrarkirkja. Hvernig á hún að líta út?“ Þar segir höfundur frá því að hann hafi séð teikningu af nýrri sóknarkirkju á Akureyri í tímaritinu Fálkanum. Ekki leist honum á þá tillögu. Þó tók hann skýrt fram að hann væri einn þeirra sem hefði hug á að ný kirkja risi á Akureyri, „stærri og langtum fegurri en sú sem við höfum“ eins og hann orðaði það og bætti við að hann hefði sýnt dálítinn lit á að hrinda málinu í framkvæmd.

Í pistlinum lýsir skrifari þeirri skoðun sinni að þessi tillaga að framtíðarkirkju mætti vera snotrari og segir:

„Það er aðallega turninn sem mjer er þyrnir í augum. Mjer finnst hann óþolandi. Það er svipað kamarsnið á honum og á dómkirkjuturninum í Reykjavík, nema hvað þessi er grennri og renglulegri, og hvorki til gagns nje gamans.“

Undir greininni standa stafirnir Stgr. Matt. Trúlega er þar um að ræða Steingrím Matthíasson, son þeirra sr. Matthíasar Jochumssonar og konu hans, Guðrúnar Runólfsdóttur. Steingrímur lauk námi í læknisfræði frá Hafnarháskóla árið 1902 og var tæpa þrjá áratugi héraðslæknir og sjúkrahúslæknir á Akureyri. Eiginkona Steingríms, Kristín K. Þ. Thoroddsen, myndlistarkona, gaf Akureyrarkirkju tvær helgimyndir eftir sig skömmu eftir vígslu kirkjunnar árið 1940. Þær voru upphaflega í kór kirkjunnar en þegar myndarúður komu í kórinn voru Maríumyndir Kristínar fluttar fram í kirkjuskipið. Þar eru þær enn. Þess má geta að í byrjun næsta mánaðar verður opnuð í Listasafninu á Akureyri sýning á verkum þessarar stórmerkilegu listakonu.

Akureyrarkirkja Árna varð ekki meira en teikning

Turninn sem fór í taugarnar á höfundi pistilsins í Íslendingi, er að sjálfsögðu ekki að finna á þeirri tillögu sem Guðjón Samúelsson gerði að nýrri sóknarkirkju á Akureyri enda var teikning hans hvorki sú fyrsta né eina sem til hafði orðið af slíku mannvirki. Guðjón lét sér heldur ekki nægja að hafa einn turn á sinni kirkju heldur eru þeir tveir eins og allir vita. Mörgum árum áður en fyrstu drög að þeirri Akureyrarkirkju sem við þekkjum litu dagsins ljóst var efnt til samkeppni um hönnun mannvirkisins. Hún var auglýst í Reykjavíkurblöðunum árið 1930. Sérstök dómnefnd tók afstöðu til þeirra uppdrátta sem bárust. Fimm slíkum var skilað inn og þrír hlutu peningaverðlaun úr sjóðum sóknarnefndar. Árni Finsen, arkitekt, átti verðlaunatillöguna. Árni hafði líka orðið hlutskarpastur í samkeppni um hönnun Siglufjarðarkirkju á sínum tíma en talið er að samkeppnin um kirkjuna á Akureyri sé sú þriðja í húsagerðarlist sem haldin hefur verið á Íslandi.

Siglufjarðarkirkja Árna náði að rísa en Akureyrarkirkja hans varð aldrei annað en teikning. Sjálfsagt var fleiri en ein ástæða fyrir því. Byggingin þótti of stór og dýr þótt hún hafi verið teiknuð samkvæmt forskrift sóknarnefndar. Eflaust hefur mörgum verið svipað innanbrjósts og Steingrími Matthíassyni og ekki fundist kirkjan snotur. Þá hefur verið á það bent að enginn heimamaður hafi átt sæti í dómnefndinni sem valdi bestu tillöguna. Dómnefndarmenn voru allir búsettir í Reykjavík.

Hluti uppdrátta Guðjóns Samúelssonar af Akureyrarkirkju. Til hægri: Útlitsteikning Guðjóns af stafni kirkjunnar. Síðar hækkaði hann burstina, bætti krossinum ofan á og breytti útliti útihurða og skrauti yfir dyrum.

 

Guðjón húsameistari: Matthíasarkirkja

Uppdráttur Árna náði aldrei fylgi hérna fyrir norðan og lítið sem ekkert gerðist í málinu næstu misserin. Árið 1934 kom húsameistari ríkisins, Guðjón Samúelsson, til Akureyrar, til að líta á aðstæður. Ekki er talið að hann hafi tekið að sér hönnun kirkjunnar í þeirri ferð en þá lagði Guðjón til að lagðar yrðu „allt að 10 metra breiðar tröppur af Kaupangsstræti austan Caroline Rest upp höfðann að fyrirhugaðri kirkjubyggingu“ eins og greint er frá í Sögu Akureyrarkirkju. Hugmyndin um kirkjutröppurnar fæddist því mörgum árum áður en kirkjan var teiknuð.

Húsameistari, sóknarprestur og sóknarnefnd héldu áfram að skiptast á skoðunum um málið. Skriður komst á það snemma árs 1938 þegar tilkynnt var á sóknarnefndarfundi, að Guðjón Samúelsson ætlaði að hefjast handa við hönnunina mjög bráðlega eftir að honum bærust nánari fyrirmæli að norðan.

Guðjón Samúelsson stóð við sitt og skilaði frumdrögum að kirkjunni vorið 1938. Við hugmyndavinnuna sá hann fyrir sér kirkju í anda sr. Matthíasar Jochumssonar og strax þá virtist húsameistari ganga út frá því að helgidómurinn á Grófargilshöfðanum yrði nefndur Matthíasarkirkja. Guðjón hafði kirkjuna að nokkru leyti í gotneskum stíl en með íslensku yfirbragði og tók því „stuðlabergið til fyrirmyndar, einkum í báðum turnunum“ eins og arkitektinn sagði í ræðu við vígslu kirkjunnar. Margir töldu, að turnana hefði Guðjón sótt vestur í Vaðalfjöll, tvo gígtappa á fjallinu yfir Skógum í Þorskafirði þar sem sr. Matthías fæddist.

Drepur okkur varla

Fullnaðarteikningar að kirkjunni voru tilbúnar haustið 1938 og sama haust voru þær samþykktar af byggingarnefnd Akureyrar.

„Teikninguna er ég mjög ánægður með. Kirkjan verður falleg innan og svipurinn tilkomumikill framan að utan. Ég trúi ekki, að hún þurfi að vera svo dýr, að það drepi okkur.“

Þannig þakkaði sóknarpresturinn á Akureyri húsameistara ríkisins fyrir hönnun nýrrar kirkju í bænum.

Nú var hægt að sækja haka, skóflur, hamra og sagir. Og kvenfélagið hleypti auknum krafti í kökubakstur.

Séra Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur í Akureyrarkirkju, skrifar að beiðni Akureyri.net, í tilefni 80 ára vígsluafmælis kirkjunnar sem var í gær, þriðjudag. Þetta er þriðja grein Svavars.

Fyrsta grein - Fegursta kirkjustæði hérlendis og erlendis

Önnur grein - Kirkjulegar hvalveiðar og ómetanlegt kvenfélag

Verðlaunauppdráttur Árna Finsens, önnur hlið kirkjunnar og grunnflötur.

Jólakvöld séra Svavars Alfreðs

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 12:30

Orðhákar og töfralausnir

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
14. nóvember 2024 | kl. 08:30

Meðhjálparinn

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
07. nóvember 2024 | kl. 10:30

Karlakór í Kalabríu – II

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
30. október 2024 | kl. 11:00

Karlakór í Kalabríu – I

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
29. október 2024 | kl. 09:30

Eitt sinn voru roskin hjón á Syðri-Brekkunni ung

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
27. september 2024 | kl. 17:00