Fara í efni
Stefán Þór Sæmundsson

Hrossafóður í morgunmat

Aðalsteinn Öfgar hafði samband við mig og sendi mér minningarbrot í tilefni sveiflukenndrar umræðu um tiltekið morgunkorn sem ýmist er leyft, bannað, því breytt, tekið aftur af markaði, breytt til baka og auglýst grimmt. Alli sagðist í fyrra lífi hafa upplifað ansi krassandi stund við morgunverðarborðið þar sem kornmeti þetta bara á góma og hann vildi gjarnan deila þessari gaman- og ádeilusögu með lesendum. Kemur hér pistill hans:

,,Kronsj, krakk, splasj.“ Morgunverðarkornin mölbrotnuðu undan sterkum tönnum Málfríðar Aðalsteinsdóttur, blotnuðu í mjólk og munnvatni og hin margvíslegustu fjörefni runnu ljúflega niður meltingarveginn. Hrossafóður með níasíni, riboflavini, þíamíni, fólinsýru, askorbínsýru, fosfór, járni, kalki, kopar, magnesíum, zinki, prótíni og að sjálfsögðu dægilegu magni af sykri.

Aðalsteinn dundaði sér við að lesa um hollustu fóðursins og samkvæmt upplýsingunum á pökkunum eru kornflögur og hafrahringir allra meina bót. Þessi fóðurbætir inniheldur flest næringarefni sem mannslíkaminn þarfnast, sólskin í hverjum pakka og faglegar ráðleggingar uppeldis- og næringarfræðinga fylgja í kaupbæti. Þess vegna horfði hann hugfanginn á dóttur sína bryðja herlegheitin meðan hann sötraði kaffið og svældi sígarettuna.

„Kronsj, pabbi?“ maulaði dóttirin með spurn í hverjum andlitsdrætti. ,,Af hverju kaupirðu aldrei kókópuss?“

Alli kramdi sígarettuna reiðilega í öskubakkann og svaraði eins stillilega og hann gat en með talsverðum munnherkjum: „Kókópuss. Nei, barnið gott, það er svo hræðilega dýrt og vart nema fyrir tannlækna að kaupa slíkan lúxus. Aldrei fékk ég kókópuss í æsku og langaði þó oft í.“

„Aðalsteinn!“ hrópaði frú Margrét hneyksluð. ,,Þú segir ekki rétt frá, ódámurinn þinn. Við kaupum ekki kókópuss vegna þess að það er svo ógeðslega óhollt. Hvernig dettur þér í hug að tannlæknar kaupi þennan óþverra? Þetta er ekkert nema sykur og aukefni. Þetta er meira að segja bannað í Svíþjóð.“

Frúin var nú orðin allæst, sem ekki kann góðri lukku að stýra svona árla morguns. Alli reyndi að malda í móinn og sagði að kókópuss væri ekkert óhollara en kornflögur og hafrahringir, hann hafði nefnilega lesið utan á alla þessa pakka og allt væri þetta jafnóhollt.

„Nei, það er viðbjóðslegt og barnið skal aldrei fórna tönnum sínum í þann óþverra,“ sagði konan með þjósti.

Hann lét undan síga og kveikti sér í annarri sígarettu.

,,Er hollt að fá kaffi og sígarettu í morgunmat?“ spurði Malla dóttir hans lævíslega.

Magga stirðnaði. „Sérðu fordæmið sem þú gefur dóttur okkar? Út með þig, karlpungur!“ Konan urraði, dóttirin glotti, Alli kveinkaði sér.

„Elskurnar mínar, þegar ég var lítill...“

„Byrjaðu nú ekki,“ hvein í konunni.

Hann hélt þó áfram, afar óstyrkur. ,,Þegar ég var lítill fékk ég hafragraut og lýsi á morgnana. Stundum fékk ég líka hafragraut í hádeginu og á kvöldin. Reyndar var ég alltaf með lýsisflöskuna við höndina og þambaði af stút.“

Mæðgurnar litu forviða á hann og grettu sig.

„Já, ég varð stór og sterkur eins og lög gera ráð fyrir og innbyrti svo mikla hollustu að hún nægir mér fyrir lífstíð. Helst verð ég að skapa dálítið mótvægi með því að ástunda einhverja óhollustu og því fæ ég mér kaffi og sígarettu í morgunmat. Þannig jafnast of mikil hollusta og dálítil óhollusta út í temmilega hollustu.“

Við höfum þessa frásögn Aðalsteins Öfgars ekki lengri. Hvað þessi upprifjun á að fyrirstilla er ekki gott að segja en mikið eru tímarnir breyttir. Kókópuffsið hefur þó lifað af allar hremmingar en blessuð sígarettan hefur breytt um form en líklega er hvorki hollt að sturta í sig miklum sykri né nikótíni og með því óskum við félagarnir ykkur gleðilegra páska.

Hver er sinnar gæfu smiður.

Stefán Þór Sæmundsson er rithöfundur og framhaldsskólakennari

Skelfilegur er skorturinn

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
12. apríl 2025 | kl. 06:00

Hörmungar á hundavaði

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
05. apríl 2025 | kl. 06:00

Erum við kjánar?

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
29. mars 2025 | kl. 06:00

Það tekur enginn sperðlana frá mér

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
22. mars 2025 | kl. 08:00

Um konur og karlrembu

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
15. mars 2025 | kl. 06:00

Búsið úti í buskanum

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
08. mars 2025 | kl. 06:00