Um konur og karlrembu

„Æ, það sem ég þoli ekki þetta stanslausa suð um bakslag í baráttunni. Í þessari gegndarlausu vók-umræðu virðist spjótunum endalaust beint að karlmönnum og því fólki sem er svo óheppið að vera bara venjulegt og gagnkynhneigt og sífellt er sífrað um að konur og kvár og alls konar bókstafir og skilgreiningar eigi undir högg að sækja. Kommon, hvað kemur mér þetta við? Ég er búinn að vera jafnréttissinni og jafnvel femínisti í 50 ár en ég þori varla út úr dyrum því ég er miðaldra gagnkynhneigður karlmaður, fulltrúi feðraveldis og ábyggilega kvenhatari og hómófóbískur, þversum og samansúrraður, syndaselur, perri og pjáturkarl!“
Já, góðan daginn, þetta var hressileg opnun hjá Aðalsteini Öfgari. Ég bauð honum í bröns á Teríunni og sennilega fékk hann sér hraustlega af freyðivíninu. Allavega sauð á honum undir umtalinu 8. mars á alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Ég skil ekki alveg hvað fór svona öfugt ofan í vin minn því auðvitað lýkur jafnfréttisbaráttunni aldrei og konur virðast enn þurfa að berjast fyrir tilveru sinni og sjálfsögðum hlutum eins og að njóta launa, virðingar og stöðu til jafns við karla. Mér finnst ömurlegt að heyra um aukna hlutgervingu kvenna, allt ofbeldið og niðurlæginguna og sömuleiðis ef þau sem eru samkynhneigð, kynsegin eða eitthvað á skjön við normið búi við vaxandi hatursorðræðu. Þetta hlýtur með réttu að kallast bakslag og benti ég Alla á það.
„Gott og vel,“ dæsti hann ofan í laxinn. „Mér finnst hins vegar að meint bakslag sem sífellt er verið að sífra um geti líka átt við tilverurétt karlmanna. Ég held að venjulegur miðaldra karl í dag sé ekkert allt of sáttur í eigin skinni því hann hefur vókveröldina á móti sér. Ofbeldi gagnvart karlmönnum fer ekki hátt og á mörgum vinnustöðum hafa karlar skyndilega dagað uppi í minnihluta og ekki náð vopnum sínum. Það virðist alltaf gengið út frá því að verið sé að níðast á minnihlutahópum og þá væntanlega af hendi karlmanna. Konur eru enginn minnihlutahópur, þær eru nánast jafnmargar karlmönnum og svo sannarlega í ráðandi stöðum á Íslandi.“
Ég held að Aðalsteinn sé nú nær því að vera karlremba en femínisti og þetta með stöðu karlmanna í dag er efni í aðra umræðu. Bakslagið er bláköld staðreynd fyrir konur og ýmsa minnihlutahópa. Við erum ekki bara að tala um einhverja vitleysinga í Bandaríkjunum og kjána á TikTok (sem ætti auðvitað að vera búið að loka á fyrir löngu) því við verðum að hlusta á umræðuna hér á landi og þá upplifun sem mörg hafa verið að lýsa opinberlega. Íslendingar eru víst ekkert barnanna bestir þótt þeir telji sig jafnréttissinna og fagni fjölbreytileikanum á tyllidögum.
Að lokum mætti kannski segja að ef karlmönnum finnst á sig hallað þá ættu þeir að taka upp aðferðir sem konur eru svo góðar í, að stofna baráttuhópa, vinna saman, efla sjálfa sig og hætta að gjamma hver í sínu horni. Sennilega tómt mál um að tala því karlmenn eru jú upp til hópa ansi miklir egóistar og grunnt á rembunni.
Stefán Þór Sæmundsson er framhaldsskólakennari og skáld


Auðnutittlingur

Linduveðrið

Sandhóllinn

Búsið úti í buskanum
