Það tekur enginn sperðlana frá mér

Sennilega hef ég fárast yfir forræðishyggju heilsupostula, sjálfskipaðra sem opinberra, jafn lengi og ég hef skrifað pistla. Það eru að verða hátt í fjörutíu ár. Já, alveg frá því á níunda áratug síðustu aldar hef ég leynt og ljóst hæðst að þeim sem hafa boðað líkamsrækt, grasát, vatnsþamb, reykleysi, sætindabann og bindindi á nánast allt sem gleður mannsins hjarta. Með árunum fór ég reyndar eitthvað að þroskast og hef nú átt ansi langan tíma þar sem hollusta og heilbrigði hafa verið í fyrirrúmi en þó aldrei algjörlega. Mér líður hvað best á einhvers konar Miðjarðarhafsmataræði og í reglulegri rækt en sukkið hellist þó stundum yfir mann; sveittur borgari, sætindi og annað eitur.
Með því að reyna að fylgjast vel með í heimi heilsufræða, s.s. á netinu, get ég séð hvað ég hef gert margt rangt um ævina og freistað þess að gera betur. Í einhverjum tilfellum er kannski fullseint í rassinn gripið og svo gerir öll þessi lesning það að verkum að ég fæ ógurlega sektarkennd eftir sukkið þegar slíkar bylgjur ríða yfir. Lífið einkennist því af hringrásinni glæpur, refsing, góðir siðir. Svo er reyndar síbreytilegt hvers lags fæði og lífstíll á að gera mann heilbrigðan og hamingjusaman en líklega væri hægt að beita almennri skynsemi og hófsemi til að jafna út slíkt ósamræmi.
Nú hafa landlæknir og heilbrigðisráðherra, sem mér finnst alltaf vera sama manneskjan eða apparatið, gefið út leiðbeiningar til handa þjóð vorri um hvað hún á að éta. Þetta eru fimm skammtar af ávöxtum og grænmeti á dag, fiskur þrisvar í viku, fituskertar mjólkurafurðir, fræ, korn og ber og svo ólívuolíu hellt yfir allt saman og vatn drukkið með og þú skalt eigi aðra drykki hafa.
„Þetta eru ofsóknir, einelti, kúgun, slaufun og smánun í sama pakkanum!“ orgaði Aðalsteinn vinur minn Öfgar þegar ég ræddi manneldisstefnu stjórnvalda við hann. „Ég hef þegar lent í því í Hagkaup að tattúverað og ljósabekkjabrúnt lið gerir athugasemdir við það sem ég set í innkaupakörfuna og ein upplituð skinkan nánast orgaði á mig þegar hún sá mig setja pakka með fjórum sperðlum í körfuna ofan á allt súkkulaðið, lakkrísinn og kókið sem ég ætlaði að hafa með boltanum á laugardaginn.“
Vinur minn var farinn að orga og rýta og standa á öndinni eins og íþróttafréttamaður einn þegar hann lýsir skíðagöngu. „Sko, það skal enginn taka það af mér að borða steiktar kjötfarsbollur eða soðnar með bræddu smjörlíki, pylsur, sperðla, kjötbúðing, fiskbúðing í dós, franskbrauð með miklu smjeri og spægipylsu, pakkasúpur, Royal búðing, djúpsteikt hnossgæti, lúgumat, kók og sælgæti svo ég tali nú ekki um nokkra öllara yfir boltanum og kartöfluflögur með,“ sagði Alli ákveðinn.
Ég reyndi að benda honum á að þetta væri bráðdrepandi en þá hafði hann lesið öðruvísi í skilaboð hins opinbera en ég. „Þessi manneldisstefna beinist að unga fólkinu til þess að það verði ekki eins og við í framtíðinni, með annan fótinn hjá lækni og hinn… í einhverri meðferð, skilurðu? Það er um seinan að bjarga okkur. Við ólumst upp við þetta feita, saltaða og reykta lostæti sem var stútfullt af efnum sem hvergi væru leyfð í dag. Bara fínt að reyna að breyta þessu fyrir framtíðina en ef ég færi að skipta yfir í grasafæði myndi allt hrynja, svipað og þegar læknar ráða gömlu fólki frá því að hætta að reykja því líkaminn þolir ekki svona drastískar breytingar og enn síður sálin.“
Þetta var speki dagsins frá Aðalsteini. Eins og einhverjir muna kannski hætti hann þó að reykja fyrir ansi mörgum árum en jórtrar nikótíntyggjó af svo miklu offorsi að fyllingar hrynja úr tönnunum. Kannski er eitthvað til í því að fólk í kringum lífeyrisaldur kaupir sér ekki heilbrigði með því að skipta um mataræði en ég held þó að öllum sé hollt að hugsa hvað þeir láta ofan í sig – og hvaðan það kemur.
Góðar stundir.
Stefán Þór Sæmundsson er framhaldsskólakennari á Akureyri


Fíkn og viðhorf

Hús dagsins: Aðalstræti 66; Indriðahús

Selur í eldhúsvaski

Erum við kjánar?
