Búsið úti í buskanum

Ég hitti vin minn Aðalstein Öfgar á mánudaginn og hann var gjörsamlega miður sín yfir því að ríkið eina og sanna, sem nú kallast víst Vínbúðin og skartar girnilegum þrúgum í merki sínu, skyldi hafa flutt úr Hólabrautinni lengst norður í rassgat, eins og hann orðaði það. Reyndar hélt ég að Alli væri hættur að sækja í þessar vörur en svo reyndist ekki vera og sorgin hjá Eyrarpúkanum var sönn, enda ansi langt að fara úr Norðurgötunni á Norðurtorg. Ekki síst vegna þess að hann hafði tileinkað sér bíllausan lífsstíl, ehemm (ræskingar og hósti).
Gott og vel. Ég skildi alveg sjónarmið hans. Göngufæri við ríkið í alla þessa áratugi og allt í einu búið og bless. Hundruð manna ráku upp ramakvein á netinu og vorkenndu sjálfum sér og túristum fyrir það að þurfa að ferðast norður að endimörkum alheimsins til að sækja sér brjóstbirtu. Já, furðulegt. Það var eins og alheimurinn væri Miðbærinn, Eyrin, Neðri brekkan og kannski Innbærinn - svo ferðamennirnir. Hvað með Þorparana? Nú er Síðuhverfi komið í kallfæri við Vínbúðina, Bónus, Rúmfó, Ormsson og aðrar lífsins nauðsynjar og skyndilega orðið afar búsældarlegt norðan ár. Þeir eru meira að segja með heilsugæslu þarna í Þorpinu.
„Sko, þetta er reyndar alveg í góðu lagi ef fólk bara fattar það,“ sagði Alli kampakátur. „Ég var að komast að því að hérna á Eyrinni má fá bjór og vín í skúr, bara ef maður pantar á netinu. Þetta er víst erlend netverslun með útibú hérna og þess vegna alveg löglegt. Samt er hún ekkert erlend, sko. Ef ég nenni ekki að skrölta í skúrinn get ég líka fengið heimsent fyrir tvö þúsund kall. Þetta er bara draumastaða alkans,“ sagði Alli hinn sprækasti; hafði greinilega tekið gleði sína að nýju og prísaði nú einkaframtakið sem annars hafði verið þyrnir í augum hans og annarra vinstrimanna.
Já, frelsið er yndislegt. Von bráðar verður búsið komið í matvöruverslanir og bensínstöðvar, annað hvort undir merkjum erlendrar netverslunar eða nýrra laga. Þetta hefur verið þjóðaríþrótt ungra Sjálfstæðismanna svo lengi sem ég man eftir mér. Dropinn holar steininn og á endanum nær þetta í gegn því löggjafinn nennir þessu ekki, eins og dæmin sýna með Árna nokkurn sem kærði athæfið fyrr fimm árum og ekkert hefur gerst.
Satt að segja skil ég ekki hvers vegna það er svona mikilvægt og bráðnauðsynlegt að þeir ágætu athafnamenn sem hafa tryggt sér umboð fyrir hinar og þessar áfengistegundir geti selt þær hvar og hvenær sem er á vængjum frelsis og einkaframtaks – á sama tíma og afleiðingarnar lenda á heilbrigðisstofnunum ríkisins, sem Sjálfstæðismenn elska að hata og vilja alls ekki greiða skatta til að fjármagna „báknið“. Ég veit ekki betur en að aðgengi að áfengi sé alveg prýðilegt hér á landi og varla hægt að tala um höft og frelsisskerðingu og svo er varla til of mikils mælst að fólk sýni fyrirhyggju og birgi sig upp að einhverju leyti.
„Heyrðu, svo er auðvitað ókeypis í strætó,“ bætti Aðalsteinn við. „Ég var búinn að gleyma því, maður. Ekkert vol eða væl, öll lífsins gæði á Akureyri. Maður þarf bara aðeins að venjast breytingum, skilurðu. Eins og þegar Rúmfó flutti úr göngufæri á Glerártorgi út í buskann og breyttist í Jysk. Þetta var áfall en maður kemst yfir það. En ég vona bara að það verði áfram ókeypis í strætisvagninn og að nafninu verði ekki breytt í bus eða buss.“
Svo mörg voru þau orð.
Stefán Þór Sæmundsson er roskinn ríkisstarfsmaður


Bönnum þessa barbara

Kjaftagleiðir Akureyringar

Alsæll utan þjónustusvæðis

Er búið að rústa samfélaginu?
