Bönnum þessa barbara
„Hvernig stendur á því að okkar ágætu vinir og grannar á Bretlandseyjum virðast ekkert hafa þroskast síðan maður kynntist þeim fyrst á áttunda áratug síðustu aldar? Hefur nútíminn ekki haldið innreið sína í sjálft heimsveldið, eru þetta ennþá sömu barbararnir sem slást á fótboltaleikjum, hanga á kránni, koma heim og berja konuna sína og taka svo fjölskylduna einu sinni á ári til sólarlanda og halda áfram að hanga á barnum, berja konuna, öskra á krakkana og leggja undir sig heilu hverfin með róstum og ribbaldahætti?“
Aðalsteinn Öfgar slengdi þessu framan í mig þegar ég hitti hann um daginn en einmitt þá var verið að segja frá því í fréttum að yfirvöld í Prag vilja banna skipulagðar krárferðir í þessari ágætu bjórborg og er spjótunum sérstaklega beint að Bretum sem flykkjast þangað í steggjapartí eða vinnustaðaferðir til að þamba ódýran bjór. Eins og kráarölt getur verið hugguleg afþreying þá breytist stemningin auðveldlega í skrílslæti þegar fullir Bretar eiga í hlut.
„Íslendingar og Bretar voru svo sem í svipuðum klassa í sólarlandaferðum kringum 1970 og fram undir 2000 en þótt ég hafi ekki ferðast mikið eftir það hef ég alveg heyrt að þetta hafi gjörbreyst til hins betra hjá Íslendingum. Hins vegar er alls staðar verið að kvarta undan Bretum, sérstaklega á Mallorka og Kanaríeyjum og örugglega víðar á Spáni en líka í Amsterdam og núna Prag. Blindfullur skríll, öskrandi og skemmandi allan sólarhringinn. Það ætti að banna þessa barbara,“ sagði Aðalsteinn þungur á brún.
Ég velti vöngum yfir þessu og eftir að hafa ferðast býsna mikið undanfarinn aldarfjórðung gat ég hæglega staðfest þetta með Bretana – eða vissa tegund af Bretum, sem ég veit ekki alveg undir hvað skal flokka. „British lower middle class white trash,“ hreytti Alli út úr sér þegar ég bar vandræði mín undir hann enda hef ég sjálfur aðallega kynnst siðfáguðum, vel talandi og prúðum Bretum.
Kannski er það þessi landlæga stéttaskipting sem er rót vandans, margir eru fastir í fátækragildru, dæmdir til að verja ævinni í tiltekinni stétt í ákveðnu umhverfi þar sem allt er löðrandi í félagslegum vandamálum og sama lífsmynstrið og vandamálin erfast kynslóð fram af kynslóð. Beiskja, gremja, slæm kjör, atvinnuleysi, hrörlegt húsnæði, reiði, drykkjuskapur, óréttlæti; allt saman hráefni í eitraðan kokteil.
Nei, ég þekki ekki nógu vel til Breta til að geta krufið þetta til mergjar en ég viðurkenni að ég forðast allt sem kallast bresk hverfi eða British pub, English pub, Irish pub og þess háttar í utanförum mínum. Á Mallorka sneiðir maður hjá Magaluf, á Tenerife tekur maður marga króka þarna suðurfrá en best finnst mér að vera norður í Puerto de la Cruz, þar er ekki þessi þjóðflokkur á sveimi. Maður þarf að passa sig víða á Spáni, í Grikklandi og Tyrklandi og víðar, til að lenda ekki á hóteli með Bretum af þessu tagi. Slíkt gæti rústað fríinu.
Ég var einhverju sinni á hóteli í Marmaris í Tyrklandi. Þetta voru margar byggingar og ágætlega friðsælt hjá okkur. Margt fallegt að sjá og skoða í grenndinni og maður var svo sem ekki mikið á hótelinu. Það vakti hins vegar athygli mína að sjá breskar fjölskyldur standa lon og don við sundlaugarbarinn, karlarnir bleiksveittir á bumbunni undir skyggni með bjórkrúsina gróna við greipina, konurnar stundum í sólbaði með kokteil en oft við barborðið og krakkarnir héngu vælandi í foreldrunum. Svona virtist þetta ganga dag eftir dag og iðulega brutust út læti og leiðindi.
Jæja, við skulum vona að Eyjólfur hressist en nýjasta dæmið er þegar við feðgar fórum til Rómar á dögunum á tónleika með David Gilmour þá sátu ansi drukknir og háværir karlmenn fyrir aftan okkur og orguðu „Wish you were here“ og fleiri lög og yfirgnæfðu stundum meistarann. „British blokes,“ tautaði ég stundarhátt. „No, we are Irish,“ gall þá við í einum fyrir aftan. Einmitt það. Sama hvaðan „gott kemur“ en ég ætla að leyfa Aðalsteini Öfgari að eiga lokaorðin – sem verða þau síðustu frá honum á þessum vettvangi:
„Sko, ef áfengið breytir manni í svín og það endurtekið, jafnvel heila svínastíu, þá er kominn tími til að horfast í augu við vandann og leita sér hjálpar.“
Þetta var speki dagsins frá manni sem nú hefur verið leystur upp eins og Mangi forðum, leynivinur Einars Áskels. Ég þakka þeim sem nenntu að fylgjast með okkur félögunum. Lifið heil.
Stefán Þór Sæmundsson er íslenskukennari og skáld