Fara í efni
Stefán Þór Sæmundsson

Eigum við að fagna fjölbreytileikanum?

Níundi pistill Stefáns Þórs Sæmundssonar þar sem þeir Aðalsteinn Öfgar velta vöngum um eitt og annað í samfélaginu._ _ _

Margir frasar hafa tröllriðið íslensku samfélagi undanfarin ár. Einn þeirra er „fögnum fjölbreytileikanum“ og virkar að sumra mati sem lofgjörð til þess að flytja mismunandi kynþætti til Íslands, fá fulltrúa sem flestra trúarbragða og umfram allt lofa og prísa alls konar kynhneigð, menningarstrauma, lífsviðhorf og skoðanir þannig að hér myndist eins konar suðupottur fjölmenningar og það sem áður kallaðist íslensk menning, þjóðerniskennd og lopapeysulýðræði þurrkist jafnvel endanlega út. Margir eru á báðum áttum en vinur minn, Aðalsteinn Öfgar, er ekki par hrifinn af þessari þróun og kennir oftast óskilgreindu „góða fólki“ um flest sem bjátar á.

Ég hafði brugðið mér í heimsókn til hans með flösku af Stolichnaya vodka, sem ég keypti í fríhöfninni. Mér varð alltaf hálf óglatt þegar hann var sífellt að skvetta íslensku brennivíni út í kaffið hjá sér en ég fékk ógeð á þeim vökva á sautjánda ári eftir, tja, of mikla notkun. Síðan hef ég ekki drukkið þann eðla drykk en viðurkenni að hafa á nokkrum tímabilum drukkið ýmislegt annað. Jæja, Alli var ánægður með vodkann – eða vodkað. Hvort segið þið? Þegar við vorum fyrir austan í vegagerð sögðu sumir volka og töluðu líka um valtrara. Stórundarlegt fólk á Austfjörðum.

„Ég held að þetta sé allt sprottið af svokölluðu „broken wing syndrome“ viðkvæmra unglingsstúlkna,“ sagði Aðalsteinn og afmeyjaði flöskuna. „Þú veist, stelpurnar voru alltaf að reyna að bjarga vængbrotnum þröstum, höltum köttum, afvelta flugum og máttu aldrei neitt aumt sjá. Svo þegar framhaldsskóla var að ljúka vildu þær fara til Afríku og bjarga soltnum börnum, vinna alls konar sjálfboðaliðastörf og í rauninni bjarga öllum sem áttu bágt í heiminum. Vinna á barnaheimilum og í kattaathvarfi. Þetta voru rosalega háleit markmið og fallegar hugsjónir en að mestu leyti óraunhæfar.“

Hann gretti sig þegar félagi Stoli sveið kokið.

„Þetta minnir auðvitað á aðeins eldri félaga mína sem voru uppteknir af Víetnam og svo þegar það stríð fjaraði út í ást og friði hippakynslóðarinnar fundu menn ný gæludýr og þar á meðal Palestínuaraba og þannig er staðan enn og óbreytt eftir meira en hálfa öld og raunar nær sagan enn lengra aftur. Ísraelsmönnum var plantað niður þarna í Mið-Austurlöndum og í meðvirkni og skömm gyðingaofsókna nasismans hefur þeim leyfst að kúga nágranna sína allar götur síðan.“

„Alli, ég held að lesendur…“

„Nei, bíddu,“ greip Aðalsteinn fram í fyrir mér. „Ég er ekki á móti innflytjendum eða þeim sem eru með aðra kynhneigð en ég. Og ég er alls ekki gyðingahatari. Ekki misskilja mig. Málið er bara það að þessir frasar eins og „öll velkomin“ og „engin landamæri“ eru ekki viðurkenndir af stjórnvöldum og eru barnslegir angar af þeirri samúð og aumingjagæsku sem ég var að tala um. Ef við vitum af einhverjum fötluðum, svörtum, múslímskum og stríðshrjáðum einstaklingi í austurlöndum fjær eða nær verðum við að bjarga honum. Sérstaklega ef hann er Palestínumaður. Skítt með þá sem eru að deyja í Súdan, Úganda, Myanmar, á götum Reykjavíkur eða einhvers staðar í rassgati, við veljum okkur alltaf einhverja fugla með brotna vængi og leggjum allt í sölurnar og ef einhver slær varnagla er sá hinn sami fasisti, nasisti, hægri öfgamaður eða eitthvað ámóta sem samgóðafylkingarliðið getur elskað að hata.“

Nú þurfti ég að grípa í taumana. „Sko, Alli minn. Ef við ættum ekki fólk sem vill bjarga heimilislausum köttum, vængbrotnum fuglum, stríðshrjáðu fólki frá Úkraínu eða Palestínu þá værum við tilfinningalaus og ómennsk. Við hljótum að vilja styðja við þá sem minna mega sín, það er í eðli Íslendingsins og við stöndum saman ef eitthvað bjátar á eins og náttúruhamfarir innanlands hafa sannað.“

Alli gretti sig meira eftir mjög stóran sjúss. „Bla, bla, þetta er bara ekki veruleikinn. Hvað er að gerast í Bretlandi og víðar? Hvað með það sem er að gerast hér og það á ofboðslega skömmum tíma, allt í hers höndum á Suðurnesjum, leigubílstjórarnir, heiðursofbeldið, Kourani fíflið; það er bara allt að fara til andskotans. Þrír fjórðu fanga eru erlendir, við erum að drukkna í hroða og það má ekki tala um þetta fyrir góða fólkinu sem bendir bara á krúttlegar dagskrár þar sem hinir ýmsu menningarheimar bera á borð eitthvert góðgæti fá heimalandinu eða sýnir dansa og það á að vera dæmi um þennan yndislega fjölbreytileika, voðalega spennandi matarmenning og allir fjölmiðlar að springa úr gleði. Já, margt gott um þetta að segja en staðreyndin er sú að heittrúaðir múslimar vilja ekki samlagast vestrænu samfélagi, þeir hata okkur og vilja skaða okkur, jafnt Palestínumenn sem aðrir. Hver gaf þeim skotleyfi á okkur Íslendinga? Eða er ekki til lengur neitt sem heitir Íslendingar, bara alþjóðleg samsuða á ótilteknu landsvæði?“

Þar sem ég er að eigin mati öfgalaus og drekk ekki vodka þá lét ég mig hverfa fljótlega úr leiguíbúð Aðalsteins í Norðurgötunni. Það er bara orðið rosalega erfitt að hafa samúð með lítilmagnanum en vilja líka halda í íslenska menningu og siði. Hver ræður því hverjum er hjálpað og hverjir byggja Ísland? Ég hef heyrt suma segja að við séum svo ofboðslega rík og hér svo rosalega mikið pláss að við gætum tekið við öllum sem vilja flýja hingað. Ég veit ekki.

Samt sem áður, þótt ég unni landi og þjóð og tungu vorri gæti ég aldrei orðið hægri öfgamaður. Við hjónin eigum tengdadætur frá Póllandi, Kína og Kanada/Lettlandi og ég þekki og hef kennt fólki sem er ekki við eina fjölina fellt og sem fyrirmynd og lærifaðir virði ég fjölbreytileikann en fjandakornið, við megum ekki vera eins hysterísk og Aðalsteinn Öfgar er að lýsa en þó æskilegt að varðveita þann menningararf sem okkur var trúað fyrir.

Lifi ljósið, ástin og umburðarlyndið.

Stefán Þór Sæmundsson er kennari og skáld.

Nenni ekki þessu kennaravæli

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
01. nóvember 2024 | kl. 14:00

Bönnum þessa barbara

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
19. október 2024 | kl. 06:00

Kjaftagleiðir Akureyringar

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
12. október 2024 | kl. 06:00

Alsæll utan þjónustusvæðis

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
05. október 2024 | kl. 06:00

Er búið að rústa samfélaginu?

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
28. september 2024 | kl. 06:00

Troðum í okkur töflum

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
21. september 2024 | kl. 06:00