Virðum þjóðarviljann
Heilbrigðiskerfið var langstærsta kosningamálið fyrir fjórum árum – en heilu kjörtímabili síðar hefur lítið breyst. Var þó eindreginn þjóðarvilji fyrir því að styrkja þetta kerfi.
Staðan á Landspítalanum, gjörgæslunni og bráðamóttökunni er „einu rútuslysi frá neyðarástandi“ eins og fagfólk hefur sagt og langir biðlistar eftir nauðsynlegum aðgerðum hafa líklega ekki farið framhjá neinum. Fólk í neyð bíður líka eftir að komast að í bráðnauðsynlega geðheilbrigðisþjónustu og einföldustu læknisaðstoð. Það ríkir sár skortur á fæðingarþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins, leghálsskimanir eru í ólestri og hjúkrunarrými vantar fyrir þau elstu og veikustu.
Samfylkingin ætlar að snúa við blaðinu í heilbrigðismálum. Við viljum auka fjármagn til opinberrar heilbrigðisþjónustu, ráðast í aðgerðir gegn undirmönnun og stytta biðlista eftir brýnum aðgerðum. Við viljum ráðast í þjóðarátak í geðheilbrigðismálum um allt land. Gera geðheilbrigðisþjónustu að hluta af almenna heilbrigðiskerfinu og vinna markvisst niður biðlista barna og ungmenna eftir nauðsynlegri þjónustu. Við viljum líka að innleiða gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu fyrir börn og ungmenni – rétt eins og við gerðum með tannlæknaþjónustu þegar Samfylkingin var í ríkisstjórn. Við ætlum líka að greiða allan ferðakostnað innanlands vegna nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu við fólk fjarri heimabyggð – því það er dýrt að veikjast á Íslandi, en fokdýrt ef þú býrð utan höfuðborgarsvæðisins.
Samkvæmt lögum er það á ábyrgð ríkisins að veita öllum heilbrigðisþjónustu en staðreyndin er sú að því lengra sem farið er frá höfuðborgarsvæðinu þeim mun minni verður þjónustan. Í þessu felst mikið óréttlæti. Samfylkingin er staðráðin í að jafna aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu um allt land; með ákvæðum um starfsaðstæður og kjör heilbrigðisstétta og fjárfestingu í tæknilausnum til fjarlækninga. Þá viljum við tryggja mun betra aðgengi fólks í kjördæminu að heilsugæslu og geðheilbrigðisúrræðum. Við viljum einnig gera Sjúkrahúsið á Akureyri að háskólasjúkrahúsi og efla áfram Umdæmissjúkrahús Austurlands í Neskaupstað.
Það er löngu kominn tími til að hlusta á raddir heilbrigðisstarfsfólks sem hefur lengi kallað eftir umbótum. Stjórnvöld geta ekki lengur vikið sér undan því að bæta heilbrigðisþjónustuna með öllum ráðum.
Kjósum sterkara, heilbrigðara samfélag. Kjósum Samfylkinguna.
Logi Einarsson er formaður Samfylkingarinnar og oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi.