Fara í efni
Umræðan

Út á guð og gaddinn

Á dögunum bárust Akureyringum til eyrna þær fregnir að verið væri að brýna niðurskurðarkutann hjá stjórn Akureyrarbæjar. Þannig fréttir eru alltaf slæmar og þegar sveðjunni er beint að viðkvæmum málefnum og hópum, eru slíkar aðfarir bæjarstjórn síst til sóma.

Á tímum sem kalla beinlínis á nýja almenningssundlaug á Akureyri, þar sem Akureyrarlaug er, ef marka má aðsóknina, að verða, eða orðin of lítil og er auk þess í miðju bæjarins, víðs fjarri úthverfunum, er í athugun að loka Glerársundlaug fyrir almenningi og taka þannig af stórum hópi eina úrræðið sem hann hefur til viðhalds kroppi og sál.

Fyrir utan minnstu börnin sem koma til að busla og læra á lífið í hlýrri og notalegri lauginni, koma í hana stórir hópar glaðra barna sem æfa þar sund og fá um leið andlega örvun og handleiðslu í lífsleikni hjá elsku Dillu.

Í Glerárlaug kemur einnig fólk með stoðkerfisvandamál, eldra fólk og fatlað til að þjálfa sig, auk þess sem fjölmennur hópur fólks mætir þangað eftir aðgerðir eða erfið veikindi og þarf á endurhæfingu að halda. Glerársundlaug hefur gegnt stóru hlutverki fyrir þetta fólk og sumir væru ekki færir um nema brot af því sem þeir geta í dag, ættu þeir ekki þennan griðarstað og frábæran sjúkraþjálfara sem hefur af fórnfýsi og hlýju haldið mörgum bókstaflega gangandi í gegnum árin, andlega og líkamlega.

Við annan enda Glerársundlaugar er stóll í lyftu fyrir þá sem af ýmsum ástæðum geta ekki sjálfir komið sér ofan í laugina og í hinum endanum eru tröppur sem hafa svo sannarlega sannað gildi sitt fyrir fatlað og veikt fólk.

Bent hefur verið á að til séu aðrar sundlaugar og það geti varla verið svo erfitt að fara í þær. En málið er hreint ekki svo einfalt.

Flöskuhálsinn er aðgengið að Akureyrarsundlaug, því að fyrir fólk sem þarf að þjálfa sig er ekki nóg að til sé stór og flott sundlaug, það þarf líka að bjóða upp á auðvelda leið ofan í hana. Sú leið er ekki til í Akureyrarsundlaug og því mun þónokkur hópur eldra fólks og eða fatlaðs hætta að fá þá hjálp sem sundiðkun og sundleikfimi hefur verið því. Sundlaugin er auk þess mun kaldari en Glerárlaug, enda ekki til þess gerð að endurhæfa hægfara fólk og koma því í virkni. Til þess þarf sérhannaða laug eins og Glerársundlaug.

Um innilaugina þarf ekki að fjölyrða, hún er einungis aðgengileg þeim sem geta skoppað stiga upp og niður án mikilla vandkvæða. Fyrir svo utan að í hana vantar einnig þau hjálpartæki sem fötluðum eru nauðsynleg. Svo mætti hugleiða hvort pláss sé fyrir meiri starfsemi í Akureyrarlaug og hvort þyrfti þá fleira starfsfólk í afgreiðslu og klefagæslu ...

Glerársundlaug var byggð í samstarfi við Sjálfsbjörg, því að það vantaði þjálfunarlaug fyrir skjólstæðinga hennar. Því var hún hönnuð með þá í huga og þó að Sjálfsbjörg hafi síðar gengið úr skaftinu og Akureyrarbær yfirtekið reksturinn, er Glerársundlaug enn sú eina sem sinnt getur þeim viðkvæma hópi fólks sem nú á að úthýsa. Hætt er við að sparnaður í þessa veru snúist í andhverfu sína þegar frá líður, því að þeir sem mest þurfa á þjónustu Glerársundlaugar að halda, gætu endað sem „byrði" á heilbrigðiskerfinu og það er líka dýrt. Nema auðvitað að þeir yrðu settir á jötu gleymskunnar, þar sem aldrei er gefið á garðann. Það yrði þá ekki í fyrsta skipti sem heilbrigðiskerfið brygðist fólki.

Við getum engan veginn unað því að eina úrræði margra til endurhæfingar og þar með betra lífs, verði troðið ofan í kokið á okkur. Því biðjum við bæjarstjórn Akureyrar að endurskoða þessa afleitu hugmynd.

Anna Dóra Gunnarsdóttir og Margrét S. Kristjánsdóttir eru fastagestir í Glerárlaug og hafa árum saman stundað þar sundleikfimi.

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00