Fara í efni
Umræðan

Skóli og Samfélag – Stormasamir dagar í danska bænum

Rekstur framhaldsskóla er í höndum ríkisins en ríkið á ekki framhaldsskólana. Eða hvað?

Nei, ég held við gætum ekki fallist á það.

Öllu heldur er það samfélagið sem á skólana. En hvaða samfélag, spyr nú einhver? Getum við slegið hring utan um þetta samfélag, þar sem sumir fá að tjá sig um framtíðarsýn og þróun einstaka skóla, og aðrir ekki? Og eru kannski sumar skoðanir ranglátar og aðrar réttlátar í þessum efnum?

Ég held við verðum að fara varlega og kæfa ekki nauðsynlega umræðu um þróun skólastarfs, bæði á Íslandi öllu og hér á Akureyri sérstaklega. Þetta er umræða sem þarf að vera opin og fagleg. Okkar skilaboð til skólanna mega heldur ekki vera þau að breytingar séu forboðnar. Samfélagið er á fleygiferð og það má vel vera að við séum komin á þann stað, að það sé ekki lengur val skólanna okkar breytast í takt við tímann, heldur hrein nauðsyn.

En þótt umræðan þurfi að vera bæði opin og fagleg þá getum við að sjálfsögðu ekki útilokað tilfinningar. Fleira kemur líka til en bara þróun kennsluhátta og námsframboðs. Skólabragur og menning standa ekki fyrir utan menntun. Öllu heldur, mennt og menning sameinast í skólastarfi. Þar fyrir utan eru mennt og menning máttur hvers byggðarlags. Þess vegna getum við treyst því að sérhvert byggðarlag kemur til með að rísa upp og verja sitt, þyki því vegið að eigin undirstöðum. Eins og við höfum svo glöggt séð þessa síðustu daga.

Sem betur fer, við viljum ekki hafa það öðruvísi.

Mennt – Menning – Samfélag

Þegar börn verða unglingar þá fer menntun að snúast um val og val er í eðli sínu aðgreining. En hvers konar aðgreining? Við þekkjum bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar aðgreiningar. Mennt og menning aðskildu þjóðfélagsstéttir hér áður fyrr, og gera að einhverju marki jafnvel enn í dag. Hvernig við byggjum upp framhaldsskólakerfið skiptir því máli í þessu samhengi.

Skólar eru hornsteinn jöfnuðar í samfélaginu, eða geta verið það, ef þannig er staðið að málum.

Mennt – Menning – Aðgreining – Val

Það er sannarlega að ýmsu að hyggja.

Hvernig tryggjum við fjölbreytt val nemenda? Hvernig ýtum við undir jöfnuð? Hvernig tryggjum við gæði náms og hvernig tryggjum við jafnan rétt til náms? Hvernig tökum við á móti nemendum með íslensku sem annað mál? Hvernig undirbúum við nemendur undir störf framtíðarinnar? Hvernig eflum við iðn- og starfsnám?

Þetta eru allt saman áríðandi spurningar. Spurningar sem sumar hverjar liggja einhvers staðar á mörkum menntaheimspeki og samfélagsrýni. Á þessum mörkum þar sem við reynum að finna út úr því hvernig við mótum menntun á þann veg að hún bætir ekki aðeins einstaklinginn heldur samfélagið allt.

En svo eru það praktísku spurningarnar, þessar sem vísa í átt að hagrænum undirstöðum menntunar. Þar sem menntun er þjónusta, líkt og önnur þjónusta sem við stöndum að, í samkeppni um takmarkað fé. Rekstur framhaldsskóla byggist á því að ná jafnvægi milli fjölda nemenda, námsframboðs, kennslukostnaðar, kostnaðar við húsnæði – og svo tekna skólans sem koma að mestu leyti frá ríkinu

Til allrar guðslukku er rekstur skólanna ekki í höndum ráðgjafafyrirtækja. En þótt öflugir og hæfir einstaklingar standi í brúnni þá skyldi síst vanmeta umfang þessa verkefnis, sem er rekstur framhaldsskóla á Íslandi. Það er dýrt að búa í stóru húsi, og það vill svo til að Ísland er stórt hús. Ef við ætlum að ræða framhaldsskólanám á svæðinu þá er nauðsynlegt líka að átta sig á samhenginu. Framhaldsskólarnir okkar hér á Akureyri eru ekki eylönd, þótt okkur sé auðvitað ekki tamt að hugsa um þá með öðrum hætti. Það er einfaldlega ekki í okkar verkahring, heldur í verkahring þingmanna og ráðherra.

En skoðum það nú samt.

Í Eyjafirði og á Norðurlandi austan Eyjafjarðar eru 11 sveitarfélög. Ef við horfum á næstu þrjá árganga, þ.e.a.s. börnin okkar sem eru núna í grunnskóla en verða að þremur árum liðnum framhaldsskólanemar svæðisins, þá eru það samtals um 1260 nemendur. Á þessu sama svæði eru fimm framhaldsskólar. Ef við ættum að skipta þessum fjölda jafnt á hvern skóla þá eru það 252 nemendur á skóla. Svona er landslagið í hnotskurn, með talsverðri einföldun. Svo er hægt að deila um það hvernig þróunin gæti orðið, bæði hvað mannfjölda snertir og ekki síst hvað varðar aðsókn í bóknám eða verknám.

Á höfuðborgarsvæðinu er aðeins einn framhaldsskóli með færri en 400 nemendur og er það ungi skólinn í Mosfellsbæ. Tækniskólinn er stærsti framhaldsskóli landsins með um 2.500 nemendur. Samtals þrettán skólar og námsframboð eftir því. Hér á Akureyri höfum við tvo skóla og helst gerum við þá kröfu að ekkert ungmenni þurfi að fara héðan úr sinni heimabyggð til að sækja sér menntun. Það er ærið verkefni, að ná og viðhalda því markmiði!

Nú er ég ekki dómbær á það hver kjörfjöldi nemenda sé, til þess að uppfylla rekstrarlegar kröfur um stærð og hagkvæmni. Fyrir okkur sem enga þekkingu höfum á rekstri framhaldsskóla gæti verið gagnlegt að horfa til nágrannalandanna, til að fá þó einhvern samanburð. Sá samanburður er áhugaverður, þótt auðvitað sé hann yfirborðskenndur. Það er áhugavert að sjá að 40% almennra framhaldsskóla í Danmörku er með 400 nemendur eða færri, og aðeins 10% með yfir 1.000 nemendur. Það þýðir að um helmingur skólanna er með nemendafjölda sem er þarna á milli, eða bilinu 400 til 1.000 nemendur.

Svo 252 nemendur er varla sláandi í hinu danska samhengi. Ef við höldum áfram með samanburðinn þá komumst við reyndar að því að Danir, rétt eins og aðrar Norðurlandaþjóðir, bjóða orðið upp á styttri námsbrautir og búa við minna brottfall nemenda en við gerum. Það er umhugsunarvert í sjálfu sér en eflaust engin tíðindi fyrir framhaldsskólakennara hér á landi. Allt er þetta áhugaverður samanburður, sem vert er að skoða nánar, en auðvitað komumst við aldrei langt í umræðunni ef við ætlum bara að byggja hana á því hvernig aðrir gera hlutina. Það er samhengið hér heima sem skiptir höfuðmáli ef við ætlum að horfa fram á veginn.

Stjórnmál eru list hins mögulega en til þess að hægt sé að átta sig á því hvað sé mögulegt þá verður fyrst að eiga sér stað opið og hreinskiptið samtal um hver staðan er í raun og veru. Við verðum líka að vera tilbúin til að hlusta og bregðast við þegar slíkt samtal fer fram. Staðan er greinilega ekki góð og við máttum vita það.

Við, bæjarbúar.

Við, bæjarfulltrúar, sem sitjum og höfum setið í bæjarstjórn Akureyrar síðustu ár.

Höfum við hlustað og brugðist við?

Nei, við höfum ekki hlustað nógu vel, og það hefur staðið á viðbrögðum.

Rétt viðbrögð eru varla þau að loka á alla umræðu um framtíð og framþróun skóla og menntunar á svæðinu. Ég trúi því tæplega, að það séu viðbrögðin sem stjórnendur og kennarar kalla eftir.

Við getum verið sammála um það, geri ég ráð fyrir.

Og sammála um að skora á stjórnvöld að auka við það fjármagn sem er sett í framhaldsskólana.

Ef eitthvað stendur eftir, eftir stormasama daga, þá er það sameiginlegur metnaður okkar allra að aðbúnaður framhaldsskólanáms sé sannarlega eins og best verður á kosið hér í höfuðstað Norðurlands.

Gunnar Már Gunnarsson er bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri

Sjóðir bundnir landsvæðum til að styðja við nýsköpun og skapandi greinar

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 10:00

Akureyrarbær stendur við sitt

Ásthildur Sturludóttir skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 15:45

Lægri fjármagnskostnaður, er krónan góð fyrir landsbyggðirnar?

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 10:00

Örugg skref um allt land

Logi Einarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 06:00

Frjálslynd Viðreisn?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Svik við launafólk: Loforð um samráð brotin með gegndarlausum gjaldskrárhækkunum

Anna Júlíusdóttir skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 14:20