Fara í efni
Umræðan

Mikil vonbrigði að viðræðum var hætt

Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri segist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með að sameiningarviðræðum framhaldsskólanna tveggja, VMA og MA, hefðu verið settar í bið eða alveg hætt við þær í bili. Þetta kom fram í ræðu skólameistara við brautskráningu nemenda frá skólanum í menningarhúsinu Hofi í dag.

Skólameistari fór yfir þá miklu umræðu sem skapaðist á haustönn um hugmyndir mennta- og barnamálaráðherra um sameiningu eða samvinnu framhaldsskólanna á Akureyri.

„Í umræðunni í haust um sameiningu VMA og MA fór hún því miður út og suður og fjallaði sjaldan um það dýrmæta námsframboð sem er á Akureyri. Sjálf varð ég fyrir miklum vonbrigðum með að sameiningarviðræður hefðu verið settar í bið eða alveg hætt við þær í bili. Ég gerði mér alveg grein fyrir því að þessi umræða í haust yrði áskorun og ýmis sjónarmið sem þyrfti að taka tillit til og ræða úti í samfélaginu. Því miður komumst við aldrei svo langt að ræða þau tækifæri sem sameining VMA og MA hefði skilað okkur í framúrskarandi skólastarfi,“ sagði Sigríður Huld.

Tækifæri

„Sameining VMA og MA hefði getað gefið okkur á þessu svæði tækifæri til að búa til mjög öflugan framhaldsskóla með áherslu á það nám sem þegar er við báða skólana, haldið í fjölbreytileikann í nemendahópnum og náminu ásamt því að styrkja enn frekar námsframboðið. Í sitt hvoru lagi erum við alveg ágæt en saman hefðum við orðið öflugri.

Einhver gæti sagt að öflugt og fjölbreytt námsframboð væri til staðar í báðum skólum og að mörgu leyti er það rétt. En báðir skólar eru að berjast í bökkum með að geta boðið áfram upp á fjölbreytt námsval og tveir skólar eru í samkeppni um sömu nemendurna.

Ég sá tækifæri til þess að einn öflugur framhaldsskóli á Akureyri gæti eflt nám til stúdentsprófs með mismunandi áherslur og leiðir, t.d. með áherslu á heilbrigðisgreinar, íþróttir og heilsueflingu, raungreinar, menningu- og listir, tungumál, frumkvöðlastarf, félagsvísindagreinar, miðlun og tækni. Einn öflugur framhaldsskóli á Akureyri hefur sterkari stoðir og fagþekkingu til að bjóða upp á þá stoðþjónustu sem framhaldsskólum ber að bjóða upp á þannig að velferð nemenda og barna sé í fyrirrúmi.“

Því miður ekki pólitísk samstaða

Sigríður sagði öflugan iðn- og starfsnámsskóla ekki standa einan og sér án bóknáms. Samlegðaráhrifin væri mikil milli stúdentsprófsbrauta og iðn-og starfsnáms.

„Ef VMA þarf að draga úr námsframboði tengt stúdentsprófsbrautunum þá gæti það haft neikvæð áhrif á iðn- og starfsnámsbrautir með þeim hætti að skólinn sæi sér ekki fært að bjóða upp á eins fjölbreytt iðn- og starfsnám eins og núna. Það var engin tilviljun á sínum tíma þegar VMA var stofnaður að hér var strax boðið upp á nám til stúdentsprófs, það var ekki bara út af því að skólinn er áfangaskóli heldu líka vegna þeirra samlegðaráhrifa sem bóknám hefur með iðn- og starfsnámi.“

Sigríður sagði tækifæri fyrir Akureyri og nærsamfélagið felast í því starfi sem fer fram í framhaldsskólunum. „Öflugur framhaldsskóli smitar út frá sér, t.d. út í Háskólann á Akureyri, fyrirtæki, menningu og listir. Það verður til frjór farvegur fyrir nýsköpun út í samfélaginu og í skólastarfinu.“

Síðan sagði skólameistari: „En því miður tókst pólitíkinni ekki að ná samstöðu um að fara í þær sameiningar sem búið var að boða þar sem átta skólar áttu að verða að fjórum. Í staðinn á að halda áfram að vera með óbreytt kerfi, næstum óbreytta fjármögnun og hætta á að námsframboð í skólum á Akureyri, Suðurnesjunum og á höfuðborgarsvæðinu verði minna. Allir eru settir áfram í samkeppni um sömu nemendurna.“

Óraunhæfir útreikningar

Sigríður Huld sagði að kynningin á sameiningunum og óraunhæfir útreikningar á sparnaði hafi að sjálfsögðu farið mjög illa í alla. „Líka okkur í VMA. Ég vil ekki sameina skóla þar sem markmiðið er númer 1, 2 og 3 að spara pening. En okkur hefði örugglega tekist betur að nýta það húsnæði, fagþekkingu og fjármagn sem skólarnir hafa núna og þá um leið getað eflt og haldið í okkar dýrmæta námsframboð, fyrir alla nemendur óháð þeirri námsbraut sem þeir eru á. En ekki síður fyrir það samfélag sem við búum í og þær kröfur sem háskólar og atvinnulíf gera til framhaldsskóla.

Þrátt fyrir allt hefur mennta- og barnamálaráðherra hvatt framhaldsskóla til að leita leiða til að auka samstarf og þær hugmyndir sem farið var af stað með í haust halda áfram að vera til innan skólanna og í ráðuneytinu. Ég hef þá trú að skólarnir fái aftur þetta tækifæri til að efla framhaldsskólastarf á Akureyri.“

Tryggjum öryggi Reykjavíkurflugvallar

Gunnar Már Gunnarsson og Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifa
21. janúar 2025 | kl. 14:45

Ferðaþjónustufólk kemur saman

Arnheiður Jóhannsdóttir skrifar
15. janúar 2025 | kl. 11:15

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00