Fara í efni
Umræðan

Öruggt og öflugt heilbrigðiskerfi

Það var ánægjulegt að heyra nýjan forstjóra Sjúkrahússins á Akureyri ítreka áframhaldandi uppbyggingu sjúkrahússins í viðtali fyrir nokkrum dögum og þá mikilvægu áherslu á að sjúkrahúsið hefði alla burði til þess að verða háskólasjúkrahús og þá í nálægri framtíð. Ég fagna sérstaklega þessari áframhaldandi áherslu enda mjög mikilvæg fyrir Norðurland sem og landið í heild. Oft er talað um að bregðast verði við þeirri þróun að öll þjónusta við landsmenn endi á suðvesturhorninu, að öllu sé stýrt þaðan. Þá er einnig vitað að fólk hefur mátt flytja frá heimabyggð til þess að eiga kost á viðunandi grunnþjónustu, þannig að öryggi verði tryggt. Þetta er þróun sem gengur ekki ef við ætlum að halda öllu landinu í byggð. Sjúkrahúsið á Akureyri býr svo vel að vera með alþjóðlega gæðavottun á starfsemi sinni og var í raun fyrsta heilbrigðisstofnunin á Íslandi til að hljóta slíka vottun. Vottunin var upphaflega veitt 2015 og endurnýjuð í lok árs 2018 til næstu þriggja ára. Sjúkrahúsið á Akureyri er líka með vottun á allri sinni starfsemi samkvæmt ISO 9001:2015 staðlinum sem gildir til 2022. Þessar vottanir styrkja stöðu Sjúkrahússins á Akureyri.

Í skýrslu um samstarf Grænlands og Íslands sem kom út í desember 2020 er fjallað í nokkrum orðum um samstarf landanna á heilbrigðissviði. Tekið er til að kortleggja þurfi á hvaða sviðum íslenska heilbrigðiskerfið getur þjónað því grænlenska, með áherslu, m.a. á valbundnar aðgerðir eins og liðskiptaaðgerðir. Þar er einnig fjallað um samstarf vegna sérþjálfunar hjúkrunarfólks og að grænlenskir hjúkrunarfræðingar og eða sjúkraliðar geti gegnt mikilvægu hlutverki við að auðvelda móttöku grænlenskra sjúklinga og þá sérstaklega af austurströnd Grænlands. Sjúkrahúsið á Akureyri þjónustar nyrstu byggð austurstrandarinnar, Ittoqqortoormiit í Scoresbysundi, vegna bráðatilfella en það gætu falist tækifæri í því að auka þjónustu vegna valbundinna aðgerða svo sem liðskiptaaðgerða. Íbúar Grænlands sækja sjúkrahússþjónustu að mestu til Rigshospitalet í Kaupmannahöfn en þangað er mun lengra flug og því talsverðir möguleikar á samstarfi á milli sjúkrahússins á Akureyri og Scoresbysunds, Norlandair með aðsetur á Akureyrarflugvelli sinnir nú þegar því svæði. Það er mikilvægt að hafa þetta í huga þar sem fyrir nokkrum árum voru framkvæmdar liðskiptaaðgerðir á sjúklingum frá Grænlandi, það má, m.a. sjá í ársskýrslu Sjúkrahússins frá árinu 2006 en þá voru framkvæmdar 10 aðgerðir og eins víst að nú sé enn frekari þörf á aðgerðum af þessu tagi.

Fram undan er einnig nauðsynleg uppbygging heilsugæslunnar á svæðinu enda vitum við hvað þarf til, við vitum að fullnægjandi heilsugæsla leiðir til aukins öryggis íbúa og gerir að verkum að fólk vill búa áfram þar sem það veit að það nýtur sjálfsagðrar grunnþjónustu. Það er líka vitað að ef vel er að verki staðið þá minnkar það álag á aðra og dýrari þjónustu í heilbrigðiskerfinu.

Unnið hefur verið markvisst að því að efla heilsugæsluna með tilliti til geðheilbrigðisþjónustu. En betur má ef duga skal og horfa þarf til þess að eyða biðlistum sem eru því miður til staðar. Innan heilsugæslunnar rúmast forvarnir og þær eru mikilvægar og þess vegna þarf að standa vel að þeim innan heilsugæslunnar. Það er orðið viðurkennt að heilsugæslan á að vera fyrsti viðkomustaður einstaklinga innan heilbrigðiskerfisins og svo að það megi verða þarf að sjá til þess að aðstæður verði aðlaðandi hverjum þeim sem kýs að starfa innan heilsugæslunnar. Að þessu sögðu verður að minnast á að heilsugæslan þarf rými og aðstæður til þess að standa að heimahjúkrun í auknum mæli. Það gerir fleira fólki kleift að búa lengur á heimilum sínum sem er öllum mikilvægt. Ennfremur má benda á að með því að styrkja stöðu heilsugæslunnar, allt frá forvörnum til sjálfsagðrar grunnþjónustu skapast grundvöllur fyrir áframhaldandi búsetu í heimabyggð.

Til að draga þetta saman þá gegna þessar stofnanir mikilvægu hlutverki í okkar heimabyggð, nýta verður allar leiðir til þess að þær geti vaxið ennfrekar, tryggja þarf mönnun og þar erum við svo heppin að skólar, bæði á framhalds – og háskólastigi gegna lykilhlutverki og styrkja þannig enn betur þjónustuna sem við viljum að allir hafi aðgang að.

Anna Kolbrún Árnadóttir er þingmaður Miðflokksins í Norðausturkjördæmi.

Lífæð landsbyggðarinnar

Stefán Þór Eysteinsson skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 14:30

Nýja stjórnarskráin — Alþingi rjúfi stöðnunina með stjórnlagaþingi

Stjórn Stjórnarskrárfélagsins skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 12:00

Útrýming sjóbleikjunnar í Eyjafirði í boði Kleifa fiskeldis

Bessi Skírnisson og Sigmundur E. Ófeigsson skrifa
22. nóvember 2024 | kl. 16:30

Orkumál

Jóna Björg Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 16:00

Hægt með krónunni?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 11:15

Kjalvegur Y

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 10:30