Fara í efni
Umræðan

Opið bréf til Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar - II

Opið bréf til Loga Einarssonar, frh.

Sæll aftur Logi og bestu þakkir fyrir svar þitt við opnu bréfi mínu til þín í gær og þeim spurningum sem þar eru settar fram. Ég leyfi mér að láta þetta svar fylgja hér með.

Tilvitnun hefst:

Sæll Þorkell.

Það er alveg ljóst að það er í gildi samningur milli ríkis og Reykjavíkurborgar um að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni muni ekki víkja nema annar jafngóður eða betri kostur hafi verið tekinn í notkun. Aðilar að þessum samningi eru nær allir stjórnmálaflokkar landsins.

Ég hef alveg frá því ég fór í framboð til Alþingis árið 2016 talað fyrir því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni þangað til betri eða jafn góð lausn finnist. Það er ómögulegt að sjá hvernig þessi afstaða er ekki í takt við sókn í byggðamálum, vegna þess flugvöllurinn fer ekki nema og EF jafngóð eða betri leið finnist. Þetta er ekkert mjög flókið.

Ég kom auðvitað ekki [að] lokun neyðarbrautarinnar en kannski nær að beina spurningum um hana til þáverandi ríkisstjórnar, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.

Ég held að nú ættu allir að sameinast um að passa að áfram verði unnið á grunni þessa samnings og einbeita okkur að því að efla innanlandsflugið, auka notagildi Akureyrarflugvallar og Egilsstaðaflugvallar, meðal annars með uppbyggingu millilandaflugs. Þar eigum við raunar fleiri tækifæri en ríkisstjórnin hefur ekki gripið síðustu fjögur árin.

Tilvitnun lýkur.

Mér varð það satt að segja á í fyrstu þegar ég las þetta svar, að hugsa: „er maðurinn í réttum flokki“? Þú afsakar þetta vonandi en þessi viðbrögð mín helgast af því ósamræmi sem ég sé hér milli orða þinna og athafna borgarmeirihlutans undanfarin ár undir forystu Samfylkingarinnar.

Mér þykir afar vænt um að lesa í svari þínu skýra afstöðu með því inntaki samningsins sem þú vísar í, að „flugvöllurinn fer ekki nema og EF jafn góð eða betri leið finnist“. Ég vona að þarna sértu að tala fyrir hönd Samfylkingarinnar í heild, en af því hef ég nokkrar áhyggjur. Getur þú t.d. fullyrt að þú og borgarstjórinn séuð alveg samstíga í þessari meiningu? Ég spyr vegna reynslunnar af efndum borgarstjórnar á fyrri samningum sem gerðir hafa verið milli ríkis og borgar um flugvöllinn. Og tvennt þykir mér standa upp úr í þessu máli í dag. Annars vegar að nú þegar er hafin skerðing á flugvellinum (lokun neyðarbrautarinnar) sem er jafnvel í blóra við suma fyrri samninga sem og öryggishagsmuni landsmanna, og hins vegar sú staðreynd að aðalskipulag borgarinnar gerir í engu ráð fyrir þeim möguleika að halda verði flugvellinum áfram á sínum stað í samræmi við títtnefnt núgildandi samkomulag. Þetta tvennt er einmitt í boði borgarstjórnar undir forystu Samfylkingarinnar. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að einungis einn möguleiki á nýju flugvallarstæði er nú talinn verðugur skoðunar eftir útgáfu Rögnuskýrslunnar, þ.e. Hvassahraun, en ef mér skjöplast ekki geysar nú eldgos í næsta nágrenni þess enda um að ræða mikið og virkt eldsumbrotasvæði á megin flekaskilum í jarðskorpunni. Þá greindi Rögnuskýrslan einnig frá öðrum þætti sem vinnur mjög gegn Hvassahrauni en það er hærri frosttíðni þar en er að jafnaði bæði í Vatnsmýri og á Keflavíkurflugvelli. Skýrsluhöfundar „gleymdu“ reyndar að leggja nánar út af þessu smáatriði s.s. aukinni tíðni 1) hálku á flugbrautum, 2) ísingar á flugvélum og 3) lakara skyggnis, og vera má að því sé treyst að sumar verkfræðistofur (hverra yfirmenn eru hluthafar í hagsmunafélgum eins og Valsmönnum) verði viljugar að sneiða hjá svona böggi í athugunum sínum, við höfum nú séð það áður. En ofan á allt þetta var vel kunnugt um viðvarandi veðurfarsvandamál á þessu svæði fyrir áratugum síðan því Agnar Kofoed Hansen, þáverandi flugmálastjóri gerði sérstaka könnun á þessu í embættistíð sinni sem varð þá til þess að þessi staður var afskrifaður. Svo þú sérð væntanlega að á þetta mun sannarlega reyna áður en núgildandi aðalskipulag borgarinnar rennur sítt skeið. Getur þú fullyrt að þá munu fulltrúar Samfylkingarinnar í borgarstjórn virða einmitt þetta, að „flugvöllurinn fer ekki nema og EF jafn góð eða betri leið finnist“!?

Það er vissulega rétt að þú áttir ekki beina aðkomu að lokun neyðarbrautarinnar, en um það var ég heldur ekki að spyrja. Á þessum tíma varst þú hins vegar bæjarfulltrúi og m.a.s. oddviti Samfylkingarinnar hér á Akureyri. Þú verður að forláta mér það en mér þykir það vera svolítill prófsteinn á trúverðugleika þinn í þessu máli hvernig þú hefur aktað sem bæjarfulltrúi og þannig gæslumaður öryggishagsmuna landsbyggðarinnar, meðan þessi lokun brautarinnar gekk í gegn. Þess vegna spurði ég þig og endurtek hér: „Hefur þú nokkurn tímann hreyft mótmælum, opinberlega eða innan flokks þíns, gegn lokun neyðarbrautarinnar?“ Ég tek það hér fram að á hverjum vetri, síðan brautinni var lokað, hafa komið útköll í sjúkraflugi sem hefur þurft að fresta vegna veðurs, en þar sem neyðarbrautin hefði komið að góðum notum til að ljúka þessum útköllum. Um er að ræða tilfelli m.a. þar sem tíminn er áríðandi faktor varðandi lífslíkur og/eða batahorfur og þar með lífsgæði viðkomandi notenda þjónustunnar. Það var aldrei, ekki á nokkrum tímapunkti í þessu ferli, skortur á viðvörunum af hálfu okkar sem þekkjum til málsins, en það hélt ekkert aftur af borgarstjórn undir forystu Samfylkingarinnar. Hvar stóðst þú sem bæjarfulltrúi á Akureyri og áhrifamaður í flokknum þínum, meðan á þessu gekk?

Og jú, fleiri eru vissulega aðilar að málinu og ég hef hvergi dregið af mér í gagnrýni minni þar sem það á við. En óumdeilanlegur forystusauður í allri aðförinni að Reykjavíkurflugvelli er borgarstjórinn í Reykjavík.

Ég get ekki stillt mig um að krefja þig skýrari svara varðandi ofangreint og vona að þú virðir það við mig. Hafðu það annars sem best meistari.

Þorkell Ásgeir Jóhannsson er flugstjóri á Akureyri.

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00