Úr verslun ELKO á Akureyri. Aðsend mynd.
Akureyringar og aðrir viðskiptavinir ELKO á Akureyri voru duglegir við að skila inn og kaupa notuð snjalltæki í versluninni, að því er fram kemur í sjálfbærniskýrslu fyrirtækisins. Alls urðu snjalltækin sem þannig fóru á milli 400 talsins, fleiri en nokkru sinni áður.
Þetta gerir árið að metári í viðskiptum með notuð raftæki í versluninni á Akureyri og undirstrikar vaxandi þátttöku almennings í hringrásarhagkerfi raftækja, segir í tilkynningu fyrirtækisins.
Yfir landið allt keypti ELKO, í samstarfi við eistneska endurvinnslurisann Foxway, yfir 7.500 raftæki af viðskiptavinum á árinu 2024 og greiddi fyrir þau yfir 20 milljónir króna, sem er 17% aukning frá árinu áður. Tækin fóru í gegnum í endurnýtingar- og endurvinnsluferli.
Afpökkunarborð eins og þetta, sem hjálpar til við endurvinnslu, eru í öllum verslunum ELKO á landinu.
Frauðplastið nýtt með samstarfi við PolyNorth
ELKO hefur einnig lagt áherslu á að koma frauðplasti frá verslunum ELKO í sem best endurvinnsluferli. Verslunin á Akureyri tók upp samstarf við PolyNorth þannig að allt frauðplast sem fellur til í versluninni fer í skipulagt endurvinnsluferli. Í anddyri verslunarinnar á Akureyri, eins og í verslunum fyrirtækisins um allt land, geta viðskiptavinir skilað raftækjum og raftengdum úrgangi í sérstaka flokkunarkassa. Þar er til dæmis átt við snúrur, rafhlöður, ljósaperur og smærri raftæki.
- ELKO hefur starfað frá árinu 1998. Hjá fyrirtækinu starfa 240 manns í verslunum á höfuðborgarsvæðinu, Keflavíkurflugvelli og Akureyri.