Fara í efni
Umræðan

Hver er framtíð íslenskrar matvælaframleiðslu?

Það er sorglegt að flókið regluverk, úr sér gengin löggjöf, steinrunnar stofnanir og skilningsleysi kerfisins sé dragbítur framfara og verðmætasköpunar í íslenskri matvælaframleiðslu. Á sama tíma höfum við fjölmörg sóknarfæri í óbeisluðum krafti, hugviti, auðlindum og dugnaði í íslenskum sveitum og sjávarplássum. Þessi kraftur býður þess að fá að skapa verðmæti og velsæld, þjóðinni til heilla. Skilningsleysi verulegs hluta stjórnmálastéttarinnar, sem kristallast í úreltu regluverki og sorglegri vöntun á metnaðarfullri framtíðarsýn, eru hins vegar eins og myllusteinn sem halda aftur af framförum í íslenskum landbúnaði.

Raddir forneskju

Tveir kórar, skipaðir mismunandi röddum úreltra hugmynda, láta mikið að sér kveða í opinberri umræðu um íslenskan landbúnað. Annars vegar eru það þeir sem telja að lausn allra vandamála í íslenskum landbúnaði felist í því að moka sífellt meiri fjármunum inn í greinina. Slíkt hefur engin áhrif til langframa nema með fylgi breytt viðhorf og vel ígrundaðar kerfisbreytingar. Þá hrópa úr annarri átt þeir sem vilja að Ísland snúi baki við bændum og landsbyggðinni. Oft eru þessi skilaboð klædd í búning skrúðmælgi og því hnýtt við að Evrópusambandsaðild gæti leyst allan vanda. Megin þorri þjóðarinnar vill hins vegar ekki fórna landbúnaði, bændum og landsbyggðinni fyrir hagsmuni fámennar heildsalaklíku. Sem betur fer er staðan ekki svona svarthvít það eru fleiri hliðar á teningnum.

Sanngjörn samkeppni

Í heimi hraðra breytinga þarf að laga starfsskilyrði landbúnaðarins að breyttri heimsmynd og kröfum neytenda um betri vöru sem framleidd er á forsendum umhverfis, velferðar og heilnæmis. Það er forgangsatriði að laga regluverkið þannig að bændur og afurðarfyrirtæki þeirra geti keppt á sanngirnisgrundvelli við innflutning og erlenda verksmiðjuframleiðslu. Það eru engar töfralausnir til en það er ýmislegt sem hægt er að gera til að hjálpa íslenskum landbúnaði að bjarga sér sjálfur. Bændur eru ekki að biðja um ölmusu, heldur einfaldlega að leikreglurnar séu sanngjarnar.

Framsókn íslenskrar matvælaframleiðslu

Íslenskir bændur standa einstaklega vel að vígi þegar kröfur um umhverfisvænleika, loftslagsábyrgð og dýravelferð eru sífellt að verða háværari. Sjálfur hef ég í áratugi barist fyrir hagsmunum bænda og annarra matvælaframleiðenda á ýmsum vettvangi. Meðal annars lagt til aukna skógrækt, frelsi til samvinnu afurðastöðva, meiri stuðning við nýsköpun og svo mætti áfram telja. Íslenskir bændur og aðrir matvælaframleiðendur standa frammi fyrir fjölda tækifæra í heimi þar sem vaxandi eftirspurn er eftir afurðum sem framleiddar eru á forsendum helstu styrkleika Íslands. Við þurfum að sjá þessa styrkleika og nýta okkur þá. Nú er kominn tími til að láta verkin tala og hefja fyrir alvöru framsókn íslenskrar matvælaframleiðslu.

Þórarinn Ingi Pétursson er þingmaður Norðausturkjördæmis fyrir Framsóknarflokkinn. Hann er í 3. sæti á lista flokksins fyrir alþingiskosningarnar 25. september.

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00