Fara í efni
Umræðan

Hvað er með þessa þjóðkirkju?

Séra Hildur Eir Bolladóttir, sóknarprestur í Akureyrarkirkju, flutti umhugsunarverða við messu í kirkjunni í morgun. Séra Hildur gaf Akureyri.net góðfúslegt leyti til að birta prédikunina í heild.
_ _ _

Hvað er þessi Þjóðkirkja yfirhöfuð að gera? Nú þegar haustið stígur léttfætt og litskrúðugt inn í líf okkar þá vaknar safnaðarstarf kirkjunnar úr dvala. Ekki þar fyrir að kirkjan er á vaktinni og í þjónustu allan ársins hring. En yfir sumartímann fara þó margir liðir safnaðarstarfsins í frí enda er kirkjan með puttann á þjóðarpúlsinum og veit að Íslendingar þurfi að njóta útiveru þessa þrjá mánuði sem að grasið grær og blómin anga. Nú fer hins vegar allt á fullt í kirkjum landsins, til sveita, bæja og borga. Það má í raun í segja að frá því ég hóf starf sem prestur fyrir tæpum tuttugu árum hef ég hlustað á fólk, þá aðallega á internetinu óskapast yfir tilveru Þjóðkirkjunnar og þeim fjármunum sem hún hefur yfir að ráða. Sem sagt þátttökugjaldi eða svokölluðu sóknargjaldi skráðra meðlima.

Ég hef sem sagt eins og flestir kollegar starfað undir tortryggni hinnar opinberu umræðu um það fyrirkomulag að Þjóðkirkjan sé stjórnarskrárvarin hreyfing, jafnvel þó hún sé sjálfstætt trúfélag sem hefur samt ríkar skyldur gagnvart samfélaginu enda spyr Þjóðkirkjan aldrei um trúfélagsaðild áður en hún veitir sína þjónustu. Ég er þó alls ekki að kveinka mér undan þessari umræðu, allra síst í dag á tímum þar sem öll möguleg mál eru farin að byggja fyrst á tilfinningum fólks og síðan hugsanlega, mögulega, staðreyndum, ef vilji er fyrir hendi að meðtaka þær. Sá vilji er hins vegar hverfandi og heitir skautun. Við lifum á tímum þar sem mannfólkið gefur sér minni tíma og svigrúm til að afla heimilda og rökræða um málefni með jöfnum hlutföllum af áheyrn, þögn og meltingu, þannig að það megi jafnvel uppskera samhengi ólíkra sjónarmiða. Þess vegna hef ég einmitt bæði enst í þessu starfi og notið þess í öll þessi ár vegna þess að gagnrýnin á kirkjuna er oft (ekki alltaf) algjörlega gripin úr lausu lofti og samræmist ekkert þeirri raunmynd sem er að eiga sér stað á hverjum einasta degi í söfnuðum landsins, allt frá Reykjavík til Reyðafjarðar og Bakkafjarðar til Bíldudals.

Mig langar núna þegar söfnuðirnir eru um það bil að leysa landfestar og sigla út í mannlífshafið með ógrynni af tilboðum um líknar, lýðheilsu og sálgæslustarf í vetur, að segja ykkur aðeins frá því sem Þjóðkirkjan hefur í upp á að bjóða.

Það sem flestir vita er að í kirkjum landsins er messað á sunnudögum. Gárungarnir hafa meira að segja stundum sagt, „hvað eru þið prestar eiginlega að gera þess á milli?“

Stór hluti af starfi presta er sálgæsla, sálgæsla er í örstuttu máli það að veita nærveru í trúnaði, þar sem presturinn iðkar virka hlustun ( virk hlustun er eiginlega að heyra með öllum líkamanum) og nýtir menntun sína, starfsreynslu og hugrekki fyrir trú, til að meðtaka allt það sem mögulega getur hvílt á fólki.

Slík samtöl eru ekki meðferðarsamtöl eins og hjá sálfræðingi sem vinnur klínískt með kvíða og þunglyndi og taugaraskanir heldur er sálgæsla prestsins fyrst og síðast speglun á það sem fólk er að fást við hverju sinni og sú speglun fæst með því að presturinn hvílir í þeirri vitund að samkvæmt Jesú frá Nasaret þá hafi hann hvorki leyfi né forsendur til að setjast í dómarasæti gagnvart náunganum. Slíkt samtal getur verið mikil frelsun. Stundum sest fólk einfaldlega bara inn á skrifstofu prestsins og byrjar að gráta. Stundum líður langur tími áður en nokkuð er sagt. Stundum er presturinn bara í því að rétta fram tissjú áður en heilagur andi opnar farveg tjáningar og orð verða til. Þá situr presturinn gegnt viðmælandanum og veit að hann er ekki ráðgjafi heldur samferðarmanneskja sem getur gagnast fyrst og fremst vegna þess að hann þorir að vera með fólki í mestu angist lífs þess. Það þarf að iðka hugrekki til að geta veitt sálgæslu, af því að svo mörgum finnst erfitt að vera þar sem allt er mjög erfitt. Stundum er sálgæsla prestsins nóg en oft kemur presturinn manneskjunni í tengsl við aðra fagaðila því með reynslunni ætti hann að bera skynbragð á það hvar takmarkanir hans liggja.

Flestir vita að prestar skíra, ferma, gifta og jarða en færri vita kannski að fyrir hverja skírn á prestur samtal við nýbakaða foreldra þar sem færi gefst á að ræða ýmislegt sem getur fylgt þeirri nýju og stundum yfirþyrmandi ábyrgð að verða foreldri. Þar er stundum rætt um andlega líðan móður og föður, stundum ber erfið eða jafnvel trámatísk fæðing á góma, ég hef ekki tölu yfir þær ólíku fæðingarsögur sem ég hef heyrt inn á skrifstofunni minn. Þá gefst oft færi á að ræða samband parsins og það bakland sem það hefur eða ekki hefur. Eins hvetur presturinn foreldrana til að taka þátt í Foreldramorgnum kirkjunnar sem eru í hverri viku í flestum kirkjum á stærri stöðum landsins. Það er mikilvægt að styðja við nýbakaða foreldra og kirkjan hefur sinnt því hlutverki til fjölda ára.

Í aðdraganda ferminga eiga prestar og æskulýðsfulltrúar kirknanna samfylgd með þrettán ára unglingum í heilan vetur þar sem þeim gefst tækifæri á að ræða við þau um kristna trú. Krakkarnir heyra sögurnar um Jesú og eru hvött til að tengja þær við sitt eigið líf og umhverfi út frá því sem Jesús kennir um mannleg samskipti, náungakærleika, sjálfsvirðingu, réttlæti og hugrekki til að standa með þeim sem þjást og eiga hvergi skjól. Eins er lögð rík áhersla á það í fermingarfræðslunni að koma unglingunum í skilningum um að þau hafi öll sérstöku hlutverk að gegna í þessum heimi, séu öll ómissandi því hæfileikar og styrkleikar geta verið af svo margvíslegum toga. Þannig er fermingarfræðslan mikil sjálfstyrking en þó alltaf í samhengi þess að við berum ríka ábyrgð gagnvart náunganum, náttúrunni og öllu því sem Guð hefur skapað.

Í ýmsum kirkjum eru sorgarhópar starfræktir reglulega, þar kemur fólk saman sem á þá reynslu að hafa ýmist misst maka, barn eða ástvin úr sjálfsvígi og deilir og speglar tilfinningar sínar undir handleiðslu og stjórn prests eða djákna.

Í kirkjunni fer líka fram starf sem kallast Örninn og er fyrir börn sem misst hafa foreldri eða systkini. Starf sem hóf fyrst göngu sína í Vídalínskirkju í Garðabæ en hefur síðan tekið flugið hingað norður og þjónar hér víðfeðmu svæði. Þar koma börn og ungmenni saman ásamt eftirlifandi foreldri, þjálfuðum sjálfboðaliðum, prestum, stundum sálfræðingum og listafólki og vinnur með sína sorg í spjalli, sköpun og leik.

Kirkjan býður líka upp á samverur fyrir fólk sem býr eitt, fólk sem þarf ekkert endilega að vera einmana heldur langar kannski bara að eiga samfélag annarsstaðar en á barnum eða internetinu, í Akureyrarkirkju köllum við þetta Einbúakaffi.

Kirkjan býður líka upp á starf fyrir eldriborgara í mjög mörgum kirkjum víða um land, ekki síst á minni stöðum þar sem framboð á félagsstarfi aldraðra er ekki eins mikið eins og til dæmis á stærri stöðum eins og hér á Akureyri og í Reykjavík.

Síðast en ekki síst er fjöregg kirkjunnar, barna og æskulýðsstarfið. Það er öllum börnum opið og að sjálfsögðu að kostnaðarlausu og er undirbúið og unnið af fólki sem hefur í flestu tilvikum uppeldis eða guðfræðimenntun. Í barnastarfinu er gert ráð fyrir því að börn hafi mismundandi þarfir og séu að fást við allskonar áskoranir heilsufarslega og félagslega. Það eru engin A B eða C lið í barnastarfi kirkjunnar. Þar eru einfaldlega allir í A liðinu. Starfið gengur út á að hvert barn finni að nærvera þess og mæting skipti máli, að í kirkjunni sé fullorðið vel meinandi fólk sem tekur á móti barninu fagnandi og nennir að leika við það og spjalla við það og segja því sögur. Börn þrá að heyra sögur og kirkjan er kannski að verða síðasta vígi þeirrar listar fyrir utan leikhúsin.

Barnastarf kirkjunnar er líka tónlistarstarf, víða eru starfræktir barnakórar sem að hámenntað tónlistarfólk stjórnar og veitir börnum tækifæri til að koma fram og þjálfa tóneyrað og kveikir jafnvel áhuga á áframhaldandi tónlistarnámi en fyrir því eru mýmörg dæmi til dæmis hér í Akureyrarkirkju.

Í kirkjum landsins er líka tónlistarf fyrir fullorðið fólk því fæstar kirkjur er án kirkjukóra og þar er mikinn félagsauð að finna.

Í kirkjum landsins fá mörg önnur mannræktarstörf sína aðstöðu, AA hópar, 12 spora hópar, stuðningur við alzheimersjúka og aðstandendur þeirra. Og svo eru fordæmi fyrir því að fólk af öðrum trúarbrögðum sem hefur meðal annars þurft að flýja hingað undan stríðsátökum í heimanlandi sínu fái aðstöðu til að iðka sína trú, til dæmis í Ramadanmánuði.

Hér hef ég bara talið upp það sem ég ein man en kollegar mínir og allt starfsfólk kirknanna um landið vítt og breitt gæti hæglega bætt við listann þannig að úr yrði heill doðrantur.

Þjóðkirkjan er gríðarlega dýrmæt. Hún er að standa sig á svo ótal mörgum sviðum. Ekki má heldur gleyma því að hún er líka bakhjarl lögreglu og sjúkrahúsa þegar stóráföll verða. Það er alltaf hægt að ná í prest ef tilkynna þarf andlát og veita áfallahjálp um leið og það er gert í vel flestum tilvikum. Það er ekki sérþjónusta sem þarf að greiða fyrir heldur ein af skyldum þessarar stjórnarskrárvörðu lýðheilsustöðvar sem þjóðkirkjan er.

En þjóðkirkjan veit líka að hún er að þjóna í fjölmenningarsamfélagi og það er stórkostlegt. Það er alveg rétt sem nýr biskup benti á í viðtali á dögunum að fækkun í þjóðkirkjunni er ekki vegna þess að fólk sé að segja sig úr henni í hrönnum heldur vegna þess að við erum ekki lengur einsleitt þjóðfélag. Hér býr fólk af ýmsum trúarbrögðum og eðlilega verður breyting á hlutfalli þeirra sem tilheyra þjóðkirkjunni. Rétt eins og í leik og grunnskólum landsins þar sem ekki eru lengur öll börn afkomendur Jóns Arasonar í áttunda lið. Guði sé lof! Okkur vantaði náttúrlega sárlega fjölbreytni í þessu landi. Þjóðkirkjan getur verið virkur bakhjarl fjölmenningarsamfélagsins og það er í raun köllun hennar. Kirkjan er alheimshreyfing og markmið hennar er fyrst og síðast að þjóna fólki út frá tvíþætta kærleiksboðorði Jesú um að elska Guð og náungann hver sem hann er og hvaðan sem hann kemur, eins og sjálfan sig.

Við tökum nýjum vetri í safnaðarstarfi kirkjunnar um allt land fagnandi. Kirkjan er og vill vera skjól allra sem hér búa því hann Jesús læknar, líknar og frelsar.

Uppbygging Akureyrarflugvallar hefur aukið lífsgæði íbúa

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 22:10

Heimur á villigötum

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 22:00

Sjóðir bundnir landsvæðum til að styðja við nýsköpun og skapandi greinar

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 10:00

Akureyrarbær stendur við sitt

Ásthildur Sturludóttir skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 15:45

Lægri fjármagnskostnaður, er krónan góð fyrir landsbyggðirnar?

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 10:00

Örugg skref um allt land

Logi Einarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 06:00