Fara í efni
Umræðan

Áfallahjálpin

Hildur Eir Bolladóttir, sóknarprestur í Akureyrarkirkju, flutti eftirfarandi prédikun við messu í morgun. Hildur veitti Akureyri.net góðfúslegt leyfi til að birta hana.
_ _ _

Alúð er orð sem hefur orðið mér hugleikið að undanförnu, finnst þér þetta ekki fagurt orð, alúð. Ég man ljóð eftir föður minn þar sem meðal annars segir:

Mikla alúð legg égvið lítinn garðað húsabaki:reit forfeðra minn,sem bjuggu hérmann fram af manni.Ég man föður minnog aldurhniginn afavið jarðyrkjustörfer tóm gafst.- Ræktaðu garðinndrengur minn;þá slær hjartaðog slær rétt -sagði afi við migþar sem hann kraupog reytti illgresiúr animónubeðihandan við kjarneplatréð.

Þegar maður les um konurnar sem höfðu fylgt Jesú, syrgðu hann og gengu að gröfinni á páskadagsmorgni til að vita um hann og smyrja hann ilmandi smyrslum þá kemur þetta orð ALÚÐ fyrst upp í hugann. Í huganum opnast gröfin þegar orðið verður að veruleika, þegar alúð er lögð við lífið. „Hver mun velta stóra steininum frá“ hugsuðu konurnar á leið sinni að gröfinni. Eðlilega töldu þær að mikill líkamlegur styrkur þyrfti þar að koma til en vissu ekki sem var að alúðin sem bjó í brjósti þeirra var aflið sem velti honum frá.

Á dögunum las ég bók sem er nýútkomin á íslensku og ber titilinn „Líkaminn geymir allt, hugur, heili, líkami og batinn eftir áföll.“ Höfundur bókarinnar er þekktur hollenskur geðlæknir að nafni Bessel Van Der Kolk sem hefur rannsakað lengi áfallastreitu og leiðir til að yfirvinna hana. Í bókinni styður hann rannsóknarniðurstöður með ýmsum dæmum af sjúklingum sem til hans hafa leitað og útskýrir taugalíffræðina að baki áfallaeinkennum og hvernig þau koma fram í líkama okkar og atferli. Þótt bókin fjalli um geðlæknisfræði og áföll þá birtir hún líka sem eðlilegt er miðað við viðfangsefni, djúpan mannskilning sem á erindi við okkur öll burtséð frá því hvort við erum að fást við áföll þessa stundina eða ekki. Höfundurinn talar meðal annars um geðlyf sem hann ávísar vissulega sjálfur enda lífsnauðsynleg í meðhöndlun margra geðsjúkdóma en þó fer hann ekki leynt með þá skoðun að við úrvinnslu áfalla séu þau töluvert ofmetin. Hann færir rök fyrir því að lyf geti hjálpað að ákveðnu marki en hins vegar geri úrvinnsla áfalla ríkari kröfu um djúpa mannlega samfylgd og mikla valdeflingu þess sem fyrir áfallinu verður.

Þá segir hann meðal annars að hið svokallaða heilasjúkdómslíkan sem er notað til grundvallar lyfjagjöf við áfallastreitu líti framhjá ákveðnum grundvallarsannindum sem hann skiptir upp í fjóra liði:

– Í fyrsta lagi eru það þau sannindi að geta okkar til að eyðileggja hvert annað er jöfn getu okkar til að lækna hvert annað, þetta segir hann því auðvitað eru mörg áföll af manna völdum sem þýðir að lækning og upprisa getur líka verið í manna höndum. Í öðru lagi eru það þau sannindi að endurreisn tengsla og samfélaga er grunnur að endurreisn velferðar. Tungumálið gefur okkur kraft til breytinga á sjálfum okkur og öðrum með því að deila reynslu okkar og það hjálpar okkur að skilgreina hvað við vitum og finna sameiginlegan skilning á tilgangi, þess vegna er svo mikilvægt að rækta tungumálið og orðaforða sinn. Í þriðja lagi höfum við getuna til að stýra okkar eigin líffræðilegu klukku og þar með sumum af svokölluðum ósjálfráðum viðbrögðum líkama og heila í gegnum einfalda starfsemi eins og öndun, hreyfingu og snertingu. Í fjórða og síðasta lagi getum við breytt félagslegum aðstæðum og skapað þannig umhverfi þar sem börn og fullorðnir finna fyrir öryggi og blómstra. Þegar við hunsum þessar ómissandi víddir mennskunnar segir höfundur, tökum við frá fólki leiðina til bata, frá áföllum til endurreisnar sjálfræðis. Að vera sjúklingur frekar en þátttakandi í eigin bataferli aðskilur fólk sem þjáist frá samfélagi sínu og einangrar það frá eigin sjálfsvitund (Bessel Van Der Kolk. Bls 53. Líkaminn geymir allt. Forlagið 2023).

Hróp mannfjöldans við krossinn á Golgatahæð þar sem það hæddist að Jesú með orðunum „Ef þú ert Guðs sonur þá stígðu niður af krossinum, bjargaðu sjálfum þér“ hefur orðið mér hugleikið á undanförnum árum. Það að hann steig ekki niður af krossinum er einhver stærsta áfallahjálp sem mannkyni hefur hlotnast í meira en tvö þúsund ár. Krossinn varð þar með vettvangur samfylgdar Guðs og manna í öllum áföllum sem skilja eftir sig naglaför í lófum og hjörtum líkt og þau sem Kristur bar. Jesús breytti krossinum í lífgjöf, breytti honum í tákn trúar og vonar, hugrekkis og styrks.

Þegar ég sjálf greindist í annað sinn með krabbamein fyrir sléttum tveimur árum einmitt daginn fyrir skírdag og eina sem var ljóst á þeirri stundu var að krabbinn hefði dreift sér og ég þyrfti að bíða fram yfir páska til að vita hvað hægt væri að gera, þá var ég óendanlega þakklát fyrir að Jesús skyldi ekki hafa stigið niður af krossinum. Það er þó ekki í fyrsta sinn sem ég þakka það. Ég var raunar svo þakklát að ég fann kraft til að messa á páskadegi og annast útför í vikuna á eftir sem ég hafði raunar tekið að mér áður en mér bárust þessi válegu tíðindi. Kristur valdi að vera á krossinum þar til hann gaf upp andann og þannig var hann frumkvöðull að því sem nútímamaðurinn kallar í dag áfallahjálp. Á krossinum var Kristur með mér í ótta mínu og óvissu um framtíðina og skildi mig aldrei eina eftir í angistinni. Áfallahjálp snýst einmitt um það að skilja ekki fólk eitt eftir í angistinni, hún snýst ekki um að eyða angistinni eða eyða sorginni eða öðrum sárum tilfinningum heldur skilja fólk ekki eftir eitt með þungann.

Bók hollenska áfallasérfræðingsins Van Der Kolk sýnir svo ekki verður um villst að hin raunverulega úrvinnsla áfalla verður ekki að veruleika með hjálp lyfja eða annarra inngripa þó þau geti vissulega sefað sársauka og hjálpað fólki yfir erfiðasta hjallan. Úrvinnslan sjálf verður með umvefjandi samfylgd og með góðri hjálp við að fara í gegnum tilfinningarnar sáru og skilja hvaðan þær koma og hverjar þær eru og hvernig hægt er að fá þær til að mildast með tímanum og eignast aftur líf í fullri gnægð. Niðurstaða úrvinnslunnar er að vera þátttakandi í eigin bataferli í stað þess að vera bara sjúklingur. Með öðrum orðum þá sýnist mér á öllu að áfallahjálp Jesú Krists hins krossfesta og upprisna sé aftur að verða að viðurkenndri aðferð, það er, að þora eins og Kristur að stíga inn í sársauka og þjáningu annarra og dvelja þar jafnvel þó það sé sárt. Kristur valdi að stíga ekki niður af krossinum heldur vera þar til yfir lauk og svo reis hann upp og því fögnum við í dag, hann reis upp til að við mættum eygja von í öllum mögulegum og ómögulegum aðstæðum lífsins. En hann varð að vera á krossinum svo hann gæti risið upp, það er mergurinn málsins.

Alúð er orð sem kemur upp í hugann á páskadagsmorgni þegar við fögnum lífinum með stórum staf. Líkt og Van Der Kolk benti á er endurreisn tengsla og samfélaga grunnur að endurreisn velferðar. Tengsl verða til af alúð. Tengslin sem konurnar sem komu að gröfinni á páskadagsmorgni áttu við Jesú voru ræktuð af alúð, þess vegna áttu þær líka til þetta mikla hugrekki að fara af stað um sólarupprás án þess að vita hverju þær mættu. Alúðin bjó í brjósti þeirra og blés þeim hugrekki og trú til athafna sem áttu eftir að breyta heiminum. Þær urðu fyrstu kristniboðarnir, þær veittu heiminum áfallahjálp fyrir upprisu Jesú Krists. Já sú alúð sem við auðsýnum lífinu veltir bæði stóru steinum frá og litlum steinum við, munum það og munum að Kristur er upprisinn, hann er sannarlega upprisinn.

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00