Fara í efni
Umræðan

Ekkert til sem heitir Við og Þið

Hildur Eir Bolladóttir var sett í embætti sóknarprests í Akureyrarkirkju í messu í morgun. Hildur gaf Akureyri.net góðfúslegt leyfi til að birta predikun hennar við messuna. 
_ _ _

Nú búum við okkur undir páskahátíðina í kirkjunni með því að líta inn á við, skoða líf okkar og líðan, venjur og siði, hugsanir og gjörðir, samskipti við annað fólk og umgengni um sköpunarverkið. Langafasta eru fjörutíu dagar og minna okkur á þann tíma þegar Jesús fastaði í eyðimörkinni eftir að hafa tekið skírn í ánni Jórdan. Áður fyrr tíðkaðist að neyta léttari fæðu, taka út kjöt og hvíla meltinguna svo huganum gæfist betra tóm til að vinna sitt verk og íhuga pínu og dauða Jesú Krists. Nútímamaðurinn virðist reyndar vera búinn að enduruppgötva gildi föstunnar sér til heilsubótar því á umliðnum árum hafa margir tamið sér að fasta reglulega um lengri eða skemmri tíma og einhverjar læknisfræðilega rannsóknir verið gerðar sem staðfesta gagnsemi þess að fasta. Margir vilja meina að fastan komi blóðsykrinum í betra horf, vinni gegn sykursýki og hjálpi til við þyngdarstjórnun. Af því leiðir að manneskjunni líður betur og þegar okkur líður betur og boðefni heilans starfa eðlilega þá erum við líklegri til að hugsa með jákvæðari og lausnamiðaðri hætti auk þess að vera betur í stakk búin til að fást við ýmis vandamál sem eðlilega fylgja því að vera ófullkomin manneskja.

Á föstunni lesum við ýmsa texta Biblíunnar sem fjalla um synd. Mörgum finnst það óttaleg tímaskekkja að vera að minna nútímanninn sem er svo upplýstur og víðsýnn á syndina, nóg sé nú samt sem við manneskjurnar þurfum að takast á við í lífi okkar að kirkjan sú aldna móðir sé ekki að nudda okkur upp úr grárri forneskju syndarinnar sem enginn sjálfstæður heilvita maður með alla sína tilfinningagreind þarf að hlusta á. Ég hef einmitt oftar en einu sinni lesið statusa á samfélagsmiðlum þar sem mjög svo málsmetandi fólk í samfélaginu hæðist að ritúali kirkjunnar sem það heyrir í útvarpsmessunni hvar fólk er hvatt til að játa syndir sínar áður en það þiggur náðarmeðul eða kærleiksmeðal altarisgöngunnar með opnu hjarta en ekki hertu.

Á sama tíma hefur kvíði, kulnun og þunglyndi sennilega aldrei mælst hærra meðal þjóðarinnar og meðal vestrænna þjóða. Upp á síðkastið hafa fagaðilar innan geðheilbrigðiskerfisins einmitt tjáð sig um fyrirbærið kulnun á nýjan máta og velt því meira upp hvað kulnun merki og hvort hægt sé að ákveða að um eitthvað eitt sé að ræða eða hvort myndin sé hugsanlega margræðari og þá jafnvel hvort kulnun sé í sumum tilfellum vangreint þunglyndi. Nútíminn hefur ríka tilhneigingu til að tískuvæða allt undir sólinni, meira að segja sjúkdóma og allt í einu eru allir að glíma við það sama en enginn lengur að glíma við svarta hundinn eða þunglyndið sem var þar til fyrir sirka tíu árum einn algengasti geðsjúkdómur veraldar. En hvað sem því líður og hvort sem það heitir kulnun eða þunglyndi eða kvíði þá eru þetta geðkvillar og geðkvillar eru erfiðir og þjáningarfullir og orsök þeirra er flókið samspil erfða og umhverfis. Stundum er þunglyndi afleiðing af lífskrísum og stundum er það mallandi milli kynslóða í samkrulli við ýmis konar fíknisjúkdóma og stundum er það hreinlega eins og samtvinnað persónuleika manneskjunnar og genum. Stundum hjálpa lyf við að halda niðri þunglyndinu, stundum hjálpa þau lítið eða langan tíma tekur að finna þau réttu, oft gagnast samtalsmeðferð við sálfræðing, þó ekki alltaf og stundum tekur líka tíma að finna rétta sálfræðinginn en sem betur fer getur þetta unnið vel saman og alltaf er von um bata.

Kjarnatilfinning þunglyndis hver sem orsök þess er heitir skömm, hinn þunglyndi upplifir skömm og sektarkennd af slíku alefli að það er ómögulegt að ímynda sér afl þess hafi maður ekki staðið í þeim sporum, það líkist einhvers konar innra snjóflóði. Hinn þunglyndi getur verið sómakærasta manneskja sem þú þekkir og samt líður honum eins og hann beri ábyrgð á allri þjáningu og hörmungum heimsins.

Hvaða erindi á kirkjan við þann sem líður þannig? Má hún tala um synd við hinn þunglynda sem er á barmi þess að deyja úr skömm? Hver er grundvallarhugmynd kristinnar trúar um syndina? Jú er það ekki það að við séum öll syndug, öll sem eitt, að það að vera mennskja þýði einfaldlega að maður hafi syndgað. Þegar kemur að syndajátningunni í messunni er ekki sagt „nú skulu þeir sem hafa syndgað játa syndir sínar og reyna að hundskast til að lifa í kærleika og sátt við alla menn á meðan við hin bíðum og hlæjum að vanþekkingu ykkar og fávitaskap.“ Nei það er ekkert sem heitir Við og Þið í kristinni trú hvort sem um ræðir synd eða náð. Við erum öll eitt í Kristi Jesú, við erum öll syndug en við eigum líka öll von fyrir hann. Kjarnatilfinning þunglyndis er skömm þess sem líður eins og honum hafi mistekist allt en að allir aðrir í kringum hann séu með sitt á hreinu og því telur hinn veiki að það sé alls ekki góð hugmynd að opna á hugsanir sínar því þá gæti eitthvað hræðilegt gerst. Í þessum spíral eykst einsemd hins þunglynda og einangrun og við vitum öll hvað það þýðir fyrir möguleikann á bata.

Kristin trú ávarpar kjarnatilfinningar manneskjunnar og náttúrlega þá kjarnaþrá manneskjunnar að vera elskuð. Kjarna tilfinningar eru sem dæmi gleði, sorg, ótti, von, reiði, skömm, ást, tilhlökkun, kvíði svo fáeinar séu nefndar. Þetta eru tilfinningar sem allar manneskjur þekkja hvort sem þær gangast við þeim eða ekki, með öðrum orðum er það að vera manneskja það að hafa fundið þessar tilfinningar. Hvernig við síðan túlkum þær og hvað við gerum við tilfinningarnar sker úr um það hvernig okkur reiðir af. Hvort við eigum traust, hlýtt og gott bakland hefur allt að segja. Engin manneskja er yfir það hafin að finna neikvæðar og vondar tilfinningar. Það er ekkert sem heitir VIÐ og ÞIÐ þegar kemur að tilfinningum. Bakland okkar er hins vegar misjafnt, við vitum það og einmitt þess vegna er svo mikilvægt að eitthvað stærra sé til í kringum okkur en við og baklandið okkar, að það sé til eitthvað sem heitir andlegt samfélag þar sem allir eru meira en velkomnir og í rauninni kallaði eftir fólki, nærveru þess, hæfileikum og þjónustu þrátt fyrir synd og skömm.

Við lifum á tímum þar sem dómstólar eru víða, þar sem mikið er bent á syndir annarra en flestar reynslusögur varpa ljósi á hetjudáð þess sem hefur mætt miklu mótlæti sem brotið hefur verið á en hafið sig aftur til flugs. Þær eru færri ef nokkrar reynslusögurnar frá syndaranum sem fékk tækifæri til að rísa aftur upp eftir brot sín, nema náttúrlega í guðspjöllunum, þau eru full af slíkum sögum, af fólki sem er útskúfað en Jesús ávarpar og reisir við til að hjálpa því aftur út í samfélagið. Fræg er sagan af tollheimtumanninum Sakkeusi og ákvörðun Jesú um að heimsækja hann fremur en aðra sem biðu þess spenntir að eiga við hann samtal. Fólkið varð pirrað en Jesús vissi að það væri hagur allra að hann ætti samtal við Sakkeus og hjálpaði honum við að horfast í augu við sjálfan sig og taka ábyrgð en gefa honum um leið von um að eignast nýtt líf sem nýr maður. Það var mat Jesú að þannig yrði samfélagið í Jeríkó öruggara og betra.

Í guðspjalli dagsins hittir Jesús fyrir Bartímeus blinda sem fær sjón fyrir eigin trú. Það er raunar alltaf að gerast, að fólk fái nýja sýn fyrir trú, að fólk sjái vegna trúar, sjái tilganginn með lífi sínu þrátt fyrir allt sem hefur misfarist, sjái ástæðu til að bæta ráð sitt, sjái aðstæður náungans, sjái sig í aðstæðum náungans, sjái tilefni til að auðsýna miskunnsemi. Kristin trú og andlegt líf er ómetanlegt sjóntæki í veröld þar sem enginn er undanskilinn synd og vanmætti.

Rannsóknir sýna að kvíði og þunglyndi er að aukast í samfélögum sem kenna sig við velmegun. Á því er engin ein skýring en ef kirkjan hefur einhvern tíma haft ríku hlutverki að gegna þá er það einmitt nú þegar við höldum að til séu patent lausnir við öllu og eftir situr fjöldi fólks í angist vegna þess að sannleikurinn er sá að það er ekki til nein patent lausn við því erfiða verkefni að vera manneskja, já það er erfitt að vera manneskja en það er líka ofboðslega fallegt þegar því er skilningur sýndur. Það er fátt jafn fallegt í veröldinni eins og geta mannsins til að vera samferða öðrum í þjáningum þeirra. Eins og við upplifum reglulega hérna í kirkjunni þegar horft er á eftir mannfjöldanum ganga á eftir kistunni við útför til að bera sorgina með nánustu ástvinum. Þessi samfylgd þar sem við erum öll á sömu leið og hinn látni. Dag einn verður nefnilega ekkert okkar hér og eina sem eftir stendur er að við vorum samferðarfólk sem játuðu saman syndir okkar, bárum hvert annars sorgir, héldum hvert öðru ábyrgu, sýndum hvert öðru miskunnsemi af því að enn og aftur, það er ekkert til sem heitir VIÐ og ÞIÐ. Við erum öll eitt í Kristi Jesú. Amen

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00