Fara í efni
Umræðan

Hin borgin

Borgir eru merkilegt fyrirbæri. Vegna fyrirkomulags sem býður upp á mikla verkaskiptingu og fjölþætta þjónustu laða þær til sín fleiri og fleiri íbúa, sem skapar deiglu, sem aftur verður aflvaki framfara. Þær geta líka leikið lykilhlutverk í baráttu gegn loftslagsbreytingum. Borgir hafa auk þess jákvæð áhrif langt út fyrir borgarmörkin og skapa nágrannabyggðum blómlegri skilyrði. Suðvesturhornið er gott dæmi um þetta.

Árið 1963 skrifaði Valdimar Kristinsson, hag- og landfræðingur, að lítil þorp eða bæir geti aðeins að takmörkuðu leyti hamlað straumi til Reykjavíkur og nágrennis, önnur borg væri eina mótvægið sem gæti dugað. Hann sagði slíka borg geta aukið öryggi og gert þjóðlífið bæði fjölbreyttara og skemmtilegra. Valdimar nefndi Akureyri sérstaklega til sögunnar í þessu samhengi. Hugmyndin um Akureyri sem borg er því ekki ný af nálinni.

Tæpum 60 árum síðar stöndum við hins vegar enn í svipuðum sporum, nema hlutfall þeirra íbúa landsins sem búa á áhrifasvæði höfuðborgarinnar fer enn hækkandi og er nú um 80%. Reykjavík gegnir sannarlega mikilvægu hlutverki fyrir okkur öll og mun gera það áfram með sinni þjónustu og margbreytileika. En jafn augljóst og er að landsbyggðirnar þurfa á sterkri höfuðborg að halda, hefur höfuðborgin líka ávinning af sterkum landsbyggðum.

Samfylkingin vill því blása til sóknar í byggðamálum landsins með því að efla hlutverk Akureyrar sem svæðisborgar sem styrki nærliggjandi svæði og efli samkeppnishæfni landsins alls. Akureyri yrði þannig „hin borgin“ á Íslandi, eða það sem víða erlendis er kallað „second city,“ með þeim réttindum, skyldum og ábyrgð sem því fylgir. Um leið og það er mikilvægt að skilgreina bæði hlutverk og ábyrgð Reykjavíkur sem höfuðborg allra landsmanna er skynsamlegt að skilgreina Akureyri sem svæðisborg og fjármagna það hlutverk sem borgirnar tvær hafa.

Fyrir þau sem finnst hugmyndin um svo smáa borg fráleit má nefna að við upphaf endurreisnarinnar voru margar mikilvægar borgir álfunnar álíka stórar og Akureyri er nú. Þannig voru það fremur eiginleikar staðanna en íbúafjöldi sem skilgreindi hvað væri borg.

Akureyri ber nefnilega mörg einkenni borgar og hefur auk þess góð vaxtarskilyrði. Háskóli, sjúkrahús, menningarhús, alþjóðaflugvöllur, fjölbreytt verslun og þjónusta auk iðandi lista og íþróttalífs, skapar íbúum ákjósanleg lífsskilyrði, auk þess sem hún gegnir mikilvægu svæðisbundnu hlutverki fyrir allt Norðausturland. Það er öflug byggðaaðgerð að styrkja hlutverk Akureyrar og getur bætt aðgengi íbúa á stóru landsvæði að þjónustu til mikilla muna. Þannig er markmiðið ótvírætt ekki aðeins fólgið í því að efla Akureyri, heldur einnig nágrannabyggðirnar. Þetta er auk þess fjárhagslega skynsamlegt fyrir allt landið.

Aðgerðir sem hægt er að ráðast í nú þegar í þessu augnamiði eru að Sjúkrahúsið á Akureyri verði háskólasjúkrahús, að Háskólinn á Akureyri bjóði upp á bæði list- og tækninám, miðstöð um málefni Norðurslóða á Akureyri verði efld til muna, framlög ríkisins í menningarsamning vegna Leikfélags Akureyrar, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og Listasafnsins á Akureyri verði stóraukin og kraftur verði settur í að koma á reglulegu millilandaflugi til Akureyrar: Það ásamt öðrum markvissum aðgerðum í uppbyggingu ferðaþjónustu mun efla Akureyri sem miðstöð fyrir ferðafólk sem vill njóta alls þess sem Norðurland hefur upp á að bjóða. Þá ættum við að hugsa stórt í alþjóðasamvinnu og stefna að því að Akureyri verði Menningarborg Evrópu 2026.

Á sama tíma er einnig nauðsynlegt að skilgreina tvö önnur þjónustusvæði eða svæðiskjarna og ráðast í aðgerðir til að styrkja þau. Annars vegar á Austurlandi og hins vegar á Vestfjörðum. Til þess að slíkir kjarnar nái að sinna hlutverki sínu eru miklar samgöngubætur algjört lykilatriði, enda stækkar þjónustusvæði kjarnanna um leið og samgöngur batna.

Með markvissri byggðastefnu getum við bætt aðgengi allra landsmanna að almannaþjónustu, aukið tækifæri til verðmætasköpunar og skapað framsækið, fjölbreytt og skemmtilegt samfélag.

Logi er formaður Samfylkingarinnar og í fyrsta sæti á lista flokksins í Norðausturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 25. september. Hilda Jana, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akureyri, er í öðru sæti listans.

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00