Fara í efni
Umræðan

Fleiri nýnemar en áður í 40 ára sögu VMA

Námið í VMA hefur aldrei verið jafn fjölbreytt en vinsælasta námið er í rafiðn, byggingagreinum og málmiðn. 40 ára afmæli skólans verður fagnað í vikunni. Myndir: VMA

Aldrei hafa jafn margir nýnemar verið í Verkmenntaskólanum á Akureyri og þetta haustið. Rúmlega 30% þeirra eru að hefja nám á þremur vinsælustu brautum skólans; grunndeild málmiðna, byggingagreina og rafiðnaðar. Þá eru líka óvenju margir nemendur að hefja nám í sjúkraliðanum miðað við undanfarin ár.

Fjölbreytt námsframboð

„Nýnemahópurinn hefur ekki verið svona stór í 40 ára sögu skólans, sem er bara frábært. Við finnum fyrir greinilegum áhuga og ásókn hingað,“ segir skólameistarinn, Sigríður Huld Jónsdóttir. Námsframboðið hefur líka aldrei verið jafn mikið, en VMA er sá framhaldsskóli landsins sem býður upp á fjölbreyttasta námsframboðið, að frátöldum Tækniskólanum í Reykjavík.

Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, er ánægð með áhuga nýnema á skólanum en nýnemahópurinn í ár er stærri en venjulega.

„Á vinsælustu brautunum höfum við þurft að vísa nemendum frá og bjóða þeim annað námsframboð. Þá komast eldri nemendur ekki að í dagskóla á vinsælustu brautunum. Okkur vantar meira pláss til þess að geta tekið við fleirum,“ segir Sigríður. Aðspurð hvað veldur þessum mikla áhuga á vinsælustu brautunum segir hún að störfin sem verið er að mennta til séu afar eftirsóknarverð. „Fólk fær vinnu í greinunum, þau eru vel borguð, störfin eru orðin meira tæknilegri en áður og öll vinnuaðstaða er gjörbreytt. Pípari í dag og pípari fyrir 20 árum eru til dæmis ekki að gera það sama. Þessi breyting hjálpar til og gerir námið enn áhugaverðara.“

Ef við hefðum meira pláss og fleiri kennara þá gætum við auðveldlega verið með annan hóp í kvöldskólanum, en við höfum bara ekki mannskapinn í það og húsnæðið er alveg sprungið.

Óvíst hvenær byggingarframkvæmdir hefjast

Sigríður segir þróunina almennt varðandi iðn- og starfsnám vera þá að eftir að það tókst að auka áhuga á verknámi, eftir nokkra ára lægð, þurfti ekki mikla fjölgun á nemendum til þess að öll pláss yrðu full á landsvísu. „Skólarnir ráða ekki við þessa aðsókn sem veldur því að eldri nemendur komast ekki að. Það sem við í VMA höfum gert til að sinna þessum hópi er að bjóða upp á kvöldnám í húsasmíði og rafvirkjun. Það hafa aðrir skólar líka gert í einhvers konar lotu-, dreif- eða helgar- og kvöldnámi. Á þennan hátt ná skólarnir að sinna þessum eldri nemendum að einhverju leyti,“ segir Sigríður og bætir við að þetta fyrirkomulag henti reyndar mjög vel mörgum fullorðnum námsmönnum sem vilja stunda námið með vinnu. „Ef við hefðum meira pláss og fleiri kennara þá gætum við auðveldlega verið með annan hóp í kvöldskólanum, en við höfum bara ekki mannskapinn í það og húsnæðið er alveg sprungið,“ segir Sigríður. Þetta gæti reyndar verið að breytast þar sem að í vor var undirritaður samningur um viðbyggingu við skólann upp á 1500 m2. Enn er þó óvíst hvenær framkvæmdir við þá stækkun hefjast.

„Það er verið að byggja nýjan Tækniskóla og það er verið að klára viðbyggingu við Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Þannig það er alveg verið að bregðast við þessari þróun en það gerist bara allt of hægt. Við vonum bara að ásóknin í þessar greinar minnki ekki af því að fólk kemst ekki að,“ segir Sigríður.

Hver er Akureyri framtíðar?

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
13. september 2024 | kl. 17:30

Hverfist allt um lokamarkmiðið

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
10. september 2024 | kl. 13:30

Umhverfisslys í Kjarnaskógi

Elín Kjartansdóttir skrifar
02. september 2024 | kl. 14:30

Gulir og glaðir að störfum

Bragi V. Bergmann skrifar
02. september 2024 | kl. 14:25

Telja Brussel vera langt í burtu

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
01. september 2024 | kl. 06:00

Íbúðabyggð við bílastæði?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
30. ágúst 2024 | kl. 08:30