Fara í efni
Umræðan

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Þriðjudaginn 3. desember 2024 varð sá gleðilegi atburður að Umhverfis og mannvirkjaráð Akureyrarbæjar samþykkti tillögu um að hætt verði við að fresta framkvæmd í Hofi. (Sjá fundargerð ráðsins)

Þetta var samþykkt mótatkvæðalaust í ráðinu og næsta skref er að bæjarráð taki þetta til afgreiðslu.

Nefnd framkvæmd er fyrirhuguð bæting á loftræstingunni sem hefur verið á áætlun í mörg ár en alltaf frestað um eitt ár á hverju ári.

Þessi jólagjöf er með nokkra forsögu.

Þegar Hof var hannað var að sjálfsögðu gert ráð fyrir nútíma loftræstingu sem stýrir loftskiptum í öllu húsinu. Ferskt loft að utan er hreinsað með síum sem taka burt óhreinindi af ýmsu tagi sem gætu annars borist inn t.d. svifryk af götum, frjókorn og fljúgandi skordýr. Síðan er loftið sent í gegnum snilldarbúnað, svonefndan varmaskipti, sem flytur varmann úr loftinu sem er á útleið yfir í loftið sem er á leið inn (þetta er svonefnd glatvarmanýting) Notaða inniloftinu er dælt út um varmaskiptinn.

Í alvöru nútíma loftræstingum er eitt enn sem þarf að halda í góðu standi:

Rakastigið.

Það er nefnilega þannig að andrúmsloftið utanhúss er með mismunandi miklu af uppgufuðu vatni frá degi til dags, aðallega vegna þess að hitastigið hefur mest að segja um það hve mikið er af vatni í loftkenndu formi í andrúmsloftinu. Það verður til þess hér á landi að þegar ferska loftið að utan er hitað upp í það hitastig sem við viljum hafa innanhúss er það nánast alltaf með lægra rakastigi en gott þykir. Undantekningin eru hlýjustu sumardagarnir.

Á frostdögum er rakastigið í loftinu sem kemur úr loftræstistæðunni eftir upphitun alltaf lægra en æskilegt er, jafnvel algerlega óviðunandi fyrir það sem ætti að vera í húsnæðinu sem tónlistarskólinn er með í notkun.

Þessi galli sýndi sig strax og tónlistarskólinn flutti inn. Allur búnaður sem er viðkvæmur fyrir ofþurrkun og sveiflum í rakastigi, t.d. hljóðfæri og hljóðfærahlutir úr tré liggja undir skemmdum.

Það gekk svo langt að skólinn afþakkaði vandað selló sem ættingi minn bauð þeim á góðum kjörum, skólafólkið vildi ekki taka þá áhættu að hljóðfærið laskaðist.

Skólastjóri tónlistarskólans barðist lengi fyrir bættum aðstæðum fyrir daufum eyrum.

Nú loksins hillir undir endann á biðinni eftir alvöru úrlausn svo hægt verði að leggja af ófullnægjandi neyðarreddingar sem reynt er að nota til að minnka skaðann.

Því má segja að þetta sé prýðisgóð jólagjöf.

Ólafur Kjartansson er áheyrnarfulltrúi VG með málfrelsi og tillögurétt í Umhverfis- og mannvirkjaráði Akureyrar.

Tryggjum öryggi Reykjavíkurflugvallar

Gunnar Már Gunnarsson og Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifa
21. janúar 2025 | kl. 14:45

Ferðaþjónustufólk kemur saman

Arnheiður Jóhannsdóttir skrifar
15. janúar 2025 | kl. 11:15

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00