Fara í efni
Umræðan

Fátt skemmtilegra en að geta gefið af sér

Anton Sveinn McKee ræðir við hóp krakka úr Óðni þegar hann stjórnaði æfingu í Sundlaug Akureyrar. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Það hljóp heldur betur á snærið hjá krökkum í Sundfélaginu Óðni, foreldrum þeirra og forráðamönnum félagsins í vikunni. Fremsti sundkappi Íslands, Anton Sveinn McKee, hélt fyrirlestur fyrir iðkendur, fundaði með foreldrum og stjórnaði æfingum hjá elsta hópnum.

Ekki eru nema fáeinar vikur síðan Anton Sveinn varð sjöundi í 200 m bringusundi á heimsmeistaramótinu í Japan og félagar í Óðni hafa því varla getað hugsað sér betri heimsókn!

Mjög gaman og gefandi

„Mér finnst gott að nýta sumarfríið í eitthvað skemmtilegt annað en að synda sjálfur,“ sagði Anton Sveinn í spjalli við Akureyri.net. „Það er mjög gaman og mjög gefandi að hvetja næstu kynslóð. Ég byrjaði á nákvæmlega sama stað og þessir krakkar og hvet alla til að láta sig dreyma um að ná langt. Ég veit að ekki geta allir náð á toppinn en mér finnst allir eigi að þora að reyna.“

Sundkappinn býr og æfir í Bandaríkjunum „en mér finnst rosalega gott að vera á Íslandi af og til,“ segir hann. Spurður út í fyrirlesturinn og hvað sé mikilvægast að tala um við krakkana, svarar hann að það séu sömu atriði og oft hafi verið nefnd. „Ég tala til dæmis um mataræði, svefn og markmiðasetningu; hvernig er best að hugsa til þess að ná markmiðum sínum. Svo tala ég um hvað sund er ofboðslega skemmtilegt, að mikilvægt sé að hafa gaman á æfingum en líka að það besta við sundið eru liðsfélagarnir.“

Foreldrar mjög áhugasamir

Sumt af þessu eru hlutir sem margir tala um og oft. „Af einhverjum ástæðum er það samt miklu skemmtilegra að heyra um þetta frá einhverjum eins og mér en frá mömmu og pabba!“ segir sundkappinn og hlær. „Þess vegna er mjög gaman að fá tækifæri til að tala við krakkana af því ég veit að að getur hjálpað þeim.“

Á æfingum segist Anton Sveinn hafa byrjað á því að fara yfir „gömlu, góðu tæknina því það er hún sem kemur manni lengst.“ Hann fór síðan nánar út í tæknivinnu með hverjum og einum. „Á fundinum með foreldrum talaði ég svo um sömu hluti og við krakkana en frá annarri hlið. Það var frábært hve margir komu og sýndu því mikinn áhuga sem ég var að segja.“

Anton Sveinn var himinlifandi með dvölina á Akureyri. „Já, þetta hefur verið frábært. Það er fátt skemmtilegra en að geta gefið af sér; að fá tækifæri til að deila því með öðrum sem maður hefur lært í gegnum tíðina. Svo fékk ég íslenskan, heimagerðan mat heima hjá Guðrúnu Rósu [Þórsteinsdóttur, formanni Óðins]. Ertu ekki að grínast? Það var dásamlegt að fá íslenskan fisk!“

Anton Sveinn varð sjöundi í 200 m bringusundi á HM á dögunum eins og áður kom fram og náði í leiðinni ólympíulágmarki í greininni. Því er ljóst að hann verður meðal keppenda á ÓL í París á næsta ár. „Þess vegna er mjög spennandi ár framundan og ég hlakka rosalega til,“ segir hann. Öll áhersla verði lögð á að búa sig sem best undir Ólympíuleikana. „Það er alltaf eitthvað sérstakt við Ólympíuleika. Það er geggjað að ná langt á heimsmeistaramóti og ég er stoltur af því en það er alltaf sætast og best að gera eitthvað á Ólymíuleikum.“

200 metra bringusundið er aðal grein Antons Sveins en hann stefnir að því að ná einnig lágmarki í 100 m bringsundi fyrir ÓL. Hann muni leggja hart að sér til að standa sig vel á ÓL; „ég veit að ég get synt nógu hratt en það skiptir öllu máli að að allt gangi upp á keppnisdegi,“

Tryggjum öryggi Reykjavíkurflugvallar

Gunnar Már Gunnarsson og Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifa
21. janúar 2025 | kl. 14:45

Ferðaþjónustufólk kemur saman

Arnheiður Jóhannsdóttir skrifar
15. janúar 2025 | kl. 11:15

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00