Um nesti, fótbolta og fótbolta kvenna

Gildi, hugmyndir, ákvarðanir og framkvæmd
Hvernig nestum við börnin okkar? Hefur það áhrif á verkefnið sem er framundan? Þeirra vegferð og velgengni? Líðan jafnvel?
Sauðfjárbóndi undirbýr göngur að hausti. Markmiðið er að ná öllu fé af fjalli. Sonur hans og dóttir ætla í göngur. Smala kindunum og leggja því sitt til búsins. Í aldanna rás hefur verið einhver hugmynd aftarlega í huga okkar að strákarnir séu betur til þess fallnir að smala. Það var oftar starf drengja en stúlkna. Líklega eru ekki til rannsóknir á því hvort þetta er rétt en svona hefur þetta verið. Eigum við nokkuð að breyta því?
Drengurinn er því (án umræðu) talinn líklegri til að smala meira af kindum en stelpan. Þau fara bæði. Heimilið nestar þau að sjálfsögðu til fararinnar. Strákurinn fær veglega eggjasamloku í nestismal sinn og blikk frá pabba. Stattu þig strákur, þú ert með þetta. Stelpan fær þunnt smurða hrökkbrauðsneið enda ekki líkleg til afreka en er dugleg að skella sér með. Hún fær klapp á bakið aukalega. Dugleg að skottast svona með í göngurnar.
Fyrir fólk af mölinni sem tengir lítið við landbúnaðinn þá er hér framhaldssaga. Eftir göngurnar (sem gengu vel) þá fengu systkinin brennandi áhuga á hlaupum. Strákurinn eldfljótur og líklegur að ná að komast yfir 100 metrana á 10 sekúndum sléttum. Tölfræði og náttúran sjálf hefur komið því þannig fyrir að hann gæti alveg gert það. Hann þarf hlaupaskó af bestu gerð til að ná markmiðum sínum. Dýrir, flottir með þykkum botni er það eina sem dugar. Stelpan er dugleg að hlaupa líka. En hún nær þessu aldrei á 10 sekúndum. Þunnbotna, gamlir Patrick skór með frönskum rennilás duga alveg. Svona skottastu nú af stað með bróður þínum. Dugleg er hún alltaf hreint að vera með.
Nú hækkar sól á lofti og boltinn rúllar. Fótboltamót sumarsins að fara af stað. Liðin hafa undirbúið sig af kappi og sorgir og sigrar líta dagsins ljós. Strákar og stelpur leggja sig fram og gefa allt í baráttuna fyrir sín lið. Beinar útsendingar, markaþættir og umfjallanir. Frábær tími fyrir áhugafólk um fótbolta.
Nú eru markaþættirnir um íslensku Bestu deildirnar tveir. Annar um strákana og hinn um stelpurnar. Það er gaman að horfa á umfjöllun um Bestu deild karla. Sérfræðingar fengnir sem hafa undirbúið sig í þaula og sýna okkur áhugafólkinu dæmi úr leikjunum af báðum liðum sækja, verjast, gott og slæmt. Vafaatriði sem dómarar sáu eða misstu af og svona má lengi telja. Þetta er í grunninn svona hjá stelpunum líka. Eða það virðist eiga að vera það.
Munurinn á þáttunum er svo mikill að líklega er bóndinn grunlausi að nesta teymin tvö til fararinnar. Miðað við vinnuna sem lögð er í þættina sýnist mér Gummi Ben sitja á eggjasamloku á meðan Helena Ólafs verður að gera sér hrökkbrauðssneiðina rýrt smurðu að góðu til að fjalla um efstu deild kvenna í fótbolta á Íslandi.
En þetta er allt mannanna verk. Engar staðreyndir eða tölur. Margir hafa bent á að innkoma í karlabolta eigi að ráða launum, styrkjum og því fjármagni sem „sett er í annars vegar karla- og hinsvegar kvennabolta“. Mig grunar að þó innkoma á leiki gegnum miðasölu sé ágæt þá hrökkvi hún varla fyrir því að reka félögin. Hún ein og sér sé ekki endilega stærsti þátturinn í þeim mikla rekstri.
Hver er sá þáttur? Framlög, styrkir, auglýsingasamningar? En því er öllu stjórnað af ákvörðunum okkar mannanna. Af hverju eru þeir svona mismunandi? Vegna fjölda sem kemur á vellina að horfa á leiki liðanna? Því fleiri á völlinn – því hærri styrkur frá einhverjum banka til félagsins?
Systkinin eru óstöðvandi. Nú er það Berlínarmaraþonið. En það kostar sitt að taka þátt í því. Ferðast, gista og borga þátttökugjald. Þau leita styrkja í heimabænum sínum og maður hefði haldið að bóndinn væri hissa þegar strákurinn kom heim úr viðskiptabankanum sínum með milljón í styrk til fararinnar á meðan stelpan, sem fór með honum, fékk 500 þúsund. Þetta var veglega styrkt og myndarlega hjá bankanum. En samt eitthvað pínu skrítið.
En það er auðvitað ósanngjarnt að fara að taka 250 þúsund af milljón stráksins til að hækka hlut hennar. Af hverju á hann að líða fyrir að hún væri í rauninni alveg til í meira? Stelpan hugsar til sögu sem hún las í æsku um hreinskilna barnið sem sá að keisarinn var ekki í neinum fötum og lét vita af því. Af hverju segir enginn neitt? Hún vildi ekki taka neitt af bróður sínum. Bankinn virkaði í ágætis standi, arður greiddur í milljarðavís á síðasta ári og afkoman ansi hraust. Hefði ekki bara verið best að styrkja þau bæði myndarlega í upphafi?
En vanþakklæti fyrir styrkveitingar eru auðvitað ekki málið. Hvorki hjá henni né öðrum. En allt eru þetta mannanna verk og ákvarðanir.
Umræðan er alltaf stöðvuð á sama stað. Að nú eigi að fara að taka aðra brauðsneiðina af Gumma Ben svo Helena hafi eitthvað líka. Á nú að taka annan hlaupaskóinn af drengnum svo stelpan geti fengið líka?
Hvernig viljum við nesta börnin okkar?
Smyrjum bara tvær góðar eggjasamlokur í upphafi og þau fara bæði á fjall og sækja þessar kindur. Eins og markmiðið var í upphafi!
Af hverju erum við að flækja þetta?
Þór Karls er áhugamaður um knattspyrnu og jafnrétti kynjanna. Akureyri.net birtir greinar undir dulnefni í einstaka tilfellum eins og að þessu sinni.


Bjánarnir úti á landi

Styrk stjórn gefur góðan árangur

Hörmungarástand við Lundargötu

Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis á erindi við þig
