Fara í efni
Pistlar

Unaður í eyrunum

Fimmti pistill Stefáns Þórs Sæmundssonar þar sem þeir Aðalsteinn Öfgar velta vöngum um eitt og annað í samfélaginu._ _ _

„Hefurðu pælt í því hvað tónlistin hefur ofboðslega mikil áhrif á líf okkar og nánast allt sem við gerum?“ spurði Aðalsteinn Öfgar þegar hann hringdi í mig um daginn. Í bakgrunni mátti heyra Deep Purple syngja um sólundun á sólarlögum (Wasted sunsets) og það minnti mig á að ég hef aldrei þessu vant ekki myndað sólarlagið á Akureyri þetta sumarið en vissulega á ég lager af myndum frá fyrri sumrum.

„Hugsaðu þér bara ef við hefðum ekki þennan óhefta aðgang að tónlist í símanum og tölvunni, það væri bara skrúfað fyrir og við þyrftum að dusta rykið af kassettunum, plötunum og geisladiskunum. Ég hef ekki alltaf verið hrifinn af tækninni en þetta finnst mér gjörsamlega geggjað,“ hélt Aðalsteinn áfram.

Hann lýsti því fjálglega hvernig músíkin peppaði hann upp þegar hann væri langt niðri og hjálpaði honum til að slaka á þegar hann væri æstur og stressaður. Svo væri sérstök tónlist til að nota við að koma sér í gírinn með einhver verkefni, taka á því í ræktinni, stytta sér stundir á löngum ferðalögum, eiga rómantíska stund eða sleppa sér á djamminu. Lífið væri hreinlega knúið áfram af tónlist.

„Með góðum heyrnartólum er þetta hreinn unaður í eyrunum og maður getur nánast hlustað hvar og hvenær sem er. Svo finnst mér alltaf gráupplagt að fýra aðeins upp í græjunum heima, sérstaklega þegar nágrannarnir eru ekki heima. Þeir eru ekki hrifnir af miklum hávaða á kvöldin og einu sinni var hringt á lögregluna þegar ég spilaði The Wall á fullum styrk. Ég komst reyndar bara í gegnum fyrsta lagið áður en þeir komu,“ sagði Aðalsteinn.

Ég tók heils hugar undir með honum enda eru þeir félagar YouTube og Spotify mínir dyggustu lífsförunautar, að eiginkonunni undanskilinni. Það væri erfitt að hugsa sér tilveruna án þeirra. Einstaka sinnum set ég vínilplötu á fóninn eða disk í græjurnar en fyrst maður getur tengt sig við græjurnar með símanum er allur þessi lager af tónlistarefni lítt notaður og óþarfur. Svo eru heyrnartólin orðin svo mögnuð að maður er ekki eins háður hátölurum.

„Öllu má þó ofgera,“ benti Aðalsteinn á þegar komið var fram í næsta lag þar sem Led Zeppelin sungu um það þegar sólin neitaði að skína og fjöllin molnuðu í hafið. „Ég skil ekki að fólk sem er úti í náttúrunni að ganga eða hlaupa skuli vera með í eyrunum og missa þannig af fuglasöng og öðrum hljóðum náttúrunnar. Eða fara á mis við það að hlusta á þögnina. Svo sér maður líka unga feður eða mæður með risastór heyrnartól trilla á undan sér barnavagni um gangstéttirnar og heyra hvorki í barninu né umferðinni. Og er þetta ekki þannig í skólunum að krakkarnir eru alltaf með í eyrunum og hlusta á rapp þegar þeir ættu að hlusta á kennarann eða taka þátt í samræðum?“

Jú, ég gat svo sem ekki þrætt fyrir það að eyrnatappar væru ofnotaður af æsku vorri. Hins vegar benti ég Aðalsteini á að margir sem væru að ganga og skokka hlustuðu á hljóðbækur, hlaðvörp eða eitthvað uppbyggilegt og fræðandi og væru þannig að slá tvær flugur í einu höggi. Sjálfur hef ég aldrei gert slíkt, mér finnst gott að hlusta á umhverfið í gönguferðum. Raunar hef ég aldrei hlustað á hljóðbók enda nýt ég þess að lesa bækur en það er svo annað mál.

„Þú segir nokkuð,“ sagði Aðalsteinn rétt áður en við kvöddumst. „Ég held hins vegar að þessi mikla hljóðbókanotkun og sífellt minni lestur eigi eftir að hafa slæm áhrif og raunar er það þegar komið í ljós. Eftir því sem ég hef heyrt eru krakkar hættir að lesa skyldubækur, þeir hlusta bara og eru heldur ekkert að lesa umfram skylduna. Þau hætta að geta lesið og skilið texta, allt snýst um hlustun en ekki lestur, að öllu þessu áhorfi ógleymdu. Stöðugt áhorf og hlustun og enginn lestur rústar máltilfinningu og þar með íslenskunni og eyðileggur líka hæfni þeirra til að lesa texta og greina og þar með verður þessi kynslóð háð því sem aðrir matreiða ofan í hana og þá er nú stutt í endalokin.“

Þar með kvaddi þessi sérstæði vinur minn sem seint verður sakaður um að liggja á skoðunum sínum.

Stefán Þór Sæmundsson er íslenskukennari og rithöfundur

Lýðræði á tímum gervigreindar

Magnús Smári Smárason skrifar
30. október 2024 | kl. 11:45

Karlakór í Kalabríu – II

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
30. október 2024 | kl. 11:00

Karlakór í Kalabríu – I

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
29. október 2024 | kl. 09:30

Hús dagsins: Aðalstræti 22

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
29. október 2024 | kl. 06:00

Innskotsborð

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
28. október 2024 | kl. 11:30

Sláturtíð

Jóhann Árelíuz skrifar
27. október 2024 | kl. 14:30