Fara í efni
Pistlar

Alsæll utan þjónustusvæðis

Ég þreytist seint á því að dásama hvað það er gott að búa á Akureyri. Hér er sannarlega allt til alls í fallegu umhverfi. Mátulega mikill ys og þys, öll nauðsynleg þjónusta til staðar í seilingarfjarlægð og blómstrandi menning og íþróttalíf. Samt er það svo að stundum verður erillinn of mikill, umferðin í þyngra lagi og áreitið vaxandi, sem bætist þá við hið daglega streð og amstur og glímuna við símana, tölvurnar og allan þann tækniheim. Organdi auglýsingar í útvarpi og sjónvarpi bæta ekki úr skák. Þá er eiginlega bráðnauðsynlegt að geta verið utan þjónustusvæðis.

Ástæðan fyrir því að ég get ekki hugsað mér að vera „fyrir sunnan“ nema í tvo til þrjá daga að hámarki er einmitt þessi sturlun sem þar ræður ríkjum. Mikið ofboðslega sem það getur verið þreytandi að reyna að komast á milli staða í þessari stórundarlegu umferðarmenningu. Meira að segja milli álagstíma er umferðin þung og fólk brunar út og suður með æðisglampa í augum. Hvert eru allir að fara?

Ég skrapp til Rómar í vikunni ásamt syni mínum að berja gítargoðið David Gilmour augum. Hann var með tónleika í Circo Massimo sex kvöld og borgin sneisafull af grásprengdum túristum í Pink Floyd bolum. Alls staðar krökkt af fólki og bílar og vespur æðandi með skellum og látum. Engu að síður mikil upplifun að rölta um borgina en í tvígang smeygðum við okkur, nánast óvart, inn í kirkju eða basiliku og vorum þá skyndilega komnir á griðastað utan þjónustusvæðis.

Að koma inn í helgidóm þar sem þögn, lotning og virðing ríkir í hálfrökkrinu er afar kærkomin hvíld frá öngþveitinu úti í glampandi sólinni. Hér var enginn í símanum eða blaðrandi og patandi, engin blikkljós, engin hljóð, ekkert áreiti nema þá fyrir fegurðarstöðvarnar. Þvílík frelsun að setjast niður, horfa upp í hvelfinguna, virða fyrir sér listaverkin, hlusta á þögnina og hvílast. Algjör andstæða við veruleikann þarna úti.

Ég held að það sé sálinni nauðsynlegt að fá svona hvíld, vera utan þjónustusvæðis öðru hvoru. Hugsa sér ef hægt væri að arka Laugaveginn eða Smáralindina og detta inn í svona afdrep í stað þess að geta bara farið í búðir og á bari. Og þetta má yfirfæra á allt mannlífið, held ég. Ekki að við þurfum að reisa kirkjur og kapellur út um allt heldur ættum við að búa til okkar eigin basilikur.

Mörg okkar sækjum frið í sund og potta, náttúruna, bókasöfn, jógatíma eða lágstemmdar tómstundir. Sumir vinnustaðir eru með hvíldarherbergi. Auðvitað er heimilið líka oft griðastaður en alls ekki alltaf. Hvað sem því líður myndi það örugglega bæta geðheilsu þjóðarinnar, minnka streitu, draga úr læknisheimsóknum og lyfjaávísunum og koma í veg fyrir svona mikinn frammistöðukvíða á öllum sviðum ef við leggðum meiri rækt við basilikuna okkar. Að kúpla sig út úr tækniveröldinni með reglulegu millibili, rækta mennskuna, vera við sjálf, ánægð í eigin skinni og sátt við það sem við höfum lagt til samfélagsins.

Mig langar að reyna þetta, að vera utan þjónustusvæðis og slökkva á samfélagsmiðlum og netáreiti. Ég hef heyrt af mörgum sem hafa gert þetta með góðum árangri. Loka sömuleiðis á nöldur og neikvæðni. Sem minnir mig á það að ég hef ekkert náð í Aðalstein Öfgar að undanförnu. Hann er kannski utan þjónustusvæðis.

Góðar stundir.

Stefán Þór Sæmundsson er skáld og kennari

Snjóhúsin

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
02. desember 2024 | kl. 11:30

„Pabbi lestu fyrir mig“ – „Mamma lestu með mér“

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
01. desember 2024 | kl. 10:00

Öskudagurinn

Jóhann Árelíuz skrifar
01. desember 2024 | kl. 06:00

Þroskasaga jólahyskisins í stórskemmtilegum söngleik

Rakel Hinriksdóttir skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 08:00

Hljóp á eftir fiskinum

Orri Páll Ormarsson skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

Sigurður Arnarson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:30