Fara í efni
Pistlar

Trylltu töframeðulin

Tíundi pistill Stefáns Þórs Sæmundssonar þar sem þeir Aðalsteinn Öfgar velta vöngum um eitt og annað í samfélaginu._ _ _

„Hefurðu tekið eftir því að á hverju ári eru auglýst krem sem stinna húðina sjáanlega, fylla upp í hrukkur, vinna á appelsínuhúð, fríska upp á andlitið, gefa húðinni raka eða lit, fjarlægja augnpoka, yfirvinna þreytu, eyða bólum og öðrum misfellum og skila neytandanum glansandi fínum og fullum í framan en með nánast hálftómt veski? Og svo næsta ár, nei, nei, þá er þetta gamla bara húmbúkk; þá eru nefnilega komin glæný serúm og hýjalúrón og einhverjar töfraformúlur sem gera sko miklu meiri kraftaverk fyrir kannski aðeins meiri pening. Þetta er búið að ganga svona í hálfa öld eða lengur og alltaf kaupir ný kynslóð köttinn í sekknum. Hvað er að fólki?“

Aðalsteini var mikið niðri fyrir. Við sátum úti á Kaffi Lyst og þar sem honum lá frekar hátt rómur var fólk farið að stara á okkur.

„Og þá er ég auðvitað að tala um kvenfólk!“ nánast hrópaði hann. „Allur þessi áróður beinist gegn konum og gerir þær ærar og örvita því útlitskröfurnar eru svo miklar, samanburðurinn miskunnarlaus að þær flykkjast í snyrtivörudeildirnar til að kaupa allt þetta drasl og smyrja framan í sig, undir svo allan maskarann, augnskuggann, kinnalitinn, glossið, varalitinn, brúnkuspreyið, glimmerið, ilmvötnin, fölsku augnahárin, gervineglurnar og arghhh…“

Hann var orðinn svo æstur að par á næsta borði forðaði sér með grátandi grisling og virðuleg eldri kona með sólhatt hvæsti á okkur.

„Við skulum róa okkur aðeins,“ sagði ég og hnippti laust í hann og benti honum á náttúruvínið sem ég hafði splæst á hann.

Aðalsteinn fékk sér sopa af rauðvíninu og dæsti. Hann tróð upp í sig nikótíntyggjói og tuggði svo ákaflega að það brakaði í kjálkunum sem gengu til og frá eins og á flekkóttri sauðkind um fengitímann.

„Það er verið að hafa fólk að fífli og þá sérstaklega konur,“ hélt hann áfram heldur rólegri. „Jú, jú, ég hef nú séð að það er verið að reyna að koma þessu yfir á karlmenn líka, láta þá smyrja sig með alls kyns kremum, aflita og blása hárið, skreyta sig með naglalakki og jafnvel maskara og halda á kventösku undir húðflúruðum arminum. Þetta á að þykja voða fínt og auðvitað græða heilmargir á heimsku okkar neytanda. Ótal áhrifavaldar auglýsa þessar vörur og netið er víst fullt af myndböndum um það hvernig stúlkur eigi að mála sig og fegra á alla kanta.“

„Tja, er þetta ekki einhver bóla sem gengur yfir?“ spurði ég. „Unglingsstúlkur eru voðalega uppteknar af þessum förðunarstjörnum, poppstjörnum, fatastíl og öðru eins og alltaf hefur verið í einhverri mynd.“

Hann hristi höfuðið. „Þetta er því miður ekki svona saklaust. Þar sem árangurinn af kremunum sem eiga að eyða augnpokunum og lyfta kinnunum eða varalitnum sem á að gera varirnar þrýstnari er sama og enginn þá er nú aldeilis farið að grípa til róttækari aðgerða. Sílíkon, bótox, skurðaðgerðir, leysigeislar og ámóta inngrip með tilheyrandi kostnaði, óþægindum og sýkingarhættu. Öllu þessu er stjórnað af heilalausu, sálarlausu, eigingjörnu, gráðugu og óskammfeilnu fólki og sem fyrr eru fórnarlömbin aðallega konur og í langflestum tilfellum konur sem þurfa ekki neitt að fyrirverða sig fyrir útlit sitt. Og svo er þetta stundum auglýst sem útlitslækning, pældu í því! Að lækna útlit. Þetta er bara skandall. Lýtalækningar svokallaðar eiga að gagnast eftir slys, bruna eða alvarlega fæðingargalla og ég held að læknarnir ættu frekar að hugsa um að hlúa að sjúkum en að græða á brotinni sjálfsmynd fórnarlamba samfélagsmiðla.“

Eins og oft gerðist þegar Aðalsteinn Öfgar var í ham þá var ég orðinn hálf móður og ringlaður í höfðinu. Kaffið mitt var orðið kalt og ský dregið fyrir sólu. Mér fannst samt margt til í þessu hjá honum og þegar við bætist þessi ofboðslega bylgja af húðflúrum, sem svo aftur kallar á sérhæfða leysitækni til að eyða þessum sömu húðflúrum síðar meir, plús alls konar skart, merkjavörur svokallaðar, smáhundaæði, nikótín- og búbblutíska og annað prjál þá getur maður ekki annað en hugsað hvort verið sé að draga neytendur á asnaeyrunum. Safnast þegar saman kemur í ansi mikinn pening – á sama tíma og fólk kvartar yfir peningaleysi og hækkandi verði á nauðsynjum. Ég bar þetta undir Alla.

„Akkúrat. Ég held að við ættum svona í lokin að biðja fólk um að líta í eigin barm og spyrja sig hvar væri helst hægt að skera niður. Það hef ég sannarlega þurft að gera sjálfur,“ sagði hann og gretti sig svo. „Æ, ég veit. Ég verð að venja mig af þessu níkótíntyggjói, það er rándýrt. Og skrúfa fyrir. Það er heldur ekki gott að drekka ofan í lyfin.“

Við kvöddumst þegar fyrstu regndroparnir tóku að falla og þar með kveðjum við lesendur að sinni.

Stefán Þór Sæmundsson er íslenskukennari og skáld

Gífurrunnar

Sigurður Arnarson skrifar
31. október 2024 | kl. 09:00

Lýðræði á tímum gervigreindar

Magnús Smári Smárason skrifar
30. október 2024 | kl. 11:45

Karlakór í Kalabríu – II

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
30. október 2024 | kl. 11:00

Karlakór í Kalabríu – I

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
29. október 2024 | kl. 09:30

Hús dagsins: Aðalstræti 22

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
29. október 2024 | kl. 06:00

Innskotsborð

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
28. október 2024 | kl. 11:30