Fara í efni
Pistlar

Tittlingur í tómarúmi

Sjöundi pistill Stefáns Þórs Sæmundssonar þar sem þeir Aðalsteinn Öfgar velta vöngum um eitt og annað í samfélaginu._ _ _

Ég veit, þetta er ruddaleg fyrirsögn, algjör klikkbeita. Nú búast lesendur við klámi og sora upp um alla veggi. Þeir vilja hneyksli, skandal, slúður og smjatt og ekki verra ef opinber starfsmaður þarf að hrökklast úr starfi vegna strigakjafts. Það er svo sem ekkert útséð með það ennþá, hinn opinberi hefur nefnilega stundum verið að tefla á tæpasta vað og veifað drjóla ritmálsins eins og drýldinni garðslöngu á drepheitu sumri. Jæja, nú skal ekki stuðlað meir heldur talað tæpitungulaust og þá er upplagt að leita í smiðju Aðalsteins Öfgars en þessi fyrirsögn er tilvísun í hann.

Í gamla daga var Aðalsteinn bara Guðmundsson og kallaður Alli eða Alli Gumm. Á menntaskólaárunum gerðist hann skáld og tók upp skáldanafnið Öfgar, að hluta til undir áhrifum frá persónum Þórarins Eldjárns sem oft báru einkennileg ættarnöfn eða auknefni. Alli gaf út eitthvað af bókum með ljóðum og smásögum með stopulu millibili gegnum árin. Hann var rekinn úr MA og var lengi hjá Vegagerðinni en komst síðar inn í Háskóla Íslands þar sem hann reyndi fyrir sér í ýmsum greinum án þess að útskrifast. Hins vegar er hann með hæstu gráður í skóla lífsins og sjálfmenntaður í mörgu og hefur sterkar skoðanir á nánast öllu.

„Veistu, stundum líður mér eins og auðnutittlingi í algjöru tómarúmi,“ sagði hann við mig um síðustu helgi. Þá hafði hann skondrað neðan af Eyri og heim til mín á Brekkunni. Þáði ekki kaffi en svolgraði sódavatn með sítrónusneið. Ég lyfti brúnum enda þótti mér líkingin ansi langsótt.

„Hvernig má það vera?“ hváði ég.

„Jú, sjáðu til. Forliðurinn auðnu hlýtur að vísa til hamingju þannig að þessi litli fugl er hamingjufugl en ég er reyndar meiri furðufugl. Allavega, ég er greinilega ekki að kaupa þessa hamingju sem allir eru að selja og þess vegna finnst mér ég stundum vera í ákveðnu tómarúmi í þjóðfélaginu þótt ég sé fullfær um að skapa mína auðnu sjálfur.“

Aðalsteinn útskýrði þetta betur. Hann er ekki á samfélagsmiðlum, les nánast bara fréttir og fróðleik á innlendum netmiðlum, sækir talsvert í erlendar fréttaveitur, horfir ekki á sjónvarp og er nánast í tryggu skjóli fyrir auglýsingum, algrími, gervigreind og hvers kyns áróðri og upplýsingaóreiðu.

„Ég fæ ekki einu sinni Dagskrána, Fréttablaðið eða auglýsingabæklinga,“ bætti hann við.

„Fréttablaðið er löngu hætt að koma út,“ sagði ég.

„Já, auðvitað, hvernig læt ég? En málið er að áður en ég skrúfaði fyrir allt var stöðugt verið að minna mig á ég yrði ekki hamingusamur nema ég keypti nýjan bíl, rafmagnshjól, leðurhornsófa, rafmagnsrúm, hönnunarstól, flatbökuofn, utanlandsferðir, brúnkukrem, hrukkukrem, skeggvörur og allan fjárann og svo átti ég að kaupa mér tíma í núvitund, öndunarþjálfun, markþjálfun, kuldaþjálfun, jóga, salsa, rúmba og súmba og sérdeilis áhrifaríka hnykki og rykki og éta með þessu kynstrin öll af lífsnauðsynlegum bætiefnum, svona 50 mismunandi tegundir, sem virðast engan veginn finnast í venjulegum mat.“

Þessu romsaði Alli út úr sér, nánast án þess að draga andann.

„Þetta þjóðfélag elur á óhamingju þegnanna,“ hélt hann áfram og var orðinn dálítið brúnaþungur. „Maður má ekki vera sáttur við það sem maður hefur, maður á aldrei nóg, líður aldrei nógu vel í eigin skinni, það á alltaf að vera hægt að ginna mann til að kaupa einhverja gervihamingju í formi tækja, námskeiða og bætiefna. Svo fylltust netmiðlarnir af slúðri og öfundardálkum, rassgöt vikunnar, brjóstabínur helgarinnar, sætustu sílikonvarirnar og allt þetta hjóm. Ég var næstum farinn að smitast af þessari áunnu óhamingju en þar sem ég er minnar gæfu smiður ætla ég að halda áfram að skapa mína hamingju sjálfur, þótt vissulega hafi hún verið brokkgeng, eins og þú veist.“

Þar sem vinur minn hafði m.a. glímt við geðhvörf, fíkn, atvinnuleysi, skilnað og var fyrir nokkru kominn á örorku vissi ég alveg hvað hann var að vísa í.

„Auðnutittlingur í tómarúmi,“ sagði hann hugsandi. „Er það ekki fín fyrirsögn á næsta pistli? Eða bara Tittlingur í tómarúmi,“ bætti hann hlæjandi við. „Nei, annars. Fólk gæti tekið því bókstaflega og haldið að ég væri enn í mínus eftir skilnaðinn fyrir 15 árum, sérstaklega af því að ég hef ekki verið á föstu með neinni síðan. Og svo veit ég að virðulegur kennarinn vill engan dónaskap á sinni vakt.“

Rétt til getið. En kannski fullseint í rassinn gripið.

Stefán Þór Sæmundsson er félagi í Rithöfundasambandi Íslands og Kennarasambandi Íslands, nánar tiltekið Félagi framhaldsskólakennara.

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00

Búrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
16. desember 2024 | kl. 11:30

Innilaugin

Jóhann Árelíuz skrifar
15. desember 2024 | kl. 06:00

Vikið frá ófrávíkjanlegri reglu

Orri Páll Ormarsson skrifar
13. desember 2024 | kl. 10:30

Kaniltré

Sigurður Arnarson skrifar
11. desember 2024 | kl. 09:00