Fara í efni
Pistlar

Milliliðir maka krókinn

Vinur minn einn og skólabróðir, sem lést fyrir nokkrum árum, var einn af frumkvöðlum í því sem kalla mætti sjálfvirka tekjuöflun og er svo mjög í tísku núna, sérstaklega í gegnum öpp og vefverslanir. Hann stofnaði ákveðna þjónustu gegnum símatorg og þeir sem sóttu þessa þjónustu þurftu kannski að borga 200 krónur fyrir mínútuna meðan venjuleg símtöl voru á 10 krónur. Neytendur gerðu sér almennt ekki grein fyrir þessu, fyrr en eftir á. Sumir urðu mjög háðir þessari þjónustu, sem fólst í ákveðnum sögum og fantasíum á bandi og eyddu um efni fram. Vinur minn sagði stoltur að nú þyrfti hann ekki annað en að horfa á símann og vita að tekjurnar streymdu sjálfkrafa inn.

Síðan er liðinn aldarfjórðungur eða guð má vita hvað. Sjálfur var ég oft í einhverri aukavinnu, svo sem að brasa í byggingavinnu um helgar, þýða bækur og skúra á leikskóla og síðar í orlofsíbúðum. Allt eru þetta störf sem Íslendingar líta ekki við lengur, við ráðum iðulega fólk frá Austur-Evrópu í byggingavinnu og ræstingar og látum forrit og gervigreind um þýðingarnar. Íslendingar vilja heldur ekki vinna í fiski, við afgreiðslu eða framreiðslu í ferðaþjónustu, helst ekki á elliheimilum eða leikskólum, varla á dekkjaverkstæðum eða við bílaþvott og þannig mætti lengi telja. Við hvað vinna þá þessir blessuðu landar okkar? Eru þeir kannski orðnir of langskólagengnir til að dýfa hendi kalt vatn?

Ég heimsótti gamlan vin minn, Aðalstein Öfgar, til að ræða þessi mál því ég veit að hann hefur sterkar skoðanir og talar gjarnan tæpitungulaust. Þegar hann var búinn að hella upp á kaffi með gamla laginu, gott ef hann lumaði ekki á gulum Braga, lét hann dæluna ganga og bruddi brúnt kremkex með af einstakri áfergju. Ég píndi kaffið ofan í mig en neyddist til að fúlsa við meðlætinu.

„Jú, þetta er rétt hjá þér,“ byrjaði Aðalsteinn. „Hins vegar er það ekki endilega menntunin sem skiptir höfuðmáli núna, þótt vissulega sé hún of mikil og ómarkviss, heldur fádæma einstaklingshyggja, sérhlífni, leti og aumingjaskapur landans, sem vill hliðra sér hjá hvers kyns mannsæmandi vinnu og búa til sitt eigið konungsríki í formi appa, vefsíðna, vefverslana og ámóta óþarfa og blekkinga. Já, ég segi óþarfa,“ bætti hann við þegar ég lyfti brúnum og svelgdist á kaffinu.

„Hvað áttu við? Geturðu skýrt þetta nánar?“ spurði ég eins og gamli blaðamaðurinn sem enn blundar í mér.

„Heldur betur. Eða algjörlega, svo ég noti algenga frasa í dag. Jæja, það er annað mál. Manstu þegar sjálfskipuð gúrú og fyrirlesarar fóru að fjasa um það að 60% starfa í framtíðinni væri ekki búið að finna upp? Aha. Þetta átti allt að vera svo nýstárlegt að nánast væri vonlaust að mennta sig fyrir framtíðina. En þessi tími er kominn. Lítum bara í kringum okkur. Hvaða störf eru þetta sem eru svona frumleg og framúrstefnuleg og henta Íslendingum betur en hefðbundin vinna?“

„Tja, þú ert að tala um áhrifavalda og hvað… öppin?“

„Já, meðal annars. Það sem flest þessi tilbúnu og nánast óþörfu störf eiga sameiginlegt er að þarna er verið að búa til milliliði sem maka svo krókinn. Dæmin eru allt í kringum okkur. Þú hringir ekki á veitingastað og pantar borð heldur notar þjónustu sjálfstæðrar vefsíðu eða apps. Sama gildir um að fá tíma í klippingu, leggja bíl í bílastæði, bóka hótel eða ferðapakka, fá heimsendan mat og þannig má endalaust telja. Alls staðar milliliðir sem krefja fyrirtækin um þóknun og þau verða að hækka verð á vörum og þjónustu til neytenda. Nú vilja til dæmis allir verða milliliðir í áfengissölu, senda okkur heim, fá sinn skerf gegnum eitthvert fjandans appið og hugsaðu þér allar gerviferðaskrifstofurnar sem eru að auglýsa þjónustu sem flestir ættu að geta sótt sér tiltölulega beint!“

Aðalsteini var nú farið að hitna í hamsi og hann lét ýmis óviðurkvæmileg orð falla sem ekki eru hæf til birtingar hér. Sennilega nú eitthvað til í þessu hjá honum að það skýtur skökku við að maður þurfi að borga milliliðum eða sætta sig við hærra verð vegna þess að sjaldnast er hægt að hafa beint samband við seljandann út af þessum tilbúnu girðingum. Væri ekki nær að ganga frekar lengra í hina áttina, að fá sem mest „beint af býli?“

„Sjáðu til, Stefán. Stór hluti Íslendinga nennir ekki að vinna, ala upp börn, sinna samböndum og samskiptum eða vera manneskja. Þeir eiga sér þann draum helstan að komast í svona sjálfvirka tekjuöflun svo þeir geti bara hangið í símanum, horft á þáttaseríur, myndbönd af hundum og köttum, stundað veðmál og netverslun og varið hálfum vinnudegi á samfélagsmiðlum. Margir halda í alvöru að það sé hægt að lifa á því til langframa að sýna á sér rassinn og tútturnar, vera með væluhlaðvarp, selja áfengi, kynlífstæki og nikótín á netinu, koma appi á markað og stunda hvers kyns kukl, markþjálfun og einkaþjálfun á netinu og helst fram hjá skattkerfinu. Hvernig heldurðu að hagkerfið fari út úr þessu og eftir standa svo öll störfin sem við þurfum að flytja inn fólk til að sinna?“

Mér vafðist tunga um tönn. Vissulega styð ég frumkvæði og einstaklingsframtak svona í grunninn en þegar málin eru sett í þennan búning er spurning hvort verið sé að hafa neytendur að fífli. Eða er það bara hluti af sjálfsögðum kröfum nútímamannsins að nota öpp til allra hluta jafnvel þótt það kunni að hífa verðlagið upp? Og eru Íslendingar of merkilegir til að sinna grunnatvinnugreinum og svokölluðum láglaunastörfum? Svari hver fyrir sig.

Stefán Þór Sæmundsson fæst við kennslu og skriftir

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 18:00

Kvöldleikir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 11:30

Glataði sonurinn

Jóhann Árelíuz skrifar
17. nóvember 2024 | kl. 11:00