Fara í efni
Pistlar

Fíflin á götum Akureyrar

Annar pistill Stefáns Þórs Sæmundssonar þar sem þeir Aðalsteinn Öfgar velta vöngum um eitt og annað í samfélaginu._ _ _

„Hvaða rétt eiga menn til þess að halda tugum bílstjóra og farþegum þeirra í gíslingu á götum Akureyrar, bara af því að þeir eru fávitar? Einhverjir fjárans sjálfskipaðir lestarstjórar vilja ákveða að meðalhraði á stofnbrautum fari ekki yfir 30 og sérviska þeirra eða aumingjaskapur á svo að bitna á öllum öðrum. Ég lenti fyrir aftan svona fífl við Pálmholt og hann safnaði örugglega 40-60 bílum fyrir aftan sig norður alla Hlíðarbrautina því auðvitað var vonlaust að fara fram úr fyrir umferð á móti og hringtorgum og svona gekk þetta alveg út að Hörgárbraut og fólk var alveg að missa sig. Þessi hálfvitagangur býður bara hættunni heim,“ sagði Aðalsteinn Öfgar brúnaþungur.

Ég heimsótti hann um daginn með fjólubláan kaffipoka til að reyna að fá hann til að hella upp á betra kaffi en gulan Braga, sem hann hefur sjálfsagt hamstrað ofan í frystikistu því ég get ekki ímyndað mér að þessi óþverri sé framleiddur lengur. Skemmst er frá því að segja að hann spýtti nýja kaffinu út úr sér og hellti sér upp á Braga en ég fékk þó mannsæmandi vökva í bollann og svo dró ég fram siglfirska snúða þegar Aðalsteinn ætlaði að bjóða upp á ískex.

Já, við ræddum umferðina á Akureyri og hvar má keyra á 30 og hvar á 50 og hvers vegna sumir virðast alltaf keyra á 30 og pirra aðra svona óskaplega eins og hann lýsti ævintýrinu á Hlíðarbraut.

„Er ekki málið bara að draga djúpt inn andann?“ spurði ég frómur. „Það munar kannski einni mínútu á þessum kafla ef þú keyrir bara á 30 og það er nú varla tími til að fórna geðheilsunni fyrir og alls ekki eitthvað sem skilur á milli lífs og dauða.“

„Ja, bíddu nú hægur,“ sagði Aðalsteinn. „Ég veit hvað þú átt við en málið er það að það getur skilið á milli feigs og ófeigs þegar pirringurinn verður þess valdandi að einhverjir reyna glæfralegan framúrakstur við þessar aðstæður. Og svo keyra sumir bara ennþá á 30 eða 50 út úr bænum þar sem sannarlega má keyra á 70 og ég bara þoli þetta ekki!“

Jú, hann hefur eitthvað til síns máls. Ökumenn ættu að vera nálægt hámarkshraða þegar aðstæður eru góðar því varasamt er að fara of hægt. Ég man eftir gömlum karli á Lödu sem keyrði alltaf Skarðshlíðarhringinn á 20 og safnaði brjáluðum ökumönnum í lest fyrir aftan sig. Hann brosti allan hringinn og virtist bara hlæja að látunum í hinum. Seinna sá ég karlinn óðamála á rakarastofu þar sem hann hélt reiðilega tölu en alltaf var hann skælbrosandi. Þá áttaði ég mig á því að sennilega svæfi hann líka svona glaðhlakkalegur, nema hann tæki út úr sér þessar allt of stóru fölsku tennur fyrir svefninn.

Aðalsteinn nefndi fleiri dæmi. „Akureyringar kunna ekki að gefa stefnuljós, þeir halda að það séu persónunjósnir. Þeir vilja ekki gefa upp hvert þeir eru að fara. Maður er kannski í mestu makindum að horfa á þátt í símanum eða svara mikilvægum skilaboðum og allt í einu hægir bíllinn fyrir framan á sér því bílstjórinn hefur ákveðið að beygja næst án þess að gefa stefnuljós. Og sumir sem ætla að beygja til hægri taka jafnvel stóran sveig til vinstri áður en þeir beygja og fara í veg fyrir mann og maður missir kannski símann úr höndunum.“

Nú rak ég upp stór augu. Aðalsteinn er aðeins eldri en ég og ekki datt mér í hug að hann væri að nota símann meðan hann væri að aka. Hélt að það væri bara unga fólkið.

Hann sá svipinn á mér og skellti upp úr. „Nei, Stefán, ég var ekki að lýsa sjálfum mér heldur bauna á þetta lið sem er alltaf með símann uppi við í bílnum. Sumir eru með sérstakan haldara í mælaborðinu, sennilega fyrir staðsetningarkort en nota þetta til að horfa á myndbönd og svo held ég að sumir séu með tvo síma, hinn til að pikka skilaboð og lesa eða vafra á netinu og þá ekki bara á rauðu ljósi heldur við aksturinn.“

Ljótt ef satt er og þetta á nú örugglega ekki bara við um Akureyringa. Ég gat skotið inn einni reynslusögu frá því um daginn. Ég var einmitt að keyra eftir Hlíðarbraut og að Hörgárbraut með stefnuna á Byko. Þetta eru fjölfarin gatnamót og oft tafsamt á ljósunum en til allrar hamingju eru komin beygjuljós þannig að ekki á lengur að vera happdrætti eða stórhættulegt að beygja til vinstri. Nema hvað, loks þegar beygjuljósið kom bifaðist bíllinn á undan mér ekki. Ökumaðurinn virtist skíthræddur við að fá bíl í hliðina á sér ef hann færi af stað, hann áttaði sig ekki á því að það voru líka beygjuljós fyrir umferðina á móti, enginn myndi koma beint yfir götuna. Það var ekki fyrr en öruggt var að enginn bíll væri á leiðinni að bílstjórinn tók við sér og silaðist beygjuna en þá var komið gult og svo rautt þannig að ég sat eftir. Verð ég að viðurkenna að af vörum mér hrutu orð sem mér eru ekki sæmandi.

Auðvitað skiptir þetta ekki stórmáli og má líta á sem æfingu í þolinmæði og umburðarlyndi, sjálfssefjun, núvitund og hvað þetta heitir nú allt þegar maður bregður sér út í umferðina á Akureyri. Ég kvaddi Aðalstein Öfgar þegar hann byrjaði að fjargviðrast yfir kynferði og kynusla en kannski verður sú umræða tekin fyrir næst, hver veit? Þangað til ætla ég að njóta umferðarinnar í heimabænum og þegar öllu er á botninn hvolft held ég að það séu blessaðir utanbæjarmennirnir sem geri mestan usla í þessum efnum sem og öðrum. Trúið mér, ég var blaðamaður á Degi í gamla daga og þá var setningunni „talið er að um utanbæjarmann hafi verið að ræða“ gjarnan hnýtt aftan við löggufréttirnar þegar sagði af innbrotum og öðrum glæpum.

Stefán Þór Sæmundsson fæst við kennslu og skriftir

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00

Búrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
16. desember 2024 | kl. 11:30

Innilaugin

Jóhann Árelíuz skrifar
15. desember 2024 | kl. 06:00

Vikið frá ófrávíkjanlegri reglu

Orri Páll Ormarsson skrifar
13. desember 2024 | kl. 10:30

Kaniltré

Sigurður Arnarson skrifar
11. desember 2024 | kl. 09:00