Fara í efni
Pistlar

Er unga fólkið döngunarlaust?

Þriðji pistill Stefáns Þórs Sæmundssonar þar sem þeir Aðalsteinn Öfgar velta vöngum um eitt og annað í samfélaginu._ _ _

„Hefurðu tekið eftir því hvaða þetta unga fólk er döngunarlaust í dag?“ spurði Aðalsteinn Öfgar og benti á símann sinn. „Hérna eru pör og einstaklingar og ungar fjölskyldur að óska eftir leiguíbúðum í lange baner og nánast allir taka sérstaklega fram að þeir séu yfirmáta reglusamir, reyk- og veiplausir, tyggi ekki skro, drekki lítið eða ekkert, gangi vel um og það sé ekkert partýstand á þeim. Ekkert partýstand! Hvað er hlaupið í þetta lið? Hvenær á maður að djamma ef ekki þegar maður er ungur? Aldrei hefðum við getað kvittað undir svona heitstrengingar í gamla daga.“

Jú, ég hafði reyndar tekið eftir þessu mynstri. „Tja, annað hvort eru allir hættir að djamma eða unga fólkið reynir að fegra sig sem mest í von um að fá íbúð. Það er svo sem skiljanlegt,“ sagði ég.

„Já, já, en bíddu nú hægur. Þetta er ekki búið,“ hélt Aðalsteinn áfram. „Þegar viðkomandi er búinn að þylja upp að hann sé nánast masókískur einsetumunkur eða skírlífur bindindispostuli þá kemur aldeilis romsan: „Við erum með tvo norska skógarketti og eina bengalska læðu, þrjá páfagauka, tvo dobermann hunda, eina labrador tík og stundum kemur einn krúttlegur rottweiler í pössun. Allt voðalega stillt og góð dýr.“

Ég rak upp stór augu. „Eru þetta ekki dálitlar ýkjur?“

„Vissulega. Samt sem áður, það er ótrúlega algengt að unga fólkið sé með gæludýr upp um alla veggi og það hlýtur að standa því fyrir þrifum með að fá leiguíbúð. Ekkert partý, enginn út í smók, allir þurrbrjósta, grænmetisætur, greindir, skilvísir og ég veit ekki hvað og hvað, engin börn eða afar sjaldan en nánast alltaf haugur af einhverjum gæludýrum. Er þetta ekki bara úrkynjun? Ég meina, við vorum reykjandi og drekkandi, héldum partý og áttum börn upp úr tvítugu en alltaf fékk maður einhverja leiguíbúð. Þá datt nánast engum í hug að vera með gjammandi hunda og hvæsandi ketti á sinni könnu og alls ekki í kringum krakkana.“

Eins og stundum áður þurfti ég smá svigrúm til að melta orð Aðalsteins. Hann hafði birst á tröppunum hjá mér með símann á lofti og við vorum ekki komnir lengra þannig að ég bauð honum inn í kaffi til að vinna mér tíma.

Meðan ég trekkti könnuna lét hann dæluna ganga. „Ég er nú sjálfur í leiguíbúð eins og þú veist og mér dytti ekki í hug að ætlast til þess að leigusalinn leyfði gæludýr. Það er alltaf ónæði og tjón af þessu. Bara í hverfinu hjá mér, kannski í fjórum götum þarna niðri á Eyri, eru sjálfsagt 20 gjammandi smáhundar og annað eins af breimandi köttum sem ganga lausir, skíta í garðinn hjá mér, hreinsa upp þá örfáu þrastarunga sem klekjast út og míga við kjallaragluggann. Hundarnir eru samt verri, það er þessi bévítans hávaði alla daga og mörg kvöld. Í einu húsinu eru tvö svona kvikindi, fólkið hlýtur að vinna á kvöldin því þeir hanga við opinn glugga og gelta svo yfirmáta skrækt og hátt í allt að einn eða tvo tíma í senn að ég get hvorki heyrt sjálfan mig hugsa né fest svefn og er þó fjórum húsum frá óskapnaðinum.“

Þarna held ég að hann hafi ekki verið að ýkja mikið en ég skenkti honum kaffi og hjónabandssælu og kom með annan flöt á málefnið áður en allt færi í hund og kött.

„Ég er sjálfur annálaður dýravinur en þó sammála því að þetta sé komið út í öfgar. Það kom einhver svakaleg tískubóla, ræktunar- og söluæði, samfélagsmiðlafár og metingur á milli unga fólksins um flottustu og dýrustu gæludýrin. Hins vegar hef ég meiri áhyggjur af íbúðamarkaðinum. Mörg okkar leigðu fram undir þrítugt eða lengur og gekk það oftast upp og svo var smám saman hægt að eignast eigið húsnæði. Núna skreiðast krakkarnir varla úr foreldrahúsum, meirihluti ungs fólks á ekki möguleika á því að komast í örugga leiguíbúð á mannsæmandi kjörum og hvað þá að eignast eigið húsnæði. Þetta finnst mér mun alvarlegri vandi en gæludýrin.“

Við ræddum þetta aðeins áfram og komumst að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að margt væri rotið í þjóðfélaginu, til dæmis sú staðreynd að 90% af húsnæði sem byggt er fer í hendur örfárra fjárfesta sem leitast eftir mestri ávöxtun með því að leigja húsnæðið út til ferðamanna og svo þeirra sem geta með einhverju móti greitt heil útborguð mánaðarlaun í leigu. Fjöldi fólks situr eftir með sárt ennið og les fréttir um viðvarandi húsnæðisskort en veit að vandann mætti sennilega leysa með því að slá aðeins á græðgina og setja grundvallarreglur. En það er eins með íbúðirnar og auðinn, hann hefur tilhneigingu til að safnast á fárra hendur og mikið vill meira. Ekki er hægt að banna fólki að ávaxta sitt pund en það hlýtur að vera hægt að setja leikreglur, búa til eða endurvekja kerfi sem gerir venjulegu fólki kleift að fá þak yfir höfuðið.

Stefán Þór Sæmundsson er framhaldsskólakennari og rithöfundur

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00

Búrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
16. desember 2024 | kl. 11:30

Innilaugin

Jóhann Árelíuz skrifar
15. desember 2024 | kl. 06:00

Vikið frá ófrávíkjanlegri reglu

Orri Páll Ormarsson skrifar
13. desember 2024 | kl. 10:30

Kaniltré

Sigurður Arnarson skrifar
11. desember 2024 | kl. 09:00