Fara í efni
Pistlar

Allt var betra áður fyrr

Ellefti pistill Stefáns Þórs Sæmundssonar þar sem þeir Aðalsteinn Öfgar velta vöngum um eitt og annað í samfélaginu._ _ _

„Ég held að það sé rétt sem Þursarnir sungu að nútíminn er trunta með tóman grautarhaus,“ sagði Aðalsteinn Öfgar þegar ég hafði boðið honum heim í gamaldags smurbrauðstertu með skinku og rækjusalati og kaffi með. „Allt var miklu einfaldara og betra áður fyrr, allir hamingjusamari og börnin frjáls að leika sér úti um allar koppagrundir. Þú manst þetta kannski sjálfur, lífið var bara eitt samfellt ævintýri og sakleysið sveif yfir öllum leikjum og samskiptum; allir heima hjá öllum og svo var galað í mat og kannski farið aftur út á eftir og ýmislegt brallað.“

Jú, ég hafði svo sem upplifað þessa tíma, ekkert sjónvarp eða mötun, stanslausir útileikir og íþróttir, mikið frelsi en vissulega talsverð áhætta á köflum í jakahlaupi á Pollinum, hverfastríðum, að teika bíla, atast í fullorðna fólkinu og fleira sem ekki er til siðs lengur.

Aðalsteinn gerði smurðbrauðstertunni góð skil með glýju í augunum. „Við sáumst ekki heima nema rétt á matmálstímum ef við mundum eftir þeim. Hvað vorum við að gera? Jú, við stálum grænmeti úr görðum nágrannanna, gerðum dyrabjölluat, hentum vatnsbombum, snjóboltum og öðru lauslegu í rúður nærliggjandi húsa, bjuggum okkur til sverð og skildi, börðumst til blóðs, stríddum stelpum og öðrum minni máttar, rifumst við húsmæður, kveiktum í sinu, stálum þvotti af snúrum, reyktum njóla, lokuðum umferðargötum með snjóboltum og létum lögguna elta okkur og vorum í harðvítugum hverfastríðum.“

Margt af þessu hljómaði kunnuglega en mér fannst það ekki endilega jákvætt.

„Auðvitað vorum við líka alltaf í fótbolta, eltingaleikjum, fallin spýta og yfir,“ hélt Alli áfram. „Alls konar bófahasar og feluleikir, ferðir upp á öskuhauga og Súlur, niður á höfn, í Glerárgil, hermannagöngin, verksmiðjurnar og á veturna fórum við á sleða og skíði. Við bjuggum líka til gríðarleg mannvirki úr snjó.

Og við söfnuðum í brennu, sjálfsagt hafa verið 5-7 áramótabrennur á Akureyri þá. Mig minnir að bílstjórinn okkar hafi heitið Bjarni og verið á bláum bíl. Bakkaði stundum skakkt. Ég man sérstaklega eftir myndarlegum bálköstum sem við gerðum á tjörusvæðinu þar sem Vottarnir og Oddfellowarnir reistu sín musteri, gegnt nýju lögreglustöðinni. Manstu eftir þessari litlu? Jæja, þetta voru alvöru framkvæmdatímar hjá æskunni,“ sagði Aðalsteinn, nánast móður við að rifja upp gamla tíma.

„En hvað? Kom svo sjónvarpið og rústaði öllu?“ spurði ég sposkur.

Alli leit upp. „Tja, að sumu leyti rétt til getið. Dýrlingurinn, FFH, Á flótta, Belfigor, Harðjaxlinn, Bonanza og fleiri þættir, sumir bannaðir, gerðu lífið heima í stofu ansi spennandi en oft þurfti maður að fela sig á bak við sófa. Foreldrarnir vildu bara að maður horfði á Stundina okkar.

Framboðið á sjónvarpsefni var svo sem ekki mikið, útsendingartími stuttur, frí á fimmtudögum og í einn mánuð á sumri en við lásum líka mikið og lékum okkur að tindátum, bílum og vopnum. Já, ég var fljótur að renna í gegnum Fimm-bækurnar, Ævintýrabækurnar, Dularfullu bækurnar og svo Frank og Jóa, Tom Swift og Bob Moran. Síðan var stokkið beint yfir í stríðsbækur um tólf ára aldur, Alistair McLean, Hammond Innes og Desmond Bagley. Ég skil bara ekki hvernig ungdómurinn í dag kemst af án þessa alls.“

Hann gerði málhlé til að slafra í sig brauðtertunni og hann var greinilega farinn að sætta sig við kaffið þótt það væri ekki gulur Bragi og ekki bragðbætt með brennivíni.

„Já, skólinn var svo auðvitað kapítuli út af fyrir sig. Barnaskólinn hálfgert trúarmusteri með öllum þessum kristilegu kennurum og skátum, bænakvaki og sálmasöng á sal og svo fór maður upp í Gaggann sem var harðsoðinn vitlausraspítali þar sem allir stunduðu óhemjugang og einelti, jafnt kennarar sem nemendur og jedúddamía, skólaböllin voru þvílíkar fylleríssamkomur og klámorgíur að enginn myndi trúa því ef ég lýsti þessu nánar. Fáir sluppu óskaddaðir frá þessum óskapnaði. Við vorum líka í KFUM eða Sjónarhæð og fórum á Hólavatn og Ástjörn og fengum svo sannarlega að kenna á kristilegu uppeldi,“ sagði Aðalsteinn.

Þarna staldraði ég við þversögnina. Hafði allt virkilega verið betra áður fyrr? Ég heyrði frá Alla og mundi sjálfur mörg dæmi um einelti, ofbeldi, misþyrmingar, kynferðislegt áreiti, fitusmánun og hvers kyns óþokkaskap. Jafnvel í nafni kristinnar trúar. Og svo komu unglingsárin með alls konar fikti og harðneskjulegri átökum.

„Nú verð ég bara að segja það sem mér býr í brjósti. Mér finnst þessi nostalgía búllsjitt,“ sagði ég ákveðinn. „Hvernig heldurðu að þeim hafi liðið sem voru lesblindir, holgóma, þroskaskertir, feitir, talnablindir, lélegir í íþróttum, rauðhærðir, samkynhneigðir, með rósroða, skögultenntir, með stórt nef eða skásett augu, illa lyktandi og jafnvel sagðir með lús?“

„Tja,“ muldraði Alli og roðnaði.

„Einmitt. Ég held að samfélagið á okkar æskuárum hafi verið fordómafullt og miskunnarlaust og ég gef alltaf skít í það þegar fólk er að sífra um að allt hafi verið betra áður fyrr. Mér finnst æskan í dag, æskan á hverjum tíma, vera sú mannvænlegasta sem verið hefur uppi og hana nú! Ég byggi þetta meðal annars á þrjátíu ára reynslu minni sem framhaldsskólakennari.“

Aldrei þessu vant var það Aðalsteinn Öfgar sem varð orðlaus og lét sig hverfa.

Stefán Þór Sæmundsson er grallaraspói en líka alvörugefinn kennari við Menntaskólann á Akureyri

Sviðnir leggir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
30. desember 2024 | kl. 11:30

Snjóavetur

Jóhann Árelíuz skrifar
29. desember 2024 | kl. 06:00

Liðið sem aldrei lék heimaleik

Orri Páll Ormarsson skrifar
27. desember 2024 | kl. 13:00

Hús dagsins: Norðurgata 6

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. desember 2024 | kl. 14:00

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00