Fara í efni
Pistlar

Teipaði sig fyrir dönskutíma

ORRABLÓT - XI

Gaggóárin mín í Glerárskóla um miðjan níunda áratug seinustu aldar voru bráðskemmtileg enda skólafélagarnir hressir og valinn maður í hverju rúmi á kennarastofunni. Því lengra sem frá líður þeim mun vænna þykir mér um Glerárskóla. Þið hnippið í mig ef ég er að verða of meyr fyrir ykkar smekk! En svona fara árin með mann.

Skjólastjóri var Vilberg Alexandersson og hafði verið lengi. Vörpulegur maður á velli, stór og stæðilegur og það flögraði ekki að nokkrum nemanda að troða illsakir við hann. Honum til halds og trausts var Páll Bergsson yfirkennari sem kallaði heldur ekki allt ömmu sína enda afkomandi Hákarla-Jörundar. Eftir á að hyggja minntu þeir félagar einna helst á sjálfan Derrick og Harry Klein. Einhver svona svipuð ára yfir þeim. Vilberg kenndi lítið en Palli var frábær sögukennari sem kveikti áhuga manns á ýmsum tímabilum í mannkynssögunni, ekki síst seinni heimsstyrjöldinni. Hann fékk krabba og dó nokkrum árum síðar og nú hefur Vilberg kvatt okkur líka. Blessuð sé minning þeirra!

Gunnar Gíslason var afbragðskennari og naut liðsinnis páfagauks sem dvaldist alla jafna í skólastofunni. En Gunni vissi ekki alveg allt um hljómsveitina Procol Harum...

Gunnar Gíslason, síðar pólitíkus, er líka eftirminnilegur. Hann leið um ganga skólans, sultuslakur og alsáttur í eigin skinni. Afbragðskennari. Gunni átti stóran páfagauk sem dvaldist alla jafna í skólastofunni hans. Kvikindið talaði ekki en einhver óprúttinn nemandi hafði kennt honum að blístra án afláts með kynferðislegum undirtóni: „Fídd-fíú, fídd-fíú!“ Gauksi hefði umsvifalaust verið flaggaður rangstæður í dag, væri hann enn uppi, og honum slaufað.

Bragi V. Bergmann sá um íslenskuna og hikaði ekki við að rífa upp gult spjald eða jafnvel rautt, væri því að skipta. Maður lærði sumsé snemma að ekki tjáir að deila við dómarann. Bragi var líka húmoristi inn að beini og blöskraði stundum hversu illa við vorum að okkur. Einu sinni spurði hann nemanda hvort hann þekkti muninn á eignarfalli og niðurfalli. Það gerði nemandinn ekki.

Úlfar Björnsson, sem síðar tók við sem skólastjóri af Vilberg, kenndi stærðfræði og var í miklu uppáhaldi hjá okkur krökkunum enda ljúfur maður og þolinmóður. Það virkar oftast best á kaldhæðna og uppátækjasama unglinga.

Sigurlína Gísladóttir líffræðikennari var líka í uppáhaldi enda gædd sömu eiginleikum og Úlli. Hún var ein af sárafáum konum sem kenndu á unglingastiginu á þessum tíma. Inga Eydal var þarna til skamms tíma og svo kornung kona sem hét Jónína. Hún kom beint úr menntaskóla og það verður að viðurkennast að við færðum okkur reynsluleysi hennar stundum í nyt. Sem var ekki falllegt. Fyrirgefðu það, Jónína mín! Þó að seint sé.

Einar Hafberg dönskukennari var eldri og við pönkuðumst stundum í honum. Gleymi því aldrei þegar við komum auga á minnismiða á borðinu hans. Þar stóð: „Hringja í Ormarr.“ Krökkunum í bekknum þótti það ekki lítið fyndið. Ég hafði ekki alltaf hemil á kímnigáfu minni á þessum árum, verður að viðurkennast, og þarna hefur Einari greinilega þótt nóg um. Símtalið hefur ábyggilega átt sér stað og pabbi sjálfsagt ráðlagt mér að fara mýkri höndum um Einar. Sem ég hef örugglega gert.

Enskukennararnir komu að sunnan enda brugðu Akureyringar frekar fyrir sig dönsku á þessum árum en ensku, þyrftu þeir á annað borð að víkja út af hinu ástkæra ylhýra.

Inga Eydal – Vilberg Alexandersson skólastjóri – Kristján Guðmundsson, hér gítarleikari og söngvari í „bítlahljómsveitinni“ Bravó, nokkru áður en hann stundaði kennslu í Glerárskóla – Bragi V. Bergmann – Derrick og Harry Klein – Úlfar Björnsson kennari og síðar skólastjóri.

Fyrst kom Kristján Guðmundsson, einhver ljúfasti maður sem ég hef á ævinni kynnst. Hann hafði verið í bítlahljómsveitum og lék listavel á píanó. Þegar hann settist við slaghörpuna þá var eins og að fingrum hans fjölgaði skyndilega úr 10 í 30. Stórmerkilegt.

Síðan kom skáldið Birgir Svan Símonarson heitinn sem brann að sönnu fyrir starfið. Vék kinnroðalaust út af námskrá og lét okkur þýða hina og þessa dægurlagatexta í tímum. Sem snarstyrkti okkur auðvitað í enskunni. Hann stofnaði líka tónlistarklúbb með okkur nokkrum strákum sem fór á flug. Við hittumst á sellufundum, gáfum út blað í skólanum og efndum til spurningakeppni milli efstu bekkjanna og kennara. Ég gegndi hlutverki dómara og man að Gunni Gísla átt vont með að sætta sig við eitt svarið, hver hefði leikið á gítar á einhverri tiltekinni Procol Harum-plötu. En mitt svar stóð. Enda var það tekið af plötualbúminu sjálfu. Og ekki gúgluðu menn nokkurn skapaðan hlut á þessum tíma.

Jói risi (hann heitir það ábyggilega í Þjóðskrá) kenndi þarna líka en ég var aldrei í tímum hjá honum. Löngu seinna kenndi Jói hins vegar syni mínum í Klébergsskóla. Góð yfirferð á kappanum.

Kroppatamningar voru í höndum tvegga ungra og vaskra manna, Valþórs Þorgeirssonar og Tómasar Lárusar Vilbergssonar. Valþór var í einhverjum sértrúarsöfnuði sem ekki hélt jól og fyrir vikið vissu unglingarnir fátt skemmtilegra en að óska honum gleðilegra jóla – á öllum tímum ársins.

Lalli var frægastur fyrir að hafa leikið knattspyrnu með George Best á Akureyrarvellinum. Rannsóknarblaðamennska mín hefur leitt í ljós að hann starfar enn við Glerárskóla. Takk fyrir, túkall! Nú sem deildarstjóri.

Páll Viðar Gíslason – Tómas Lárus Vilbergsson og George Best fyrir leik KA og Manchester United 1982 – Axel Stefánsson. Þrír af fjórum eru  menntaðir kennarar og hafa unnið slíkir. George Best fékkst aldrei við hefðbundna kennslu. 

Hin spartverska æska í Þorpinu er, samkvæmt sömu rannsóknarblaðamennsku, í góðum höndum en á kennaralistanum rakst ég á annað kunnuglegt nafn, Páll Viðar Gíslason. Palli var í mínum árgangi í Glerárskóla, jafnvígur á flestar greinar íþrótta. Hann átti auðvitað farsælan feril í meistaraflokki í bæði handbolta og fótbolta, einn af þeim síðustu sem lögðu stund á báðar greinar á fullorðinsárum, og varð síðar knattspyrnuþjálfari sem kom ýmsum málsmetandi mönnum á legg.

Í gamla daga sótti Palli gjarnan þrjár æfingar í röð í íþróttahúsinu síðdegis og á kvöldin ásamt Axeli fóstbróður sínum Stefánssyni, nú handboltaþjálfara í Noregi. Fyrst fótbolta, síðan handbolta og loks körfubolta. Og blés ekki úr nös. Um morguninn höfðu þeir félagar síðan verið í leikfimi í sama sal. Hvort þeir léku badminton á heimleiðinni skal ósagt látið.

Axel bjó að mergjaðri og ógleymanlegri íþróttatösku, risastórri á mörgum hæðum og með allskyns hólfum og kimum. Manni leið eins og algjörum amatör við hliðina á honum. Í töskunni rúmaðist heill fataskápur og ógrynni af íþróttateipi enda notaði Axel það óspart.

Mig minnir að hann hafi jafnvel teipað sig fyrir dönskutíma!

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega.

Hús dagsins: Norðurgata 6

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. desember 2024 | kl. 14:00

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00