Fara í efni
Pistlar

Síðbuxur

Í síðasta pistli hafði ég orð á því að ég sæi fyrstu árin mín í kennslu við Barnaskóla Akureyrar í dýrðarljóma. Það er í raun alveg rétt. Ég var tvítug þegar ég lauk kennaraprófi, árið var 1966. Við Sigrún vinkona mín komum norður í lok ágúst til að gerast kennarar. Allt var nýtt, bærinn, fólkið, umhverfið. Ég heillaðist strax af Akureyri, allt var í nálægð, vinnustaður, verslanir, banki og fólkið var svo óendanlega vinsamlegt. Já, Akureyri var og er friðsæll og góður bær.

Við Sigrún vorum komnar norður til Akureyrar til að gerast kennarar við Barnaskóla Akureyrar. Þar kenndu þá um tuttugu kennarar og margir þeirra vel fullorðnir. Okkur Sigrúnu var einstaklega vel tekið, margir kennaranna buðu okkur heim til sín í mat og sýndu mikla vinsemd. Tryggvi skólastjóri annaðist okkur eins og við værum dætur hans.

Flestir kennaranna voru býsna fullorðnir og allar reglur fast mótaðar. Mín beið að læra þessar reglur og tileinka mér þær. Það tók dágóða stund því reglurnar lágu aðeins í loftinu, þær voru ekki skráðar á veggi skólans. En það kom að því að ég braut reglu, sem reyndar var óskrifuð.

Þannig var að snemma um haustið fór að snjóa, það gerði stórhríð. Það var algjörlega ný reynsla og hreint út sagt ævintýraleg. Ég get ekki með nokkru móti munað eftir snjó í Reykjavík eða Kópavogi þar sem ég bjó áður. Út í þessa norðlensku stórhríð varð ég að fara. Það var svo sem ekki langt að fara úr Holtagötunni í Barnaskóla Akureyrar en ég bjó mig af stað út í stórhríðina, klæddi mig vel, fór í síðbuxur, góða úlpu og kuldaskó.

Þegar ég kom inn á kennarastofuna, sló þögn á mannskapinn, sem þar var fyrir. Ein eldri kvenanna rauf þögnina og sagði: „Þú ferð ekki inn í kennslustofuna í síðbuxum, þangað mætir kennslukona í kjól eða pilsi.“ Ég man þessi viðbrögð eins og þetta hefði gerst í gær en ég man ekki hvað ég sagði, en það eitt er víst að ég kenndi allan þennan dag í síðbuxunum.

Fjórum árum seinna komst í tísku að ungar konur voru í skrautlegum sokkabuxum og stuttbuxum. Ég elti þá tísku, átti flottar brúnar stuttbuxur og skrautlega sokka. Þá heyrðist ekki hljóð úr horni kennarastofu Barnaskóla Akureyrar. Eitthvað hafði breyst.

Kristín Aðalsteinsdóttir var prófessor við Háskólann á Akureyri

Næfurhlynur – Tegund í útrýmingarhættu

Sigurður Arnarson skrifar
26. febrúar 2025 | kl. 13:00

Hús dagsins: Aðalstræti 52

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. febrúar 2025 | kl. 06:00

Heilagfiski

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
24. febrúar 2025 | kl. 11:30

Bílnum stolið

Jóhann Árelíuz skrifar
23. febrúar 2025 | kl. 06:00

Féll af kústhestbaki

Orri Páll Ormarsson skrifar
21. febrúar 2025 | kl. 20:00

Vatnsmiðlun skóga

Sigurður Arnarson skrifar
20. febrúar 2025 | kl. 15:00