Fara í efni
Pistlar

Sambýlið á Ásbraut 3 í Kópavogi

Eitt sinn var ég unglingur og bjó þá ein hjá pabba mínum, frá 13 ára aldri til tvítugs. Foreldrar mínir skildu þegar ég var 12 ára en yngri systkini mín voru tvö, Tryggvi Þór og Vilborg sem bjuggu hjá mömmu.

Ég var nýorðin 13 ára, þegar ég gekk á milli verslana á Laugaveginum í Reykjavík, sem seldu eldhúsvörur og keypti diska, glös, bolla, hnífapör, potta og pönnu í nýja heimilið okkar pabba. Ekki kom hann nálægt þeim innkaupum. En þetta var eftirminnileg og skemmtileg verslunarferð. Pabbi hafði keypt litla íbúð við Ásbraut í Kópavogi. Þar hafði hann lítið herbergi, þar sem hann svaf og las bækur, veggirnir voru þaktir bókum. Í hinu herberginu (stofunni) var dívaninn minn, skrifborð, stóll, símaborð, borðstofuborð og fjórir stólar. Eldhúsið var eins og skenkur í stofunni. Þar eldaði ég, pabbi koma aldrei nálægt eldhússtörfunum. Ég held að það hafi aldrei hvarflað að mér að hann gæti eldað eða bakað. Ég sá um þá hlið mála með aðstoð bókarinnar „Unga stúlkan og eldhússtörfin.“ Ég gekk í þessi störf eins og þau væru mér meðfædd. Einhvern daginn var ég leið á þessum eldhússtörfum og sauð 10 egg, fimm á mann og lagði á borðið. Þetta var hádegisverðurinn á sunnudegi. Pabbi kvartaði ekki fremur en endranær. Í annað sinn þegar ég ætlaði að steikja eitthvað, kviknaði í feitinni. Ég henti þá logandi pönnunni út um glugga. Mig minnir að slokknað hafi í feitinni á leiðinni niður.

Íbúðin okkar pabba var á þriðju hæð á Ásbraut 3. Á þessari sömu hæð bjó Valdimar söðlasmiður í rúmgóðri íbúð og í þriðju íbúðinni bjuggu Rut og Halldór, nýflutt frá Akranesi. Það fylgdi sterk lykt af leðri og lími, saumaskap Valdimars en ég man ekki til þess að nokkur hafi kvartað vegna lyktarinnar. Valdimar og pabbi tefldu á kvöldin. Þegar skákunum lauk bauð pabbi Valdimar alltaf í kaffi. Ekki snafs, ekkert áfengi. Áfengi sá ég aldrei þegar ég var barn eða unglingur, hvorki heima né annars staðar.

Hjá þeim Rut og Halldóri var mikið safn bóka. Rut sagði mér frá bókum sem hún las og hún sagði mér frá höfundum bóka, líka á meðan ég var að greiða henni og punta. Hún þekkti nokkuð marga rithöfunda persónulega, sumum þeirra hafði hún kynnst þegar hún var veik af berklum á Vífilsstöðum. Ég drakk sögurnar hennar í mig og hef sennilega alltaf búið að þeim fróðleik sem hún færði mér á meðan ég setti í hana rúllur eða greiddi henni og puntaði.

Ég gekk í Gagnfræðaskóla Kópavogs, þar sem hinn ógleymanlegi og góði kennari Jón Böðvarsson kenndi okkur. Síðan tók ég Landspróf hjá öðrum ógleymanlegum kennara Þórði Jörundssyni í Austurbæjarskóla. Þaðan fór ég í Kennaraskóla Íslands eins og hann hét þá. Á þessum árum var ég bókstaflega á kafi í skátastarfi í Kópavogi. Skátastarfið blómstraði og var mjög gefandi. Ég segi oft að í skátastarfinu lærði ég að kenna. Ég er ekki frá því að það sé rétt. Ég hélt stundum skátafundi í litlu íbúðinni okkar pabba á Ásbrautinni, því skátar í Kópavogi áttu ekki beinlínis athvarf eða skátaheimili. Aldrei var gerð athugasemd vegna skátasöngsins sem hljómaði um blokkina á Ásbraut 3.

Kristín Aðalsteinsdóttir var prófessor við Háskólann á Akureyri

Ódi

Jóhann Árelíuz skrifar
19. janúar 2025 | kl. 06:00

Minjasafnsgarðurinn á Akureyri

Sigurður Arnarson skrifar
15. janúar 2025 | kl. 16:00

Hús dagsins: Laxdalshús, Hafnarstræti 11. (230 ára í ár)

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 07:00

Keiluspil

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
13. janúar 2025 | kl. 11:30

Bixímatur

Jóhann Árelíuz skrifar
12. janúar 2025 | kl. 10:00

Geðheilbrigðisþjónusta – Skipulag, samvinna og stjórnun

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. janúar 2025 | kl. 09:00