Desember 1915
Í fyrstu viku desember árið 1915 urðu þeir atburðir í lífi fjölskyldu minnar sem hafa haft mikil áhrif á mig og leita alltaf á mig í desember. Frásögn af atburðunum var mér sögð þegar ég var barn en hafa orðið mér ljósari eftir því sem árin hafa liðið.
Langamma mín hét Þorbjörg Hallgrímsdóttir og langafi Páll Jónsson. Ég var tíu ára þegar langafi minn lést og man því vel eftir honum. Í lok 19. aldar eða 1898 flutti Páll með föður sínum, systur og fleirum að heiðarbýlinu Svínadal í Kelduhverfi, skammt frá Hljóðaklettum en austan bæjarins rennur Jökulsá á Fjöllum í djúpum gljúfrum. Þorbjörg Hallgrímsdóttir flutti sama ár í Svínadal til að gerast þar vinnukona, hún var þá 22 ára gömul. Þá var á Svínadal stór bær og vel gerður á þeirra tíma mælikvarða. Tveimur árum síðar voru þau Páll og Þorbjörg gift og tekin við búi í Svínadal. Góðar spurnir voru af búskap og framtaki þeirra Þorbjargar og Páls, reglusemi og umhirðu. Vinnan var stunduð af kappi og vel fyrir öllu séð. Þau voru samhent, þótt nokkuð hafi þau verið ólík í framkomu og skapgerð. Páll var fáorður og dulur, en tilfinninganæmur og nærgætinn. Þorbjörg var glæsileg og dáð af öllum, viðmótshlý, síglöð og atorkusöm.
Svæðið í kringum Svínadal; Hljóðaklettar, Hólmatungur, Jökulsárgljúfrin er vinsæll ferðamannastaður, en fyrir rúmum hundrað árum var Svínadalur áninga- og gististaður á erfiðri og langsóttri leið á milli Mývatnsöræfa og Kelduhverfis. Ferðafólk, bæði Íslendingar og ekki síst útlendinga bar þar oft að garði. Veitingar, gisting, þjónusta, hestalán, fylgdir og leiðbeiningar þurfti allt að vera til reiðu. Fólk kom til að skoða hin rómuðu náttúruundur og það þurfti fylgd. Þetta starf átti vel við Pál langafa minn því sagt var að hann hafi verið fundvís á fegurðina og Þorbjörg bar fram mat og bjó um gesti. Árin liðu og lífið var auðugt og hamingjusamt þrátt fyrir harða lífsbaráttu. Í byrjun desember árið 1915 voru börnin orðin sjö, afi minn Jón var elstur, orðinn 15 ára piltur og enn var von á barni. Björn Haraldsson í Austurgörðum í Kelduhverfi skrifaði grein í Árbók Þingeyinga og lýsir lífinu í Svínadal á þessum dögum. Björn segir: „Fannbreiðan hylur landið, jafnar allar mishæðir. Stórhríðin norðlenska geisar sólarhring eftir sólarhring. Með herkjubrögðum er brotist í fjárhúsin einu sinni á dag. Inni í bænum er hlýtt og bjart. Það hefur mikill atburður gerst. Húsfreyjan, Þorbjörg hefur fætt þrjú börn, heilbrigð og hraustleg. Þeim er tekið með fögnuði. Hvað gerir til þótt úti andi kalt, það er sólskin og hamingja innan veggja. En skjótt bregður sól sumri.“ Sex dögum eftir fæðinguna er Þorbjörg langamma mín liðið lík. Það gerðist eins og hendi væri veifað. Nýfædd börnin kalla á hjálp, tilveran á bænum er barátta um líf og dauða. Tíu börn eru orðin móðurlaus og þar af þrjú nýfædd, á einangruðu heiðarbýli, fannkyngi á jörð og lífshætta að reyna að ná sambandi við byggð.
Hvað gerir fólk sem lendir í raunum sem þessum? Afi minn segir orðrétt í bréfi til frænda síns á Víkingavatni: „Ég skrifa þér nokkrar línur þess efnis að tilkynna bæði þér og öðrum þau sorglegu tíðindi sem hér hafa að borið að á mínu heimili, þar sem Guði hefur þóknast að burtkalla til hinna himnesku bústaða mína ástkæru góðu konu, núna í nótt sem leið eftir fimm daga legu eftir barnsburð.“ Hann segir í lok þessa sama bréfs; „Þá leið hún héðan eins og ljós. Friður Guðs sé með henni, elsku konunni minni, og sofi hún vært eftir vel unnið ævistarf, veri hún blessuð fyrir öll gæðin.“
Afi minn og aðrir á bænum gerðu allt sem þau gátu til að koma börnunum til hjálpar. Óveðrið gekk yfir og ráðist var í að fara niður í sveitina og leita eftir hjálp, og hin hörmulega fregn barst um sveit og hérað. Nánustu ættingjar héldu vöku sinni og gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að hjálpa. Sveitungar sýndu samúð og vináttu. Á næstu dögum voru nýfæddu börnin þrjú flutt á sleðum niður í sveit. Konur úr sveitinni komu til hjálpar og fluttu börnin innan klæða þessa dagleið sem þá var. Þríburarnir fengu öll ástríkt fóstur hjá góðum fjölskyldum sem reyndust þeim sem bestu foreldrar. Það má segja að fósturforeldrarnir hafi bætt það sem í mannlegu valdi stóð að bæta. Þrjár systur, 4ja, 7 og 8 ára voru einnig teknar um ári síðar í fóstur hjá góðu fólki. Langafi minn missti þannig ekki einungis konuna sína heldur líka sex barna sinna. Elstu börnin fjögur urðu eftir hjá honum og sagt er að harmurinn hafi þjappað þeim saman.
Flestar fjölskyldur á okkar harðbýla landi geta sagt sögur um átakleg örlög fyrr á tímum, um erfiðleika og sorg. Um þessar mundir vitum við líka að margt fólk stríðir við raunir vegna atvinnuleysis, sjúkdóma eða missis ástvina. Við biðjum ekki um erfiðleika og raunir, en við þekkjum það mörg úr eigin lífi að erfiðleikar hafa styrkt okkur og gert okkur færari að takast á við lífið. Svo megum við gjarnan spyrja, hvað við getum gert fyrir þau sem eiga erfitt eða búa við sorg. Mér kemur fyrst í hug að raunveruleg hjálpsemi byggist á auðmýkt gagnvart þeim við viljum aðstoða. Við megum ekki ráðskast með aðra, heldur þurfum við að gefa af okkur sjálfum, sýna skilning, hlusta, átta okkur á hvað skiptir máli. Mörgum reynist erfitt að hlusta en til þess að geta hjálpað verðum við að setja okkur í spor annarra, í því felst hlustunin. Við þurfum að setja okkur sjálf til hliðar og taka tillit til þarfa annarra fyrst og fremst. Ef við viljum endilega hafa vit fyrir öðrum komum við upp um hégómleik okkar og látum dást að okkur í stað þess að hjálpa.
Þótt ekki sé gengin nema ein kynslóð síðan þeir atburðir áttu sér stað í Svínadal sem ég sagði hér frá, sjáum við glöggt þær gífurlegu breytingar sem orðið hafa á samfélagi okkar. Hinar almennu tryggingar voru fólgnar í kærleika og samábyrgð fólksins í byggðarlaginu. Ekkert annað kom til greina en að fólk hjálpast að, fólkið deildi kjörum og þrátt fyrir dreifða byggð var nándin mikil, kærleikurinn nálægur og trúin sterk. Ég veit að við höfum ekki tapað mannlegri samábyrgð, kærleika og trú. Við megum gjarnan hugsa, hvað get ég gert fyrir aðra?
Kristín Aðalsteinsdóttir var prófessor við Háskólann á Akureyri