Fara í efni
Pistlar

Kvalarinn

Hann var fimm árum eldri en ég, lítill eftir aldri. Ég sá hann aldrei með neinum, hann var alltaf einn. Sjálfur var ég líka einfari.

Hann var kvalari minn.

Ef ég mætti honum þá átti ég von á einhverju misjöfnu. Oft skellti hann mér niður, dundaði sér svo við misþyrmingar. Væri ég með eitthvað þá tók hann það af mér. Hann stal hjólinu mínu.

Í þá daga blandaði maður ekki fullorðnu fólki í svona aðstæður. Þó að þetta væri slæmt þá var verra að fá þann stimpil á sig að vera klöguskjóða. Slíkur stimpill var félagslegur dauðadómur.

Þetta stóð yfir í um tvö ár. Þá flutti hann úr hverfinu. Eftir stóðu minningar um hann sem skildu eftir sár á sálu minni.

Tveimur áratugum síðar starfaði ég sem rannsóknarlögreglumaður. Ég fékk það verkefni að taka skýrslu af ökumanni flutningabifreiðar sem lent hafði í árekstri við litla fólksbifreið. Ég skoðaði gögn málsins til að búa mig undir yfirheyrsluna. Áreksturinn var gríðarlega harður, aðkoman var hræðileg, það lá strax fyrir að ökumaður minni bifreiðarinnar væri látinn.

Það var barið á dyr skrifstofunnar minnar. Ég opnaði. Fyrir framan mig stóð sá sem kvalið hafði mig tuttugu árum áður. Nú voru valdahlutföllin önnur. Ég var mun stærri og þreknari. Ég var lögreglumaðurinn. Hann var á mínu valdi.

Honum varð hverft við þegar hann sá mig. Hann þekkti mig strax.

Yfirheyrslan fór varlega af stað. Hann var fjarlægur og svaraði litlu. Þegar ég fór yfir myndir af vettvangi þá sá ég að hann var að brotna saman. Alvarleiki endurfunda okkar bar fortíðina ofurliði. Ungur piltur hafði látið lífið í hræðilegu slysi.

Ég gaf honum góðan tíma til að svara spurningum mínum. Færði honum kaffi. Að endingu var komin skýrsla sem var greinargóð og þjónaði tilgangi sínum.

Ég las skýrsluna upp fyrir hann og rétti honum hana til undirritunar. Hann skrifaði undir.

Síðan sátum við báðir hljóðir og horfðumst í augu. Eftir nokkra stund kinkaði hann rólega kolli og rétti mér hönd sína. Ég tók í hana. Engin orð voru sögð. Hann sleppti hönd minni og fór.

Sárið í sálinni gréri.

Jón Óðinn er leiðbeinandi barna með hegðunarvandamál og fyrrverandi júdóþjálfari.

Trjárækt nyrðra á 19. öld

Sigurður Arnarson skrifar
01. janúar 2025 | kl. 13:00

Áramótahugleiðingar um list, eldri konur og karlakóra

Rakel Hinriksdóttir skrifar
01. janúar 2025 | kl. 06:00

Prentvillupúkinn leikur lausum hala

Haraldur Ingólfsson skrifar
31. desember 2024 | kl. 20:00

Sviðnir leggir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
30. desember 2024 | kl. 11:30

Snjóavetur

Jóhann Árelíuz skrifar
29. desember 2024 | kl. 06:00

Liðið sem aldrei lék heimaleik

Orri Páll Ormarsson skrifar
27. desember 2024 | kl. 13:00