Fara í efni
Pistlar

Vinir og óvinir

Ég byrjaði í Þór, fannst þá allt sem viðkom KA vera ömurlegt. Vandinn var að flestir vinir mínir voru í KA svo ég skipti yfir í KA og fannst Þór þar með vonlaust félag. Á unglingsárunum skipti ég aftur í Þór og svo aftur í KA. En þá skipti reyndar félagið mig engu máli, langaði bara að spila fótbolta. Það má segja að við þetta félagaflandur hafi ég algjörlega misst hæfileikann til að vera í liði.

Þegar ég ólst upp var aðgengi að upplýsingum mjög takmarkað. Það voru fyrst og fremst dagblöðin sem voru upplýsingagjafinn. Vandinn var sá að þau voru öll málsgögn stjórnmálaflokka þar sem að hvert og eitt blað sagði sína útgáfu af sannleikanum. Á mínu heimili var það framsóknarblaðið Tíminn sem sá fjölskyldunni fyrir sannleikanum. Strax og ég lærði að lesa að einhverju gagni, svona um átta ára aldurinn, varð Amtsbókasafnið minn heimavöllur. Þar gat ég lesið öll blöðin og jafnvel barnsheilinn sá að ekkert mark var takandi á þessum bleðlum sem bara bulluðu það sem hentaði þeim. Við þessa sjálfstæðu upplýsingaöflun missti ég hæfileikann til að fylgja stjórnmálastefnum.

Á sama tíma hætti ég að trúa á guð og guði yfirleitt. Ég missti algjörlega hæfileikann til að trúa einhverju í blindni.

Ég held að margir séu eins og ég hvað ofangreint varðar. En ekki nógu margir. Við mannfólkið þurfum alltaf að eiga einhverja andstæðinga, óvini, við þurfum alltaf að vera í liði gegn einhverjum og trúa í blindni því sem meintir leiðtogar segja.

Þegar ég ólst upp voru það kommarnir sem voru verstu óvinirnir. Svo hrundu Sovétríkin og þá voru engir kommar þar lengur. En það var samt enginn skortur á kommum í heiminum, Kína var fullt af þeim, svona rúmlega milljarður. En nei, þeir voru góðir kommar því að það var von að hægt væri að selja þeim eitthvað rusl og græða helling. En við þurftum samt nýja óvini, svo við fundum út að fólk sem væri múhameðstrúar væri stórhættulegt og því væri full ástæða til að vera í liði gegn þeim. Sem var reyndar svolítið sérstakt því að þeir höfðu verið samherjar okkar meðan við hötuðum kommana. En samt, við þurftum óvin, svo það voru múslimir sem urðu fyrir valinu. Samt ekki allir, ef þeir sáu okkur fyrir olíu án þess að vera með derring voru þeir í okkar liði.

Mamma var einstæð móðir með þrjú börn. Ég varð ítrekað vitni af því óréttlæti sem hún varð fyrir. Hún barðist mikið fyrir því að fá sömu réttindi og aðrir. Af því að hún og aðrir í sömu stöðu og hún voru konur voru réttindi þeirra kölluð kvenréttindi af mörgum. Margir aðrir þurfa að berjast fyrir því að fá sömu réttindi og aðrir. Réttindi þeirra eru þá oft tengd við þá hópa sem búa við sama óréttlæti. Þessi barátta er þá nefnd eftir því hvað hóparnir kallast. Þannig eru búin til lið og þegar það er komið lið þá er enginn skortur á öðrum liðum sem hafa alls ekki sömu skoðun og þar með eru komir óvinir með öllu því sem því fylgir. Ég hef aldrei skilið þetta, hvernig er ekki hægt að vera sammála um að allt fólk eigi að hafa sömu réttindi?

Þó ég þrífist ekki í liði, trúi engu í blindni og aðhyllist engar stjórnmálastefnur þá þýðir það ekki að ég hafi ekki skoðanir. Þær hef ég. En mínar skoðanir eru á hverju málefni fyrir sig út frá aðstæðum og innihaldi í hverju tilfelli eftir gaumgæfa athugun og heimildaöflun eftir kúnstarinnar reglum. Þannig veldur það mér miklum áhyggjum hver staða veraldar okkar er í umhverfismálum. Skoðanir mínar þar byggi ég að þeim upplýsingum sem langflestir vísindamenn hafa lagt fram. Að sjálfsögðu eru þeir ekki allir sammála en þegar langflestir þeirra hafa uppi varnaðarorð þá hlusta ég. Er ég þá kominn í þeirra lið? Er ég þá bara að þvaðra þegar ég segist ekki tilheyra neinu liði og kominn í stórkostlega mótsögn við sjálfan mig? Já, ætli ég verði ekki að viðurkenna það. Ég biðst auðmjúklega afsökunar.

Jón Óðinn Waage er leiðbeinandi barna með hegðunarvandamál og fyrrverandi júdóþjálfari

Trjárækt nyrðra á 19. öld

Sigurður Arnarson skrifar
01. janúar 2025 | kl. 13:00

Áramótahugleiðingar um list, eldri konur og karlakóra

Rakel Hinriksdóttir skrifar
01. janúar 2025 | kl. 06:00

Prentvillupúkinn leikur lausum hala

Haraldur Ingólfsson skrifar
31. desember 2024 | kl. 20:00

Sviðnir leggir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
30. desember 2024 | kl. 11:30

Snjóavetur

Jóhann Árelíuz skrifar
29. desember 2024 | kl. 06:00

Liðið sem aldrei lék heimaleik

Orri Páll Ormarsson skrifar
27. desember 2024 | kl. 13:00