Prentvillupúkinn leikur lausum hala
Íslenskan er öndvegismál og mér finnst að við eigum alltaf að vanda okkur við notkun hennar. Ég er andvígur því að villur sem eru endurteknar nógu oft breytist í rétt mál, en þó ekki þannig að ég sé á móti þróun tungumálsins. Íslenskan hefur ákveðnar málfræði- og stafsetningarreglur sem mér finnst rétt að við förum eftir þó auðvitað liggi það misvel fyrir okkur að kunna reglurnar eða rita rétt og gott íslenskt mál.
Vefmiðlar eins og sá sem undirritaður skrifar fyrir byggja að nokkru leyti á hraða við vinnslu frétta og annars efnis, mikilvægt að koma efni sem fyrst út til lesenda, en alls ekki alltaf. Hér þarf að minnsta kosti ekki að bíða eftir umbroti og prentun, bara skrifa texta, skipta upp í einingar ef þörf er á vegna lengdar, bæta við myndum og myndatextum eftir því sem tilefni er til og semja fyrirsögn. Stundum er mikilvægt að vera fyrst með fréttirnar, en stundum er bara betra að vanda málfarið og koma efninu skammlaust frá okkur.
Hvar eru prófarkalesarar nútímans?
Prentmiðlar hafa prófarkalesara í vinnu sem fara yfir og leiðrétta texta misjafnlega skriffærra blaðamanna. Vefmiðlar margir hverjir virðast ekki gefa þessu gaum og villunum fjölgar. Málfarinu og meðferð íslenskunnar á vefmiðlum hrakar. Við hjá Akureyri.net lesum iðulega fréttir hvert hjá öðru og bendum höfundinum á ef villa slæðist með í birtum fréttum og viðtölum. Enginn eiginlegur prófarkalesari þó í vinnu hjá miðlinum, frekar en öðrum vefmiðlum, að því er virðist.
Fullkomnun verður þó seint náð í þessum efnum. Höfundur flutti til Akureyrar fyrir meira en aldarfjórðungi og sótti um starf prófarkalesara á dagblaðinu Degi. Athygli mína vakti að í auglýsingu fyrir starfið var fullkomin íslenskukunnátta listuð upp sem ein af hæfniskröfum vinnuveitandans til þess umsækjanda sem hreppa ætti hnossið. Af hógværð nefndi ég í atvinnuviðtalinu að hún væri ekki til en það væri sjálfsagt og eðlilegt að stefna í þá átt. Ég fékk starfið.
Síðan þá hef ég lengst af, með örfáum undantekningum, unnið störf sem hafa annaðhvort með ritun og þýðingu texta að gera eða þá yfirferð og lagfæringar á textum annarra. Prófarkalesara yfirsést iðulega eitthvað af því sem ranglega er stafsett eða þegar rangt er eða illa farið með íslenskt mál. Starf prófarkalesarans er í raun að fækka villunum. Hafi þær verið hundrað frá höfundinum er ekki fjarlægt að áætla að þeim fækki niður í eina eftir yfirferð góðs prófarkalesara.
Bókaútgefendur hafa stundum á orði (ég veit ekki hver sagði það upphaflega) að til séu tvenns konar bækur; annars vegar þær sem eru villulausar og hins vegar þær bækur sem hafa verið gefnar út. Nokkuð til í því.
Mikilvægi prófarkalesara seint ofmetið
Kem ég þá að kveikjunni að þessum pistli. Ég fékk bók í jólagjöf sem ég held að sé að mörgu leyti góð og mjög áhugaverð. Viðfangsefnið er að minnsta kosti áhugavert að mínu mati. Ég var þó ekki kominn nema á bls. 10 þegar ég fann fyrstu stafsetningarvilluna (ekki innsláttarvilla, því hún er síðan endurtekin nokkrum síðum síðar) og litlu seinna rakst ég á aðra villu og svo fleiri. Villur skemma upplifun lesandans, sama hve áhugavert viðfangsefnið er, hve góð sagan er eða nálgun höfundarins við efnið.
Mikilvægi prófarkalesara verður seint ofmetið, en ég spyr mig hvort útgefendur eru farnir að spara við sig á þessu sviði.
- - -
Hugleiðingar þessar eru ritaðar á jólanótt eftir að höfundur opnaði og las fyrstu blaðsíður nýrrar bókar. Þrátt fyrir fundnar villur er að sjálfsögðu ætlunin að lesa bókina til enda. Þær trufla bara upplifun lesandans örlítið því hann getur ekki að því gert þegar starfið smitast inn í aðrar athafnir daglegs lífs. Eitt sinn prófarkalesari, ávallt prófarkalesari. Það skal þó tekið fram að þrátt fyrir gagnrýni höfundar á villur annarra er ekki þar með sagt að honum verði sjálfum aldrei á í messunni. Mistök eru mannleg, en mikilvægt að stefna alltaf í þá átt að þau verði sem fæst.
Haraldur Ingólfsson er blaðamaður á Akureyri.net