Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Hafnarstræti 86; Verslunin Eyjafjörður

Sá hluti Hafnarstrætis, sem telst til Miðbæjar er að hluta til nokkuð tvískiptur hvað húsagerðir varðar. Vestanmegin, upp við brekkuna standa 4-7 hæða steinsteypt stórhýsi á borð við Hótel KEA, Amarohúsið og síðast en ekki síst fyrrum höfuðstöðvar KEA á horninu við Kaupangsstræti. Austan götu eru eldri timburhús í meirihluta. Voru þau flest sannarlega einnig stórhýsi á sínum tíma, þ.e. fyrstu ár og áratugi 20. aldar. Eitt þessara húsa er Hafnarstræti 86.

Húsið að Hafnarstræti 86, sem löngum hefur kallast Verslunin Eyjafjörður, reistu byggingameistararnir Sigtryggur Jóhannesson og Jónas Gunnarsson, sumarið 1903. Húsið er stokkbyggt eða plankabyggt hús og mun hafa komið tilhöggvið frá Noregi. Byggingaleyfið fékk Ólafur G. Eyjólfsson, ættaður úr Flatey á Breiðafirði, á fundi Bygginganefndar á lokadegi, 11. maí, árið 1903 en tengdafaðir hans og vinnuveitandi, Magnús Sigurðsson, verslunar- og athafnamaður á Grund mun hafa staðið fyrir byggingu hússins (sbr. Jón Hjaltason 2001:81). Ekki er um miklar lýsingar á húsinu að ræða í bókunum Bygginganefndar, húsið sagt eiga að vera 20x14 álnir að stærð, tvíloftað og framhlið þess í beinni línu við Bergsteinshús (Hafnarstræti 88).

Hafnarstræti 86 er stórt tvílyft, bárujárnsklætt timburhús í sveisterstíl. Miðjukvistur er á báðum hliðum hússins og á bakhlið skagar hann langt út fyrir húsið og er þar efsti hluti útskots eða stigahúss á bakhlið. Kvisturinn er eilítið breiðari en stigabyggingin og skagar því einhverja tugi cm út fyrir hana beggja vegna og myndar ákveðið skjól. Norðan við miðjukvist á framhlið er annar smærri kvistur með hallandi þaki. Á suðurhlið er mikil svalabygging á tveimur hæðum og miðhluti hennar lokaðir glerskálar með skrautpóstum. Útskorið skraut, áttstrendar súlur og skrautlegir pilar í handriði setja svip á svalirnar, og húsið allt, mikinn svip. Grunnflötur hússins mun 12,64x8,87m, stigabygging 2,80x3,35m og svalabygging 2,06m að breidd (skv. uppmælingarteikningum Þrastar Sigurðssonar).

Plankabygging var byggingaraðferð að norskum hætti, sem téðir Sigtryggur og Jónas tileinkuðu sér, enda þótt aðferðin hefði ekki orðið almenn. En í plankabyggðum húsum var engin grind, heldur voru útveggirnir hlaðnir úr þykkum plönkum. Í samtímaheimildum, nánar tiltekið í Stefni þ. 23. ágúst 1902 er þessari byggingaraðferð lýst á eftirfarandi hátt: „Hótelið er plankabyggt, sem kallað er, grind engin, en 3gja þuml. plönkum stokkað upp í veggina, og þeir geirnegldir á hornunum; aðalskilrúm hússins eru og þannig byggð jafnframt“. Ennfremur: „Plankaveggirnir eru fyrst klæddir utan með asfalt-pappa og þar utan yfir með vanalegum klæðningsborðum, en innan eru herbergi hússins annað hvort þiljuð með skífum eða pappaklædd. Nokkuð dýrari en grindarbyggðu húsin en eigi stórvægilega telja smiðirnir þannig byggð plankahús.“ Umrætt hótel er Hótel Akureyri við Aðalstræti, sem þá var í smíðum, en það hús brann til ösku í nóvember 1955.

Árið 1916 er húsinu lýst á eftirfarandi hátt: Íbúðar- og verslunarhús, tvílyft með háu risi og kvisti á háum kjallara, skúr við bakhlið og veggsvalir við suðurstafn. Á gólfi við framhlið (þ.e. vestanmegin á neðri hæð) sölubúð, skrifstofa og forstofa, en við bakhlið vörugeymsla, eldhús og stofa. Á annarri hæð voru þrjár stofur og forstofa vestanmegin en tvær stofur, eldhús og búr austanmegin. Í risi, sem kallað var „efraloft“ voru fimm íbúðarstofur, tvö eldhús og gangur. Kjallara var skipt í fimm geymslurými. Húsið var sagt 10,8m hátt, grunnflötur þess 12,8x8,8m og á því 44 gluggar. Veggir og þak voru járnklæddir og jafnvel er talið, að húsið hafi verið bárujárnsklætt frá upphafi (Sbr. Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir 2003:190).

Sem fyrr segir mun Magnús Sigurðsson, stórbóndi og athafnamaður á Grund hafa reist húsið eftir byggingaleyfi sem tengdasonur hans, Ólafur G. Eyjólfsson fékk. Ólafur er hins vegar skráður eigandi hússins árið 1904 (húsið er ekki að finna í manntali 1903) og er hann búsettur þar ásamt konu sinni, Jónínu Magnúsdóttur og nýfæddri dóttur, Sigurborgu. Þá voru fjórar íbúðir í húsinu og alls búsettir þar 17 manns. Af Ólafi segir Jón Hjaltason (2001:81) eftirfarandi: „[hann]...festi aldrei yndi á Akureyri og þegar honum bauðst árið 1905 að gerast skólastjóri hins nýstofnaða verslunarskóla í Reykjavík greip hann tækifærið fegins hendi.“ Frá upphafi var húsið verslunarhús og var Grundarverslun Magnúsar Sigurðssonar rekin í húsinu en þar réð ríkjum Kristján Árnason frá Lóni í Kelduhverfi. Kristján Árnason réðst sem verslunarstjóri hjá Magnúsi árið 1902. Árið 1909 stofnuðu þeir Magnús og Kristján Verslunina Eyjafjörð. Skemmst er frá því að segja, að sú verslun var starfrækt í nærri 60 ár. En í lengra máli má rekja, að Kristján sat einn að verslunarrekstrinum frá árinu 1919, er Magnús á Grund seldi honum sinn hlut í versluninni en verslunin var fyrstu áratugina nátengd Grundarverslun. Verslunin Eyjafjörður lagði sérstaka áherslu á viðskipti við bændur og fengu þeir að taka þar út vörur gegn afurðum (kjöt, ull o.fl.) sem þeir lögðu inn hausti og vori. Fram undir 1940 starfrækti verslunin meira að segja eigin sláturhús. Um það leyti tók Gunnar, sonur Kristjáns við rekstrinum og rak áfram með glæsibrag um áratugaskeið. Byggði hann við húsið steinsteypta viðbyggingu en í eldra húsinu voru innréttaðar skrifstofur. Verslunin Eyjafjörður varð gjaldþrota árið 1967 og hafði þá verið starfrækt í um 60 ár og alla tíð í Hafnarstræti.

Eftir að Verslunin Eyjafjörður lagði upp laupana var ýmis rekstur í viðbyggingunni og hún var rifin árið 1991. Á árunum 1987 og fram yfir 1990 fóru fram töluverðar endurbætur á húsinu og þar var m.a. að verki hinn valinkunni hagleiksmaður Sverrir Hermannsson. Síðan hefur húsið verið í góðri hirðu og lítur vel út. Húsið er, eins og títt er um hin norskættuðu sveitserhús, sérlega svipmikið og skrautlegt og til mikillar prýði sem eitt af kennileitum Miðbæjarins. Svalabyggingin, skrauti hlaðin, gefur húsinu sinn sérstaka svip. Útstæður kvisturinn á bakhlið hússins er einnig nokkur svipauki, en hann er öllu látlausari. Á suðurhlið bakbyggingar má þó einnig finna skrautleg dyraskýli og handrið. Hafandi þá staðreynd í huga, að Magnús á Grund lét reisa húsið árið 1903 er býsna freistandi að ímynda sér, að með verslunarhúsi sínu við Hafnarstræti hafi Magnús mögulega verið að „æfa sig“ fyrir byggingu einhverrar skrautlegustu byggingar Eyjafjarðarsvæðisins. Nefnilega Grundarkirkju, sem hann hóf að reisa ári síðar. En hvað sem einhverjum vangaveltum höfundar líður er Hafnarstræti 86 eitt af skrautlegri og reisulegri húsum bæjarins og ein af perlum Miðbæjarins. Húsið hlýtur hátt varðveislugildi í Húsakönnun 2012 og er vitaskuld aldursfriðað, þar eð það er byggt fyrir 1923. Fjórar íbúðir eru í húsinu. Meðfylgjandi myndir eru teknar þann 9. ágúst 2022.

Heimildir: 

Árni Ólafsson, Akureyrarbær, Teiknistofa Arkitekta Gylfi Guðjónsson og félagar. 2012. Drottningarbrautarreitur-Hafnarstræti- Húsakönnun 2012. Minjastofnun. Pdf-skjal aðgengilegt á slóðinni https://husakannanir.minjastofnun.is/Husakonnun_157.pdf

Bygginganefnd Akureyrar. Fundargerðir 1902-1921. Fundur nr. 247, 11. maí 1900. Óprentað og óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Elstu fundargerðabækur Bygginganefndar eru aðgengilegar á vef Héraðsskjalasafnsins https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/a26_2?fr=sY2Q5MDQzODI5ODU

Brunabótamat 1916-17. Varðveitt á Héraðsskjalafninu á Akureyri, aðgengilegt á vefnum: Virðingabók Brunabótafélags Íslands, https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU

Finnur Birgisson og Hanna Rósa Sveinsdóttir: Akureyri - höfuðstaður Norðurlands. Í Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen, Magnús Skúlason (ritstj.)(2003). Af norskum rótum- gömul timburhús á Íslandi (bls. 172-207). Reykjavík: Mál og Menning.

Jón Hjaltason. 2001. Saga Akureyrar III. bindi. Akureyrarbær.

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík. Örn og Örlygur

Ýmis manntöl og gögn á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.

Trjárækt nyrðra á 19. öld

Sigurður Arnarson skrifar
01. janúar 2025 | kl. 13:00

Áramótahugleiðingar um list, eldri konur og karlakóra

Rakel Hinriksdóttir skrifar
01. janúar 2025 | kl. 06:00

Prentvillupúkinn leikur lausum hala

Haraldur Ingólfsson skrifar
31. desember 2024 | kl. 20:00

Sviðnir leggir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
30. desember 2024 | kl. 11:30

Snjóavetur

Jóhann Árelíuz skrifar
29. desember 2024 | kl. 06:00

Liðið sem aldrei lék heimaleik

Orri Páll Ormarsson skrifar
27. desember 2024 | kl. 13:00