Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Aðalstræti 13

Ef snöggt er litið á byggingarsögu Akureyrar mætti hæglega draga þá ályktun, að 10. áratugur 19. aldar hafi verið nokkurt uppbyggingarskeið. Þá voru menn stórhuga á þessum áratug; hafin var vinna við vegagerð milli byggðakjarnanna tveggja á Akureyri og Oddeyri, jörðin Stóra-Eyrarland keypt og lögð undir lögsagnarumdæmið. Auk þess hófust framkvæmdir við uppfyllingar. Frá þessum árum eru nokkuð mörg hús, sem enn standa. Sér í lagi eru þau mörg byggð á síðustu árum áratugarins, eða 1897-99. Á næstu vikum er ætlunin að gera skil húsum frá þessum áratug hér á þessum vettvangi. Í þessari umfjöllun berum við fyrst niður við Aðalstræti: Aðalstræti er ein elsta gata Akureyrar og liggur um hið upprunalega bæjarland undir hinni snarbröttu brekku undir Búðargili og Naustahöfða. Nær gatan frá hinni upprunalegu Akureyri, neðan Búðargilsins og suður Fjöruna, en þessi hverfi hlutu saman nafnið Innbær, þegar þéttbýlið breiddi úr sér m.a. á Oddeyri. Í upphafi stóðu hús aðeins vestanmegin eða „brekkumegin“ við Aðalstrætið, sunnan Hafnarstrætis, enda var flæðarmálið austanmegin. Á síðustu árum 19. aldar hófust miklar framkvæmdir, þar sem gerðar voru geysilegar landfyllingar á svæðinu sunnan hinnar eiginlegu Akureyrar. Var þetta með fyrstu skiptum þar sem grafið var framan úr brekkunni og fyllt upp í flæðarmálið. Var þessi landfylling kölluð nýja Ísland (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:74). Á meðal þeirra sem reisti hús á hinu nýja landi var Þórður Thorarensen, en hann reisti húsið Aðalstræti 13 árið 1898.

Fyrsta verk bygginganefndar á fundi sínum þann 9. apríl árið 1898 var ákvarða grunn undir hús, sem Þórður Thorarensen gullsmiður ætlar að byggja á uppfyllingunum fyrir austan veginn suður Fjöruna. Húsið á að vera um 15 ál. á lengd og 12 ál. á breidd með kvisti þvert í gegnum húsið (Bygg.nefnd. Ak. 1898: nr. 163). Ennfremur ákvað bygginganefndin, að húsið skyldi standa 40 álnir suður af húsi Magnúsar Sigurðssonar á Grund og 5 álnir frá götunni. En hús Magnúsar á Grund var vörugeymsla og útibú frá verslun hans, sem hann hafði reist árið 1896 og var kallað Grundarskáli. Það hús er löngu horfið, en var áfast Hafnarstræti 2. Árið 1898 reis suðurhluti hússins. Árið 1903 fékk Þórður leyfi til að lengja hús sitt um 10,5 álnir (tæpa 7 metra) til norðurs og var sú viðbót einnig með miðjukvisti (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:74). Var húsið þá nokkurn veginn komið í endanlega stærð að grunnfleti. Löngu síðar voru gerðar ýmsar aðrar breytingar á húsinu, en nánar um það aftar í greininni.

Aðalstræti 13 er tveggja hæða timburhús með háu portbyggðu risi og stendur á háum steinkjallara. Skiptist húsið í tvo hluta, ytri og syðri og er ytri hlutinn sá upprunalegi en sá syðri viðbót, fimm árum yngri en sá ytri. Ytri hluti hússins er einlyftur með háu risi og miðjukvisti að framan (austan) og lágum, aflöngum kvisti að aftan (vestanverðu). Á vesturhlið er smár inngönguskúr sem og á norðurstafni. Segja má að syðri hluti hússins sé tvílyftur með háu risi en þar hefur risi hússins verið lyft, sem kallað er. Kvistarnir tveir á framhlið mynda þannig eina heild en í stað risþaks hafa verið byggðir veggir efri hæðar á milli kvistanna og einnig suður eftir allri þekjunni, svo suðurstafn hússins er allur tvílyftur. Kvistirnir eru þannig aðeins til staðar að því leyti, að mænar þeirra skaga upp úr aflíðandi þakinu. Allt er húsið bárujárnsklætt, veggir jafnt sem þak. Í flestum gluggum hússins eru krosspóstar en einnig eru á nokkrum stöðum einfaldir póstar, láréttir, sem og lóðréttir. Blindgluggi (falskur gluggi) vestanvert á suðurstafni skartar ámáluðum sexrúðupósti. Grunnflötur Aðalstrætis 13 er um 16x8m, útskot að norðan um 5x2m og útskot að vestan 1,5x2m. Í Húsakönnun frá 1986 er húsið sagt 844 rúmmetrar að stærð, en með stækkun á efri hæð hússins, sem gerð var skömmu síðar má fullyrða, að húsið sé orðið meira en 900 rúmmetrar.

Þórður Thorarensen, sem byggði húsið, var fæddur árið 1859 að Stóru-Brekku í Hörgárdal. Hann var gullsmiður, nam þá iðn á Akureyri hjá Magnúsi Jónssyni og í Reykjavík hjá Ólafi Sveinssyni. Hann fluttist til Akureyrar árið 1882 og sama ár kvæntist hann Önnu Jóhannsdóttur. Anna var fædd á Akureyri en foreldrar hennar voru Jóhann Eyjólfsson, sem var Skagfirðingur og Þóra Þorláksdóttir frá Öngulsstöðum í samnefndum hreppi í Eyjafirði. Fjórum árum síðar reistu þau sér veglegt tvílyft hús neðst í Búðargili, ásamt Jakobi Gíslasyni söðlasmið. Fékk það hús síðar númerið 6 við Lækjargötu og stendur það enn. Bjuggu þau þar í rúman áratug uns þau reistu nýtt á „nýju landi“ við Aðalstræti 13. Þórður stundaði iðn sína svo lengi sem þrek og heilsa leyfði og var verkstæði hans í húsinu hér. Verkstæði sitt og sölubúð hafði hann lengst af á neðri hæð suðurhluta Aðalstrætis 13 en bjó, ásamt fjölskyldu sinni á efri hæð. Þórður var einnig virkur í hinum ýmsu félags- og trúnaðarstörfum og jarðrækt, garðrækt og búnaðarmál voru Þórði mjög hugleikin. Ræktaði hann m.a. mikinn skrúðgarð sunnan við hús sitt hér. Þórður var einn af stofnendum Jarðræktarfélags Akureyrar, sem stofnsett var vorið 1896 og hafði, eins og nafnið bendir til, jarðrækt og framkvæmdir við jarðabætur, að markmiði. Var hann einn af mikilvirkustu jarðabótamönnum bæjarins á þeim árum, en einnig voru þeir Páll Briem amtmaður og Friðbjörn Steinsson bóksali mikilvirkir á þeim vettvangi. Jarðræktarfélag Akureyrar rann inn í Ræktunarfélag Norðurlands árið 1905. Um Þórð Thorarensen segir S.B. nokkur í minningargrein í Degi þ. 27. janúar 1945: Smíði hans bar vott um vandvirkni og góðan og óbrjálaðan [svo] smekk. Orðheldinn var hann svo, að aldrei mun skeikað hafa um það, sem hann lofaði. Hann var strangheiðarlegur í viðskiptum, og sagði jafnan kost og löst, gildi eða gagnsleysi vöru þeirrar, sem hann hafði á boðstólum. Þurfti þar enginn að kaupa kött í sekk (S.B. 1945:5).

Árið 1916 var Aðalstræti 13 virt til brunabóta og sagt íbúðarhús, einlyft með porti, háu risi, þrem kvistum á steinsteyptum kjallara. Veggir og þak hvort tveggja úr timbri og járnvarið. Neðri hæð (gólfi) var lýst svo: Undir framhlið [vestanmegin] „1 stofa, gullsmíðaverkstæði, sölubúð og tvær forstofur og úr annarri þeirra stigi upp á loftið“. Bakhlið (austanmegin) 1 stofa, eldhús, forstofa með stiga upp á loftið og geymsla. Á lofti 3 herbergi undir framhlið, forstofa og geymslurými. Á bakhlið þrjú herbergi, eldhús og búr og auk þess eitt herbergi fyrir gafli. Kjallari hólfaður í tvennt. Alls voru sex kolaofnar og tvær eldavélar í húsinu og tveir skorsteinar og 35 gluggar voru á húsinu. Grunnflötur hússins mældist 16x7,5m og hæð hússins 6,9m. (sbr. Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 42).

Þórður Thorarensen bjó hér til æviloka, en hann lést í ársbyrjun 1944. Anna Jóhannsdóttir Thorarensen lést í maí 1946. Eftir þeirra daga var húsinu skipt í fjóra eignarhluta. Í Húsakönnun frá 1986 (Hjörleifur Stefánsson 1986:74) er eigendatal og segir þar, að Jón Sveinbjarnarson hafi eignast neðri hæð suðurhluta hússins árið 1949 og Elín Friðfinnsdóttir norðurhluta efri hæðar árið 1975. Ári síðar eignast María Magnúsdóttir suðurhluta efri hæðar og Hreinn Grétarsson er eigandi suðurhluta neðri hæðar frá 1980. Eignarhaldi annarra hluta hússins er ekki getið á þessu tímabili. Með aðstoð hins óviðjafnanlega þarfaþings timarit.is er hægt að geta að einhverju leyti í þær eyður, a.m.k. fyrir fyrstu árin eftir daga Þórðar Thorarensen.

Þórður Thorarensen lést þann 16. janúar 1944. Rúmum mánuði síðar, 24. febrúar, birtist eftirfarandi auglýsing í Degi. Auglýsingin samanstendur aðeins af sex orðum: Húseignin Aðalstræti 13 er til sölu og tekið fram, að upplýsingar veiti Ólafur Thorarensen. Rúmu ári síðar, 15. mars 1945 er Aðalstræti 13 aftur auglýst til sölu, en í þetta sinn aðeins norðurhlutinn og tekið fram, að um sé að ræða tvær íbúðir. Undir þessa auglýsingu er skrifað, að semja beri við undirritaðan, Vilhjálm Guðmundsson skipasmíðameistara. Af framangreindum upplýsingum er freistandi að draga þá ályktun, að téður Vilhjálmur hafi mögulega keypt húsið af erfingjum Þórðar Thorarensen og skipt því upp, en það er þó alls ekki víst. En víst er þó, að hann átti norðurhlutann í mars 1945 og þar voru innréttaðar tvær íbúðir. Tveimur mánuðum síðar er Björgvin nokkur Elíasson búsettur í Aðalstræti 13, en í hverri íbúð hann bjó, liggur ekki fyrir þar. Hann var a.m.k. ekki að auglýsa íbúð til sölu, heldur árabát. Næst er íbúð auglýst til sölu í Aðalstræti 13 í ársbyrjun 1949 og er þar lýst sem þriggja herbergja auk eldhúss og geymslu og þvottahúss í kjallara og íbúðin sögð laus frá og með 14. maí. Undir skrifar Jóhannes Jósepsson. (Til að fyrirbyggja hugsanlegan misskilning skal tekið fram, að hér er ekki um að ræða Jóhannes Jósefsson, sem löngum var kenndur við Hótel Borg). Mögulega hefur Jón Sveinbjarnarson, sem getið er í Húsakönnuninni keypt af Jóhannesi. Það yrði æði löng upptalning, að telja upp eigendur og íbúa hússins síðustu 80 árin svo við látum staðar numið hér. Íbúar hússins gegnum tíðina eru orðnir ansi margir. Á 8. og 9. áratugnum voru gerðar nokkrar breytingar á húsinu, sem breyttu nokkuð yfirbragði þess frá hinu upprunalega. Árið 1972 var risi lyft á milli kvista og árið 1987 var risinu lyft á suðurhluta svo suðurhluti hússins er raunar tvílyftur með lágu, aflíðandi risi. Jafnframt voru gerðar svalir á efri hæð suðurhliðar. Þær breytingar voru gerðar eftir teikningum Mikaels Jóhannessonar. Fékk húsið þá það lag, sem það nú hefur.

Síðustu ár hafa farið fram ýmsar endurbætur á húsinu, að utan jafnt sem innan og þegar þetta er ritað eru þær raunar enn yfirstandandi. Norðurhluti hússins skemmdist nokkuð í bruna þann 20. júlí 2009. Var sá hluti allur endurbyggður og er fyrir vikið sem nýr. Í bókinni Innbær hús og fólk eftir Kristínu Aðalsteinsdóttur, segir eigandi og íbúi suðurhluta hússins, Gunnar Anton Njáll Gunnarsson, frá upplifun sinni af húsinu og ekki síst lóðinni. Undir spónlögðum veggjum kom í ljós panelklæðning og grjóthleðsla í kjallara og skorsteini. Þá fór hann ansi óvenjulega leið við að fella stórt reynitré sunnan við húsið, klifraði upp í það með bogasög og sagaði niður grein fyrir grein. Mjög þröngt var um skógarhöggsframkvæmdina, því aðeins var um tveggja metra rými þar sem stofninn mátti falla svo hann lenti ekki á svölum eða grindverki nágrannanna. Tréð mikla öðlaðist hins vegar framhaldslíf því úr stofninum smíðaði Gunnar borð og sex stóla (Kristín Aðalsteinsdóttir 2017:25).

Aðalstræti 13 er stórbrotið og glæst hús. Síðari tíma breytingar gefa því ákveðin sérkenni og setja á það sérstakan svip, en hér er í raun um að ræða tvo ólíka húshluta, hvor með sínum sérkennum: Syðri hlutinn er tvílyftur með lágu risi og kvistum sem þó standa aðeins uppúr þekjunni að litlu leyti, og norðurhlutinn einlyftur með háu risi og kvisti, sem tengist á framhlið og rennur skemmtilega saman við suðurhlutanum milli kvistanna. Á suðurhlið setja smáir gluggar, fyrrverandi „súðargluggar beggja vegna svaladyra skemmtilegan svip á húsið.

Sem fyrr segir standa yfir gagngerar endurbætur á húsinu, norðurhlutinn var endurbyggður eftir brunaskemmdir, svo húsið er í góðri hirðu. Sama á við um lóð, þó næsta lítið sé eftir að skrúðgarði þeim, sem Þórður Thorarensen ræktaði af alúð og natni á fyrri hluta síðustu aldar. Húsið og umhverfi þess er til mikillar prýði í fallegu umhverfi Innbæjarins. Aðalstræti 13 hlýtur í Húsakönnunum (Hjörleifur Stefánsson 1986:74, Hjörleifur Stefánsson og Hanna Rósa Sveinsdóttir 2012:32) varðveislugildi sem hluti merkrar heildar og er að sjálfsögðu aldursfriðað, þar sem það er byggt fyrir 1923. Húsaröðin við þessi mót Aðalstrætis og Hafnarstrætis er býsna merk heild, hvort sem um ræðir út frá fagurfræðilegum eða sögulegum þáttum. Saga hússtæðisins sem slíks er einnig merk, þar eð húsið er byggt á einni fyrstu landfyllingu, sem grafin var með handafli úr brekkunni. Saga byggðar neðan Brekkunnar á Akureyrar er að mörgu leyti saga landfyllinga, allt frá austanverðu Aðalstræti, um ytri hluta Innbæjar og norður að Oddeyri, enda var undirlendið næsta lítið (eða ekkert) frá náttúrunnar hendi. Myndirnar eru teknar 20. júlí 2009, 12. september 2022 og 22. september 2024.

 

Heimildir:

Brunabótafjelag Íslands. 1917. Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 . Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU

Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 69, 9. apríl 1898. Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni 

http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Fjaran-og-Innbaerinn-2012.pdf

Kristín Aðalsteinsdóttir. 2017. Innbær. Saga og fólk. Akureyri: Höfundur.

S.B. 1945 Þórður Thorarensen gullsmiður”. Í Degi, 4. tbl. 27. árg. Bls. 5. Sjá tengil í texta á timarit.is.

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 18:00