Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Aðalstræti 22

Það er freistandi að draga þá ályktun, að á síðustu árum 19. aldar, hafi verið nokkur uppgrip í húsbyggingum á Akureyri og Oddeyri. Það eru e.t.v. ekki mjög vísindaleg rök fyrir þeirri freistni greinarhöfundar, en hún ræðst einfaldlega af því, að hlutfallslega eru tiltölulega mörg hús sem enn standa byggð, árin 1897 og 1898. Mun færri hús eru t.d. frá árunum 1890-95. Hér ber hins vegar að hafa í huga, að þó nokkur hús frá þessu árabili hafa týnt tölunni, hvort heldur er í eldsvoðum eða niðurrifi. En eitt þeirra nokkuð mörgu húsa bæjarins með skráð byggingarár 1898 er Aðalstræti 22. Hér er um að ræða einfalt og látlaust tvílyft timburhús sem er nokkuð merkilegt fyrir þær sakir, að kona reisti það, en slíkt var fremur óalgengt í lok 19. aldar. Umrædd kona, var Anna Sigríður Erlendsdóttir, kaupkona.

Þann 9. apríl 1898 kom bygginganefnd Akureyrar saman á fundi, einu sinni sem oftar. Erindi hennar var afgreiðsla tveggja lóða og byggingarleyfa við Aðalstræti. Annars vegar fékk Þórður Thorarensen gullsmiður lóð og byggingarleyfi austan götunnar, á uppfyllingu, sem kallaðist Nýja Ísland. Handan götunnar fékk hins vegar Anna Erlendsdóttir lóð og byggingarleyfi. Hún fékk að reisa hús, 14 álnir á breidd og 11 álnir á breidd og skyldi það standa 10 álnir suður af húsi Jónatans Jóhannessonar og Júlíníusar Jónssonar (Aðalstræti 20, byggt árið áður) og í beinni línu við hús Benedikts Jóelssonar, 5 álnir frá götunni og austurhorn miðaðist við hús P. Þorgrímssonar (Aðalstræti 38) (sbr. Bygg.nefnd Ak. nr. 163, 1898). Af húsi Benedikts Jóelssonar er það að segja, að það var byggt 1895 og hlaut áratug síðar númerið 18 við Aðalstræti og stóð þar til vorsins 1990 er skriða úr Höfðanum grandaði því.

Anna Erlendsdóttir fæddist á jóladag árið 1855, líkast til í Kaupangi í Öngulsstaðahreppi en þar var faðir hennar, Erlendur Ólafsson skráður bóndi og bókbindari árið sem hún fæddist. Árið 1860 er Anna hins vegar komin í fóstur að Klömbrum í Grenjaðarstaðarsókn í S-Þingeyjarsýslu en foreldrar hennar fluttir til Akureyrar, þar sem Erlendur er titlaður bókbindari. Hvenær Anna hóf verslunarrekstur sinn er ekki ljóst en í apríl árið 1897 birtist eftirfarandi auglýsing í blaðinu Stefni: Sumargjafir: Svuntutau, kvennslipsi, barnahattar, og barnahanzkar, hanzkar úr skinni, bómull og silki, margskonar hannyrðir, svart casmir hentugt f peisuföt [svo} , saumaðar peisusvuntur, kort og margt fleira selur Anna Erlendsdóttir á Akureyri (án höf 1897: ) Þannig virðist Anna hafa selt ýmsan fatnað og hannyrðavörur. Og árinu eftir að þessi auglýsing birtist reisti Anna Erlendsdóttir hús undir verslun sína sem, líkt og almennt tíðkaðist, var einnig íbúðarhús. Verslunina innréttaði hún á neðri hæð en íbúð á þeirri efri. Þar bjó hún ásamt móður sinni, Sigurbjörgu Einarsdóttur og vinnufólki en Anna var ógift og barnlaus.

Árið 1901 eru þrír íbúar skráðir hér til heimilis, mæðgurnar Anna og Sigurbjörg auk Maríu Hafliðadóttur, vinnukonu. Þá telst húsið númer 51 við Aðalstræti. Ári síðar hefur hins vegar fjölgað í húsinu við Aðalstræti, þar búa auk mæðgnanna og Maríu vinnukonu, tvenn ung hjón; annars vegar þau Jónas Jónasson trésmiður og kona hans Jórunn Hrjóbjartsdóttir ásamt nýfæddri dóttur, Ingibjörg og hins vegar þau Guðlaugur Pálsson snikkari og Ingilína Jónasdóttir. Þá er húsið orðið númer 45. Hvers vegna svo er, er ekki gott að segja; mögulega hefur bæjarbruninn mikli sem átti sér stað milli þess, sem manntöl þessi voru tekin, haft þar áhrif; bruninn eyddi nokkrum húsum á þessum slóðum, reyndar lítið eitt norðar. Hins vegar var það svo á þessum árum, að númeraröð Aðalstrætis var öfug miðað við það sem nú er, þ.e. tölurnar fóru hækkandi frá suðri til norðurs. Aukinheldur, voru oddatölur vestanmegin. Það virðist hafa verið árið 1906 sem númeraröð Aðalstrætis var endurskilgreind, henni snúið frá norðri til suðurs og sléttar tölur hafðar vestanmegin. Athyglisvert er það í ljósi þess, að því er einmitt öfugt farið með Hafnarstræti, og raunar flestar eldri götur bæjarins, sem liggja í norður-suður.

Aðalstræti 22 er tvílyft timburhús með lágu risi og stendur á steyptum eða steinhlöðnum kjallara. Á bakvið er einlyft bygging með háu risi, sambyggð húsinu, og á norðurhlið er tvílyft steinsteypt útskot; inngönguskúr, með einhalla aflíðandi þaki. Húsið er klætt steinblikki og krosspóstar eru í gluggum að framanverðu en fjölbreyttari gluggasetning í bakhúsi. Grunnflötur framhúss mælist um 9x8m, útskot að norðan 4x2m en bakbygging ásamt tengibyggingum um 6 metra breidd. Þannig er breidd framhúss og bakhúss samanlagt um 14x9m.

Í lok nóvember 1916 heimsóttu matsmenn Brunabótafélagsins Aðalstræti 22 og lýstu húsinu á eftirfarandi hátt: Járnvarið timburhús, tvílyft með lágu risi á steinsteyptum kjallara. Grunnflötur mældist 8,8x6,9m, hæð 7,5m og 20 gluggar á húsinu. Á neðri hæð voru tvær stofur að austanverðu. Á neðri hæð að vestanverðu voru ein stofa, eldhús, búr og forstofa með stiga upp á loft. Á lofti voru alls þrjár stofur, geymsla og „ 1stórt framloft“ svokallað. Kjallari var hólfaður í fimm geymslurými. Ein skorsteinn var á húsinu og tengdust honum þrír kolaofnar og ein eldavél (Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 43) Hvergi er minnst á verslun eða sölubúð í brunabótamati árið 1916.

Árið 1929 (1926?) eignuðust þau Alfreð Jónsson kaupmaður og Bára Sigurjónsdóttir kona hans efri hæð hússins. Samkvæmt Húsakönnun (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:63) eignast þau reyndar ekki húsið fyrr en 1929 en það var engu að síður vorið 1926 að Alfreð fékk lóðarviðbót í brekkunni á bakvið húsið ásamt leyfi til að reisa geymslu- og gripahús úr steini, 8x4 ½ m að stærð, samkvæmt framanlögðum uppdrætti (sbr. Bygg.nefnd Ak. nr. 584). Umræddan uppdrátt að þeirri byggingu gerði Sveinbjörn Jónsson. Alfreð og Bára eignuðust allt húsið um 1950. Þá hafði Sigurjón Friðbjarnarson átt neðri hæðina frá 1933. Alfreð Jónsson lést árið 1972 en Bára átti húsið allt til ársins 1980. Þannig var húsið í eigu sömu hjóna að hluta eða í heild drjúgan hluta 20. aldar. Einhverjir lesendur kunna e.t.v. að muna eftir Báru Sigurjónsdóttur úr sælgætisversluninni Turninum við Hafnarstræti en hún afgreiddi þar um árabil. Alfreð rak verslun og útgerð á fyrri hluta 20. aldar en gerðist síðar starfsmaður og vann lengi við Stjörnuapótek (frá 1947).

Árið 1980 eignast Hjörtur Gíslason húsið, skv. Húsakönnun 1986 (sbr. Hjörleifur Stefánsson 1986:83). Ekki er vitað hvenær stigahús var byggt við norðanvert húsið en samkvæmt Húsakönnun 2012 eru til óundirritaðar og ósamþykktar teikningar af því frá árinu 1980. Bakhúsið var lengst af geymsluhús en um 1991 var húsið innréttað sem íbúð og byggðar tengibyggingar milli framhúss og bakhúss. Teikningarnar að þeim framkvæmdum gerði Þorgeir Jónsson. Samkvæmt útlitsteikningum hans eru krosspóstar í gluggum hússins en þegar fyrri húsakönnun var unnin um 1985 voru gluggar með þrískiptum þverpóstum í húsinu. Þá glugga hafði Alfreð Jónsson sett í árið 1947. Við breytingarnar 1991 fékk húsið það lag, sem það enn hefur. Hefur það fengið fyrirtaks umhirðu allar götur síðan. Í desember 2016 tók Kristín Aðalsteinsdóttir viðtal við íbúa efri hæðar hússins, þau Jón Benedikt Gíslason og Mörtu Violina, og birti í bókinni: Innbær húsin og fólkið. Höfðu þau á orði, að húsinu hafi verið svo vel við haldið, að það eina sem þau þurftu að gera þegar þau fluttu inn sumarið áður, var að pússa og mála gólfin (sbr. Kristín Aðalsteinsdóttir 2017:37). Húsið virðist í góðu ásigkomulagi og lítur mjög vel út. Húsið stendur svo til alveg upp í brekkurótum og er því ekki fyrir mikilli lóð að fara en engu að síður er umhverfi hússins mjög gróið og smekklegt. Í Húsakönnun 2012 telst húsið hluti einstarkar götumyndar sem lagt er til að varðveitt sé með hverfisvernd. Þá er húsið að sjálfsögðu aldursfriðað en hvað ræður aldursfriðun? Því er til að svara, að frá og með ársbyrjun 2023 var hin svokallað „100 ára regla“ (sem kvað á, að hús yrðu sjálfkrafa friðuð, árið sem þau náðu 100 árum) í húsafriðun afnumin og aldursfriðun miðast við byggingarárið 1923. Að mörgu leyti skiljanleg ráðstöfun, því eðli málsins samkvæmt hefðu aldursfriðuð hús orðið svo mörg í fyllingu tímans, að friðun yrði næsta gjaldfallin. Hins vegar eru mörg merk hús frá 3. og 4. áratug 20. aldar (og jafnvel yngri) sem ættu skilið varðveislu eða friðun. En sem fyrr segir er Aðalstræti 22 byggt 1898 svo það hefur aldarfjórðung fram yfir aldursfriðunarmörkin. Myndirnar eru teknar með áratugs millibili, 19. júní 2014 og 22. október 2024.

Heimildir:

Án höfundar. 1897. „Sumargjafir“. Auglýsing í Stefni 13. apríl 6. tbl 5. árg.

Brunabótafjelag Íslands. 1917. Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 . Varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: https://issuu.com/heradsskjalasafnakureyri/docs/f117_1_virdingabok_1916_1917?fr=sY2VhYTQzODI5ODU

Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 163, 9. apríl 1898. Fundargerðir 1921-1930. Fundur nr. 583, 3. maí 1926 Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri, aðgengilegt á vef safnsins: Fundargerðabók bygginganefndar Akureyrar 1857-1902 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu

Hjörleifur Stefánsson. 1986. Akureyri: Fjaran og Innbærinn byggingarsaga. Reykjavík: Torfusamtökin.

Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Fjaran-og-Innbaerinn-2012.pdf

Kristín Aðalsteinsdóttir. 2017. Innbær. Saga og fólk. Akureyri: Höfundur.

Útvíðar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
27. janúar 2025 | kl. 11:30

Gosdrykkjan

Jóhann Árelíuz skrifar
26. janúar 2025 | kl. 11:00

Seldi upp án þessa að missa úr skref

Orri Páll Ormarsson skrifar
24. janúar 2025 | kl. 13:00

Fuglaskógar

Sigurður Arnarson skrifar
22. janúar 2025 | kl. 10:00

Davíð Stefánsson

Haraldur Þór Egilsson skrifar
21. janúar 2025 | kl. 13:30

Selshreifar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
20. janúar 2025 | kl. 11:30