Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Norðurgata 6

Gerum okkur nú, lesendur góðir, í hugarlund Oddeyri í febrúar 1898. Eyrin er væntanlega snævi þakin og mögulega ísilagðir pollar og lænur úr Gleránni (nema vera skyldi, að hafi verið hláka) þar víða og er þar mestur ósinn á Oddeyrartanga. Íbúðabyggðin á Eyrinni er að mestu bundin við fjörukambinn syðst, og teygir húsaröðin sig í átt að brekkunni neðan við Stóra - Eyrarland. Þar hafa á síðustu misserum risið nokkur hús, þar sem áður var illfær og brött brekka í sjó fram. Fyrstir reistu þeir Bjarni Einarsson Due Benediktsson íbúðarhús neðst í Grófargili árið 1894 en í kjölfarið reisti amtmaður sér bústað á miðju einskismannslandinu, milli byggðalaganna tveggja á Akureyri og Oddeyri. Löngu síðar reisti Kaupfélag Eyfirðinga, KEA, sér veglegar höfuðstöðvar þar sem hús Bjarna og Due reis en amtmannshúsið stendur enn. Sumarið áður en hér er komið sögu, hefur Júlíus nokkur Sigurðsson og kona hans Ragnheiður Benediktsdóttir, systir athafnamannsins og skáldsins unga [33 ára á útmánuðum 1898] Einars, reist veglegt hús, nokkurn veginn í krikanum þar sem eyrin og brekkan mætast í flæðarmálinu, og kallast Bótin. (Nálega sex áratugum síðar var hús þetta flutt út á Oddeyri, á Ránargötu 13). En þetta sama sumar, 1897, reis líka eitt alstærsta hús kaupstaðarins við Strandgötuna á Oddeyri. Það reisti byggingameistarinn Snorri Jónsson. Hann á einmitt sæti í bygginganefnd bæjarins, sem þennan febrúardag bregður sér út á Oddeyrina að mæla fyrir tveimur hússtæðum við þvergötur, sem byggst hafa upp út frá Strandgötunni. Annars vegar fyrir Jón Guðmundsson skósmið og hins vegar Metúsalem Jóhannsson verslunarmann. Það er freistandi að áætla, að þeir hafi safnast saman á heimili Snorra og haldið svo af stað eftir þvergötunni sem liggur til norðurs, vestan við stórhýsi hans, þar sem þeir mæla út fyrra hússtæðið, ef marka má fundargerð.

Bygginganefndarmenn stika út frá Snorrahúsi út eftir götunni. Handan hennar á horninu er hús sem Jón Halldórsson reisti árið 1876 og var notað sem viðmið, þegar gata þessi var mæld út sumarið 1885. Þá voru reyndar þegar risin þrjú hús í götulínunni og fjögur, ef við teljum með hús sem reist var á grunni annars af tveimur fyrstu húsum Oddeyrar. Það var torfbær, sem reis árið 1858 en á grunni þess var reist timburhús um 1880. Ekki er leiðin löng að lóðinni, þar sem þeir ætla að mæla út fyrir húsinu. Þeir staðnæmast norðan við hús sem reist voru sumarið áður, líkast til eftir sömu forskrift Snorra. Syðra húsið reisti Þorvaldur Guðnason en það nyrðra Jón Jónatansson og Ólafur Árnason. Handan götunnar blasir við þeim hús, sem Snorri reisti um svipað leyti og hann settist að á Oddeyri tæpum tveimur áratugum fyrr. Og örlítið ofar við sömu götu er steinhúsið mikla, sem reist var um svipað leyti. Að öðru leyti blasir marflöt Eyrin við þeim með Eyjafjörðinn og Kaldbak í baksýn, þar sem þeir taka til við mæla út lóð og hússtæði fyrir Metúsalem Jóhannsson. Húsið yrði 14 álnir á lengd og 11 álnir á breidd og skyldi standa norður af húsi Jóns Jónatanssonar. Það fylgir reyndar ekki sögunni hvernig lóðinni var úthlutað, bygginganefnd er þarna að mæla út fyrir húsinu en ekki lóðinni. Það er ekki ósennilegt, að Metúsalem hafi fengið lóðina hjá landeiganda Oddeyrar, Gránufélaginu. En látum það liggja milli hluta. Ákváðu bygginganefndarmenn, að hús Metúsalems skyldi standa við fyrirhugaða þvergötu niður Oddeyrina.

Í þessum venju fremur langa formála eru fólgnar margar spurningar sem rétt er að svara. Umrædd gata út Oddeyrina fékk fáeinum árum síðar nafnið Norðurgata og téð hús Þorvalds annars vegar og Jóns og Ólafs hins vegar fengu númerin 2 og 4 við þá götu. Steinhúsið mikla varð Norðurgata 17 og eldra hús Snorra, Norðurgata 11. Stórhýsi Snorra var Strandgata 29. Það hús var rifið fyrir nálega 40 árum en hús Jóns Halldórssonar stendur enn, en þarfnast verulegra endurbóta eða endurbyggingar og hefur verið sótt um niðurrif þess. Um er að ræða Strandgötu 27.

Norðurgata 6 er einlyft timburhús með háu risi og miðjukvisti að framan og stendur það á háum steyptum eða hlöðnum kjallara. Veggir eru klæddir steinblikki, bárujárn á þaki og kjallaraveggir múrhúðaðir. Á miðri framhlið eru inngöngudyr og steyptar tröppur að henni. Einfaldir þverpóstar eru í flestum gluggum hússins. Grunnflötur er nærri 9x7metrum sem rímar nokkurn veginn við álnirnar úr byggingarleyfinu frá 1898, ellefu álnir eru um 6,93m og fjórtán álnir 8,82m.

Metúsalem Jóhannsson reisti hús sitt árið 1898 og fékk tveimur árum síðar leyfi til að reisa skúr á baklóðinni. Árið 1901 er húsið kallað „8 Norðurgata“. Geysistórt pakkhús, sambyggt Snorrahúsi hefur þá líkast til talist númer 2 við götuna. En þá eru búsettir á tæpum 160 fermetrum (skv. Fasteignaskrá) hússins, 20 manns. Þar ber helst að nefna þau Metúsalem Jóhannsson og konu hans Sigrúnu Sörensdóttur. Þau eiga ónefndan dreng, sem fæddur er 23. ágúst þetta sama ár, 1901. Þess má geta, að undir lok ársins 1901 eru tvö nýfædd börn hér til heimilis, fædd með mánaðar millibili upp á dag, en ónefnd stúlka Jóns Jónssonar Dalmann og Ingibjargar Jónsdóttur er fædd 23. september. Aðrir íbúar hússins eru hjú, leigjendur og einn er einfaldlega titlaður „aðkomandi“ en það er hinn 35 ára Bergur Hreiðarsson. Þrír bera titilinn „húsbóndi“ en það eru auk Metúsalems, téður Jón Dalmann og Ólafur Guðmundur Eyjólfsson. Af nýfæddu börnunum tveimur er það að segja, að drengurinn sem fæddist 23. ágúst hlaut nafnið Óli Vernharður og gerðist síðar útgerðarstjóri og stórkaupmaður í Reykjavík. Hann lést 1977. Dóttir þeirra Jóns Dalmann og Ingibjargar, sú er fædd var mánuði síðar, hlaut nafnið Karolína Andrea. Hún fluttist ung til Danmerkur og lést þar árið 1981. (Ári eftir að manntalið var tekið fluttust þau Metúsalem og Sigrún að Strandgötu. Þar byggði Metúsalem hús en áður en að því kom gerði hann sér lítið fyrir og flutti húsið sem fyrir stóð á lóðinni, Hauskenshús svokallað, um nokkra metra inn í þvergötuna sunnan við lóðina. Nýja hús Metúsalems brann til ösku í mars 1906 en aftur gerði hann sér lítið fyrir og byggði nýtt hús, enn stærra og glæstara. Þar er nú Strandgata 23 en Hauskenshús stendur einnig enn og er eitt af elstu húsum Oddeyrar).

Metúsalem Jóhannsson (1874-1941), kaupmaður var utan úr Glæsibæjarhreppi, uppalinn á Einarsstöðum. Hann var kvæntur Sigrúnu Sörensdóttur (1872-1915) en hún var úr Þingeyjarsýslum, skráð til heimilis að Vargsnesi í Þóroddsstaðasókn árið 1880. Metúsalem fluttist frá Akureyri um 1910 og stundaði hann verslun og útgerð víða um land, m.a. á Óspaksseyri og síðar í Reykjavík. Hann lést í Kaupmannahöfn árið 1941. Árið 1902 búa „aðeins“ sjö manns í húsinu, Ólafur Eyjólfsson kaupmaður og fjölskylda hans. Ári síðar eða 1903 er eigandi hússins orðinn J. Norðmann, búsettur hér ásamt fjölskyldu sinni. J. Norðmann, sem fullu nafni hét Jón Steindór Jónsson Norðmann lést árið 1908 en ekkja hans, Jórunn erfði húseignina. Árið 1915 eignast húsið Ásgrímur Pétursson fiskmatsmaður og ári síðar er húsið orðið tveir eignarhlutar. Er þá Ásgrímur eigandi annars hluta hússins en Pétur sonur hans eigandi hins en alls búa 13 manns í þremur íbúðarrýmum það ár. Auk þeirra feðga er Tryggvi Guðmundsson og fjölskylda hans skráð hér til heimilis. Á næst síðasta degi ársins 1916 heimsóttu matsmenn Brunabótafélagsins húsið og var því lýst eftirfarandi:

Íbúðarhús, einlyft með kvisti, porti og háu risi á kjallara, skúr við bakhlið. Þak var járnklætt, sem og norðurstafn hússins. Á neðri hæð vestanmegin („gólfi við framhlið“) voru tvær stofur og forstofa og austanmegin tvær stofur og eldhús. Á lofti voru þrjú íbúðarherbergi og fjórar geymslukompur. Kjallara var skipt í fjórar geymslukompur. Tveir skorsteinar voru á húsinu, tengdir fjórum kolaofnum og eldavél. Grunnflötur hússins var 8,8x6,9m og hæðin 6,3m og fjöldi glugga 18 (sbr. Brunabótafélag Íslands 1916: nr. 188). Á lóðinni stóð einnig hey- og gripahús úr steinsteypu, 8,8x4,4m að stærð og 2,8m á hæð með pappaklæddu timburþaki. Þar gæti verið um að ræða hús sem Ásgrímur Pétursson fékk að reisa sumarið 1915, „peningshús og geymsluhús úr steinsteypu á austurmörkum lóðar“. Þessu húsi var breytt í íbúðarhús árið 1922 (sbr. Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson) og varð Norðurgata 6b. Eigendur beggja húseigna voru Sölvi Halldórsson og Guðrún Jónsdóttir. Norðurgata 6b var afmörkuð lóð, sem var raunar við Gránufélagsgötu, en húsið var rifið um 1996 og lóðin aftur lögð undir Norðurgötu rúmum áratug síðar.

Fram kemur í brunabótamati að aðeins norðurhlið hússins er járnklædd. Þegar það er haft í huga, að járnklæðningar timburhúsa voru í árdaga fyrst og fremst hugsaðar sem brunavörn; hvort heldur að eldur breiddist úr brennandi húsi í annað eða að eldur úr öðru húsi læsti sig síður í það næsta, er nokkuð sérstakt, að það var einmitt hliðin sem vissi frá næstu húsum, sem var járnklædd. Ekki aðeins að norðurstafninn sneri ekki að næstu húsum, heldur voru næstu hús því norðan við Norðurgötu 6 staðsett í Glerárþorpi! (Þ.e. ef dregin væri lína um Norðurgötu milli austurs og vesturs). Það var ekki fyrr en 1926, að byggt var austan við Norðurgötu. En mögulega hefur það einmitt ráðið þessum frágangi, norðurstafninn var auðvitað mjög áveðurs fyrir norðanáttum, þó nyti hann skjóls fyrir vestanáttum. Síðar, líklega á 3. eða 4. áratug 20. aldar voru veggir hússins klæddir með steinblikki. Eigandi þá hefur væntanlega verið Sölvi Halldórsson en hann átti húsið og bjó hér fram undir miðja öldina.

Það myndi líklega fylla heila bók og hana þykka að telja upp eigendur og íbúa hússins frá upphafi en á meðal þeirra má nefna Indriða Ragnar Sigmundsson frá Miðvík í Grýtubakkahreppi, sem hér var búsettur um árabil upp úr miðri síðustu öld. Indriði var vörubílsstjóri mestan sinn starfsaldur en hugkvæmdist í sjóróðrum á unga aldri uppfinning, sem hann fékk einkaleyfi á árið 2003, þá kominn á níræðisaldur. Um var að ræða svokallaða hringlínu, sem kannski mætti lýsa sem nokkurs konar „ veiðifæribandi“ sem stöðugt fer upp og niður – og krækir í fisk á leiðinni. Á 2. áratug þessarar aldar bjuggu hér þau Perla Fanndal og Sigurvin Jónsson. Gerðu þau m.a. miklar endurbætur á lóðinni og voru þar með mikla hænsnarækt, eitt stærsta hænsna- og fuglabú innan þéttbýlismarka Akureyrar á sinni tíð og auk þess sinntu þau ýmissi ræktun í gróðurhúsi á lóðinni.

Húsinu hefur eflaust verið vel við haldið alla tíð og er í mjög góðri hirðu. Það er að sjálfsögðu aldursfriðað og er hluti varðveisluverðrar heildar, sem húsaröðin við Norðurgötu er. Húsið myndar einmitt mjög skemmtilega sjónræna heild ásamt næstu húsum sunnan við, en þau eru mjög sviplík að framan með miðjukvisti og inngöngudyr beint neðan við og glugga beggja vegna. Hlutföllin eru þó eilítið öðruvísi í nr. 6 en hinum tveimur, risið hærra og kvistur brattari auk þess sem það stendur á hærri grunni. En heildarsvipur þessarar öldnu þrenningar syðst við Norðurgötu er mjög samstæð. Í húsakönnun 2020 fær húsið hátt varðveislugildi sem friðað hús í einstakri götumynd og varðveisluverðri heild (sbr. Bjarki Jóhannesson 2020: 90). Myndirnar eru teknar 8. september 2013, 19. júní 2022 og 22. október 2024. Myndin sem sýnir Norðurgötu 2-4 er tekin 28. ágúst 2010.

Heimildir:

Bjarki Jóhannesson. 2021. Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020. Akureyrarbær. Aðgengilegt á pdf-formi á slóðinni Húsakönnun fyrir Oddeyri 2020.

Brunabótafélag Íslands, Akureyrarumboð. Virðingabók 1916-1917. Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. HskjAk. F-117/1  Aðgengilegt á vef Héraðsskjalafsafnsins Virðingabók Brunabótafélags Íslands, Akureyrarumboð 1916-1917 by Héraðsskjalasafnið á Akureyri - Issuu.

Bygginganefnd Akureyrarkaupstaðar. Fundargerðir 1857-1902. Fundur nr. 159, 9. feb. 1898. Fundargerðir 1902-21. Fundur nr. 415, 30. júlí 1915.  Óprentað, óútgefið, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson.1995. Oddeyri Húsakönnun. Minjasafnið á Akureyri. Aðgengileg á pdf-formi á slóðinni: https://www.akureyri.is/static/files/vefmyndir/akureyri/pdf/Husakonnun_Oddeyri.pdf

 

Ýmis manntöl á vef Héraðsskjalasafns og manntal.is, greinar á timarit.is; sjá tengla í texta.

Útvíðar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
27. janúar 2025 | kl. 11:30

Gosdrykkjan

Jóhann Árelíuz skrifar
26. janúar 2025 | kl. 11:00

Seldi upp án þessa að missa úr skref

Orri Páll Ormarsson skrifar
24. janúar 2025 | kl. 13:00

Fuglaskógar

Sigurður Arnarson skrifar
22. janúar 2025 | kl. 10:00

Davíð Stefánsson

Haraldur Þór Egilsson skrifar
21. janúar 2025 | kl. 13:30

Selshreifar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
20. janúar 2025 | kl. 11:30