„Heimurinn er að farast, sjáið þið það virkilega ekki!?“
ORRABLÓT - XX
Ég þori ekki að fullyrða að dægurtónlistaráhugi hafi verið almennur meðal nemenda í Glerárskóla um miðjan níunda áratuginn en hann var þó gríðarlegur í mínum vinahópi.
Gróft á litið skiptust menn í tvo flokka; annars vegar voru þungarokkarar ellegar málmhausar og hins vegar þeir sem aðhylltust svokallað framsækið gáfumannarokk.
Með gáfumannarokki á ég við U2, Big Country, Simple Minds, Echo and the Bunnymen, The Smiths, The Cure og fleiri nýbylgjubönd sem nutu lýðhylli á þessum tíma, ekki síst meðal manna sem voru samfélagslega þenkjandi og ofboðslega meðvitaðir um böl þjóðanna og hverskyns heimsósóma. Þeir kokgleyptu þetta efni og efndu til hátimbraðrar orðræðu um það, í tíma og ótíma, og kvótuðu menn á borð við Bono, Stuart Adamson og Morrissey í þriðja hverju orði. „Heimurinn er að farast, sjáið þið það virkilega ekki!?“
Helvíti vondar fréttir þegar maður er bara 13 ára!
Upp til hópa voru þetta listamenn sem drukku einir með sjálfum sér. Morrissey orti:
And if a double-decker bus crashes into us
To die by your side is such a heavenly way to die
And if a ten tonne truck kills the both of us
To die by your side, well, the pleasure, the privilege is mine
Sjálfur var ég í þessu liði um tíma, gladdist yfir músíkinni en þjáðist um leið með textunum. Mjög gáfulegt þótti að velta þessum hlutum fyrir sér og ætli ég hafi ekki staðið á hápunkti gáfna minna þegar ég rölti mér dag einn árið 1985 inn í Tónabúðina í Sunnuhlíð og festi kaup á plötunni Waiting for the Floods með bresku gáfumannarokksveitinni The Armoury Show. Fáir höfðu heyrt hennar getið og menn kinkuðu til mín kolli með velþóknun í svipnum. Waiting for the Floods varð í senn frumburður og svanasöngur The Armoury Show.
Af félögum mínum sem aðhylltust þessa frómu stefnu má nefna Guðmund Örn Guðmundsson, síðar bæklunarlækni, Árna Ólafsson, síðar athafnamann, þúsundþjalasmiðinn Rúnar Friðriksson, nú til húsa á Ólafsfirði, og Hjalta S. Hjaltason, nú sérfræðing í öryggismálum flugvalla. Öðlingarnir Kjartan Guðmundsson og Magnús Eggertsson áttu einnig aðild að þessum samtölum og vangaveltum, auk þess sem Rúnar Sigtryggsson, síðar landsliðsmaður í handbolta, lagði stundum orð í belg en hann var grjótharður Big Country-maður og er ugglaust enn. Nefna má fleiri menn, til dæmis Karl Gústaf Gústafsson, síðar flugstjóra og lífskúnstner, en hann var þó meira í framsækinni raftónlist og kvikmyndatónlist. Jafnvel tónlist framtíðarinnar. Efni fyrir lengra komna.
En svarthvítt var þetta ekki og við Hjalti og Rúnar Friðriks vorum til dæmis með hinn fótinn í málmkreðsunum. Sá heimur heillaði, krafturinn, orkan, tæknin, leikgleðin og andófið. Ég meina, gamlar konur tóku á sig sveig á götu mættu þær þungarokkara. Öðrum þræði var þetta því eins og að stíga út úr samfélaginu. Og hvaða unglingi hugnast það ekki?
Auðvitað var það samt fyrst og fremst tónlistin sem greip mann. Dio klukkaði mig fyrst og síðan komu þessi bönd hvert á fætur öðru; Iron Maiden, Judas Priest, Queensrÿche, Accept, Metallica, Slayer, Sepultura, ég gæti haldið áfram endalaust.
Meðal bræðra okkar Hjalta og Rúnars í málmi í Glerárskóla má nefna Sævar Árnason, síðar handboltakappa og kennara, Eirík Árna Oddsson, síðar húsasmið, Kristján Albert Guðbjörnsson og Örn Ólaf Jónsson, sem síðar tók sér nafnið Ernesto og settist að í sólinni í Mexíkó.
Við Össi vorum einu sinni saman með þátt um þungarokk í Útvarpi Glerárskóla á þemadögum. Vorum búnir að taka til 20 eða 30 lög en strax í öðru lagi knúðu nokkrar stelpur dyra í hljóðverinu og spurðu mæðulega: „Æ, getiði ekki spilað eitthvað annað?“
Málmurinn er víst ekki allra!
Við Gummi Örn vorum líka með þátt um gáfumannarokk í sömu lotu og mættum til leiks með ítarlegt handrit upp á margar síður í anda Rokkrásarinnar á Rás 2, sem Skúli Helgason og Snorri Már Skúlason stjórnuðu af listfengi og dauðans bláköldu alvöru á þeim tíma. Ég á þetta handrit ábyggilega ennþá; er nefnilega týpan sem aldrei hendir neinu. Konunni minni til mikillar mæðu. Sem betur fer eigum við gott háaloft.
Snorri Már Skúlason og Skúli Helgason stjórnuðu Rokkrásinni á Rás 2 af listfengi og dauðans bláköldu alvöru.
Að akureyrskum sið áttu allir sitt viðurnefni eða gælunafn. Þannig var Eiki heitinn stundum kallaður Skippy af mönnum í okkar innsta hring og Rúnar þóttist hafa himin höndum tekið þegar hann heyrði línuna „watch out Skippy!“ í hinu mergjaða lagi Iron Maiden Hallowed Be Thy Name af The Number of the Beast. Hvað í ósköpunum, var sjálf Járnfrúin að ávarpa okkar mann? Þegar betur var að gáð syngur Bruce Dickinson raunar „words escape me“ en ég breyti þeirri línu alltaf þegar ég syng með laginu, sem er auðvitað skylda. „Watch out Skippy!“ er miklu betra.
Bruce Dickinson, flugstjóri og rokkstjarna, til vinstri, og höfundur Orrablótanna, Orri Páll Ormarsson, þegar sá síðarnefndi átti viðtal við hetjuna fyrir Moggann. „Rock’n’roll keeps me healthy, mate!“
Löngu síðar varð ég svo lánsamur að hitta Dickinson, tók við hann viðtal fyrir Moggann á Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn sumarið 2003. Á þeim tíma starfaði hann með málminum sem flugmaður hjá breska flugfélaginu Astraeus sem flaug fyrir Iceland Express. Og notaði ferðina á Hróarskeldu til að fljúga með mig og fleiri farþega frá Íslandi. Frábær náungi, Dickinson, mikill húmoristi og laus við alla stæla enda þótt Sharon Osbourne muni ábyggilega reyna að segja ykkur annað. Þegar ég spurði kappann hvernig gengi að samræma þetta tvennt, flugið og rokkið, þá horfði hann sposkur á svip í augun á mér og lét þessi óborganlegu orð falla: „Rock’n’roll keeps me healthy, mate!“
Flugstjórinn og rökksöngvarinn Bruce Dickinson og Arnar Eggert Thoroddsen blaðamaður, til hægri. Arnar með myndina af Árni Matthíassyni kollega sínum. „Who the fuck is this guy?“
Ég má líka til með að segja ykkur söguna af því þegar Arnar Eggert Thoroddsen, vinur minn og doktor í dægurtónlistarfræðum, tók viðtal við Dickinson, nokkrum árum seinna. Arnar var þá með tónlistarþátt í sjónvarpi Mbl.is og fyrir aftan hann í settinu hékk alltaf innrömmuð ljósmynd af mentornum hans, Árna Matthíassyni, einum mesta tónlistarspekingi þessarar þjóðar fyrr og síðar. Þegar Arnar fór til fundar við Dickinson í flugstjórnarklefanum fyrir flug frá Keflavík tók hann myndina með sér og var með hana á lærinu meðan þeir spjölluðu. Ósköp eðlilegt allt saman. En jæja, þegar þeir höfðu lokið sér af horfði Dickinson snöggt á myndina, síðan á Arnar og mælti hátt og snjallt: „Who the fuck is this guy?“
Við höfum ekki lítið nuddað Árna upp úr þessu síðan; að Bruce Dickinson hafi ekki þekkt hann, alltént ekki á mynd.
Annars er Árni Matt nú aldeilis ættaður að norðan; afi hans, Árni heitinn Kristjánsson píanóleikari og tónlistarstjóri Ríkisútvarpsins, fæddist á Grund í Eyjafirði í blábyrjun síðustu aldar.
Er það vel.
En aftur í Glerárskóla í áttunni. Eftirminnilegur er tónlistarklúbbur sem við stofnuðum nokkrir félagarnir undir verndarvæng enskukennarans okkar, Birgis Svan Símonarsonar heitins. Skjöplist mér ekki áttu aðild að honum, auk mín, Rúnar, Eiki, Árni Óla, Maggi, Gummi og Stjáni.
Birgir var skáld og hafsjór af fróðleik um tónlist, ekki síst úr sexunni, og við ræddum þau mál aftur á bak og áfram á allskyns fundum og hlýddum á tóndæmi. Um vorið buðu þau hjónin, Birgir og Stefanía Erlingsdóttir, okkur heim í mat í kennarablokkinni í Smárahlíðinni. Þar var glatt á hjalla. Og við að sjálfsögðu leystir út með nýjustu ljóðabók húsráðanda.
Við gáfum líka út tónlistarblaðið Tóninn í skólanum, þar sem klúbbmeðlimir jusu úr viskubrunni sínum. Umsagnir birtar um lög og plötur og fjallað á einn hátt og annan um hinar ýmsu hljómsveitir og staka listamenn. Simple Minds var í öndvegi, einfaldir gáfumenn frá Glasgow. Aðeins var um eitt tölublað að ræða en það var þrútið að vöxtum.
Þetta var árið 1986 en þá urðu vatnaskil í mínu lífi sem tónlistarunnanda. Út komu meistaraverkin Master of Puppets með Metallica og Reign in Blood með Slayer. Eftir það varð ekki aftur snúið; ég gaf því gáfumennskuna upp á bátinn og sneri mér alfarið og af dauðans ástríðu að málminum.
Og þar hefur hjarta mitt slegið allar götur síðan.
Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.