Fara í efni
Pistlar

Gangstétt varð gúmmíi að bráð

ORRABLÓT - XIII

Við vorum að pakka saman eftir gott dagsverk, ég og Laurent F. Jónsson. Gangstéttirnar voru orðnar sléttar og felldar beggja vegna götunnar í Lundarhverfinu og menn gátu komið og sullað ofan á þær steypu eða malbiki, man ekki hvort var, við fyrsta hanagal morguninn eftir. Málið dautt.

En hvað var a‘tarna? Hurð opnaðist skyndilega á húsinu innst í götunni og út steig mótorhjólatöffari í fullum herklæðum. Hann virti okkur félaga ekki viðlits, heldur steig á bak vélfáki sínum, setti í gang og spólaði síðan eftir annarri stéttinni endilangri uns hann hvarf sjónum í sandmolduðum reykmekki.

Laurent, sem var sérfræðingurinn, ég var bara þarna til aðstoðar, sagði ekki neitt en inni í sér heyrði ég hann öskra af öllum lífs- og sálarkröftum: Neeeeeeiiiiiii!!! Sjálfsagt hafa merde, putain og þau blótsyrði öll líka komið honum í hug enda Laurent jafnvígur á íslensku og frönsku og margar fleiri tungur, muni ég rétt. Lái honum hver sem vill enda var dagsverkið unnið fyrir gýg. Það sem hafði tekið okkur marga klukkutíma að gera og nostra við var lagt í rúst á þremur sekúndum. Mögulega þremur og hálfri. Skellur.

Sjálfur vissi ég ekki hvort ég átti að hlæja eða gráta. Jú, jú, auðvitað var þetta mökksvekkjandi en á móti kom að ég vissi strax á þessu augnabliki að þetta ætti seinna eftir að verða góð saga. Verð þó að viðurkenna að ég hafði ekki þann góða miðil Akureyri.net í huga á þeim tímapunkti enda var internetið ekki komið til sögunnar. Og ábyggilega ekki Villi Neto heldur.

Faðir Laurents, Ólafur Rafn Jónsson, kenndi mér ensku í MA; ofboðslega skemmtilegur kennari sem iðulega kom trallandi til stofu, af eftirvæntingu og gleði. Klár í verkefni dagsins. Síðan reif hann upp þá vönduðu skræðu Developing Skills og hóf kennsluna. Mér er eftirminnileg setning úr fyrsta kaflanum, A Puma at Large, en hún var svona: When evidence began to accumulate they felt obliged to investigate.

Ég veit ekki hvers vegna það er, en hausinn á mér er uppfullur af svona einskis nýtum upplýsingum. Hugsið ykkur!

Developing Skills var með sagnræðilegu ívafi og ég man að bæði franska flugkappann Louis Blériot og ensku seglskútuna Cutty Sark bar á góma. Löngu síðar varð Cutty Sark á vegi mínum í Greenwich í Lundúnum og ég komst hreinlega við. Börnin mín botnuðu hvorki upp né niður í því hvað gamli varð allt í einu einkennilegur og meyr.

En aftur að þema dagsins. Bæjarvinnan, maður. Hún gat verið skemmtileg.

Fljótlega eftir að ég hóf störf sem verkamaður hjá Akureyrabæ vorið 1989 var ég staddur uppi á vörubílspalli með Pétri Jónssyni bílstjóra. Hann stóð í einhverjum stórræðum og hrópaði skyndilega á mig: „Snöggur, drengur, réttu mér stroffuna!“

Ég kaldsvitnaði, stífnaði allur upp og gerði dauðaleit með augunum að einhverju sem mögulega gat heitið stroffa – en fann ekki neitt. Þorði ekki fyrir mitt litla líf að viðurkenna fyrir Pétri að ég vissi ekki hvað stroffa væri. Næstu andartök eru í móðu en Pétur hlýtur að hafa skorið mig niður úr snörunni á endanum.

Ha, hvað er stroffa? Vitið þið það ekki?

Við strákarnir unnum oft saman í hópum, ekki síst niðri í skurðunum, og það verður að viðurkennast, öllum þessum árum síðar, að við höfðum ekki alltaf hemil á kímnigáfu okkar. Einu sinni fórum við Birgir Karl Birgisson aldavinur minn greinilega yfir strikið í masi og almennum gáska að mati Svanna verkstjóra, því hann skipaði okkur hastarlega upp úr skurðinum og inn í bíl. Ók síðan með okkur sem leið lá norður fyrir bæjarmörkin. Henti okkur þar út hvorum með sína skófluna og kvaðst sækja okkur í dagslok.

„Hvað eigum við að gera?“ spurðum við hvumsa.

„Það er biluð lögn þarna einhvers staðar. Finnið hana!“ svaraði Svanni og ók á brott.

Við félagar grófum þarna í akkorði í nokkra klukkutíma áður en Svanni sneri aftur. „Við fundum enga lögn,“ sögðum við skömmustulegir á leið í bæinn.

„Nú,“ sagði Svanni og tottaði pípuna.

Aldrei vorum við Biggi Kalli látnir halda þessu verki áfram og síðast þegar ég vissi var holan okkar ennþá á sínum stað.

Svanni var fínn verkstjóri, týpan sem lætur fátt koma sér úr jafnvægi, jafnvel ekkert. Og þegar hann klæddi sig í vöðlurnar síðdegis þá áttaði maður sig á því að það yrði yfirvinna.

Ég vissi aldrei fyrir víst hvað Svanni heitir en það hlýtur að vera Jóhann. Í öllu falli er sonur hans Jóhannsson. Sá heitir raunar Jóhann líka en kallaður Brói, alla vega í gamla daga. Brói er Þórsari að upplagi en óð síðar yfir Glerána til að verða Íslandsmeistari með KA í handbolta. Það kom raunar fyrir fleiri góða menn.

Loks var það annar verkstjóri, sem við skulum ekki nefna. Einu sinni kom ég með honum inn í skemmu í eigu bæjarins til að sækja þjöppu. Þjappan blasti strax við okkur fremst í skemmunni en verkstjórinn hélt samt hröðum skrefum áfram inn eftir gólfinu.

„Fyrirgefðu,“ sagði ég undrandi, „þjappan er hér.“

„Ég veit allt um það, drengur,“ gall í verkstjóranum. „Maður á aldrei að koma hingað inn öðruvísi en að athuga hvort maður geti ekki stolið einhverju!“

Já, bæjarvinnan, maður. Hún gat verið skemmtileg.

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega.

Hús dagsins: Laxdalshús, Hafnarstræti 11. (230 ára í ár)

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 07:00

Keiluspil

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
13. janúar 2025 | kl. 11:30

Bixímatur

Jóhann Árelíuz skrifar
12. janúar 2025 | kl. 10:00

Geðheilbrigðisþjónusta – Skipulag, samvinna og stjórnun

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. janúar 2025 | kl. 09:00

„Aumingja þessi, öllum er sama um hann!“

Orri Páll Ormarsson skrifar
10. janúar 2025 | kl. 12:00

Desember 1915

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
09. janúar 2025 | kl. 21:00