Fara í efni
Minningargreinar

Þorgerður K. Jónsdóttir

Elsku hjartans tengdamamma hefur kvatt þessa jarðvist.

Ég gleymi aldrei þegar ég kom fyrst til Gerðu og Stebba í Teigi 15 ára gömul. Mér fannst húsið eins og ævintýrahöll og Gerða var svo sannarlega drottningin þar!

En það var ekki líkt og í flestum ævintýrum þar sem að drottningin er gjarnan harðskeytt.

Ó nei, Gerða hafði endalausan kærleik að gefa til allra, hún var með stærsta hjartað í þessum heimi, hjálpsöm, þolinmóð, jákvæð og góð.

Gerða bauð mig velkomna með hlýjan faðm, stelpuskottið sem læddist heim með syninum. Heimilið í Teigi var ólíkt því sem ég hafði áður kynnst, þar var stór fjölskylda, alltaf fullt hús af fólki og mikill léttleiki yfir öllu.

Gestrisnin var Teigshjónunum í blóð borin og voru gjarnan haldnar stórar veislur þar sem að veisluborðin svignuðu undan kræsingum. Gerða var fjörug, elskaði góða tónlist og að hafa fínt í kring um sig. Léttleiki Gerðu og góðvild laðaði fólk að henni og var hún vinmörg allt til enda.

Gerða hafði þá eiginleika í ríkum mæli að gleðjast með glöðum og finna til með þeim er bágt áttu. Hún mátti ekkert aumt sjá og matargjafirnar sem streymdu frá Teigi fyrir jólin voru í tugatali.

Um stund skildu leiðir okkar Gerðu en þegar við Biggi tókum upp þráðinn á ný og ég þá búin að eignast hann Hafþór minn, var honum tekið fagnandi af þeim Teigshjónum af sannri ást og umhyggju. Sama var þegar Nanna Lind og Sindri Snær bættust í hópinn, kærleikurinn var ótæmandi brunnur allt til enda. Afkomendahópurinn var orðin stór en fram á síðasta dag hélt Gerða utan um allan hópinn sinn og passaði upp á hvern og einn einasta.

Gerða var mikill fagurkeri og var iðin í sinni listsköpun í Álfagallerýinu og hafði einstakt lag á því að gera fallegt í kring um sig. Andleg málefni voru henni sérlega hugleikin og stundaði hún þau af kappi alla tíð. Ef eitthvað bjátaði á hjá okkur í fjölskyldunni þá var fyrsta hugsunin að heyra í Gerðu og biðja hana að hugsa til okkar. Hún hjálpaði svo ótal mörgum og eru dæmin mörg sem sanna það.

Gengin er yndisleg kona, stórbrotinn karakter sem á sér engan líkan. Ég veit þú óttaðist ekki dauðann, enda sástu í gegn um holt og hæðir og vissir að sumarlandið tæki vel á móti þér.

Takk fyrir allt elsku góða tengdamamma, ég kveð þig með þakklæti og sorg í huga, en það er eðlilegt að sorgin láti á sér bæra, hún er jú gjaldið sem við greiðum fyrir að eiga ástvini.

Ég veit að þú munt passa upp á okkur og vaka yfir þínu fólki eins og þú hefur alltaf gert.

Þín tengdadóttir,

Herdís Ármannsdóttir

Jón Geir Ágústsson

Geir, María og Jón Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Sigurður Unnsteinn Sigurðsson skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Valdís Rut Jósavinsdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson

Signý, Þórður, Margrét, Þórdís, María Sigríður og Jóhann Heiðar skrifa
19. desember 2024 | kl. 06:01

Jón Geir Ágústsson – lífshlaupið

19. desember 2024 | kl. 06:00

Tony Byrne

Arngrímur B. Jóhannsson skrifar
04. október 2024 | kl. 21:00