Fara í efni
Minningargreinar

Kristján Gunnarsson

Það væri falleg byrjun á minningum um föður sinn að minnast góðra og skemmtilegra morgunstunda en það væri ekki rétt lýsing. Við áttum það sameiginlegt að vera ansi morgunfúlir, sátum í þögn yfir súrmjólkinni og buðum ekki góðan dag. En það var þó bara rétt í byrjun dags.

Pabbi gerði besta hrærða skyr sem ég hef smakkað en þá var óhrært skyr selt í sellófani, vel af sykri sett út í og vanilludropar. Hann var snillingur í að þeyta rjóma og gerði það með miklum tilþrifum. Spælt egg og spaghettí er réttur sem kom með pabba úr Versluninni Eyjafirði og í minningunni var hann í matinn annan hvern dag á móti skyrinu. Þessi réttur er enn á borðum hjá fjölskyldunni.

Pabbi var mikill bílaáhugamaður og þurftu bílarnir hans að vera hreinir og fínir. Hann var yfirleitt hafður með í ráðum í mínum bílakaupum, a.m.k. fyrstu árin. Honum þótti ekki leiðinlegt að fá að prófa bíla sem ég og vinir mínir áttum, sérstaklega þegar við áttum allir GTI bíla. Prófunin fólst m.a. í því að keyra upp Gilið í þriðja gír, skipta svo niður í annan gír í beygjunni og reykspóla restina.

Hann átti marga flotta og fína bíla í gegnum tíðina, m.a. beit hann í sig að hann yrði að eignast Pontiac Firebird Trans Am sem hann sá á Ebay. Þetta var í árdaga internetsins og mörg flækjustig sem þurfti að yfirstíga en öll samskipti við ameríska bílasalann fóru fram í gegnum tölvupóst og síma og millifærsla tók sinn tíma hjá bankanum. En hann gaf sig ekki og til Akureyrar kom bíllinn.

Ein sterkasta minning mín af pabba er þegar við fjölskyldan fórum saman í reisu til Evrópu. Við flugum í Júmbó þotu og sátum í lúxussætum á efri hæðinni þannig að okkur leið eins og kóngafólki. Eina nóttina neyddumst við til að sofa í bílnum því bíllinn varð bensínlaus og á þeim tíma voru bensínstöðvar ekki opnar allan sólarhringinn. Það þurfti því að bíða eftir að stöðin opnaði um morguninn og enga gistingu var að fá í nágrenninu. Eftirminnilegust eru samskipti pabba við götusala sem svindluðu heiftarlega á fjölskyldunni. Það var keyptur leðurjakki fyrir dágóða upphæð en reyndist síðan vera jakki úr leðurlíki. Pabbi sætti sig ekki við þetta svindl, fann götusalana sem stóðu fjórir saman. Hann lét það ekki stoppa sig þó hann væri töluvert lægri í loftinu en rauk inn í hópinn, skellti jakkanum á borðið og hótaði að sækja lögregluna ef hann fengi ekki endurgreitt. Þeim leist greinilega ekkert á hamaganginn í honum og hann fékk jakkann endurgreiddan.

Pabbi þurfti alltaf að vera mikið á ferðinni og því var það honum þungbært að geta ekki keyrt síðustu misserin. Hann var ansi hvatvís, ör og stoppaði yfirleitt stutt við. Eftir því sem sjúkdómurinn ágerðist urðu þessi einkenni meira ríkjandi. Sjúkdómurinn hafði augljós áhrif á persónuleikann, margt sem breyttist eftir því sem leið á sem sárt var að verða vitni að. Hann var ekki sami pabbinn og áður. Maður vill minnast hans eins og hann var fyrir veikindin og halda í minningarnar um hann eins og hann var áður en sjúkdómurinn tók yfir.

Takk fyrir allt elsku pabbi.

Rúnar Ingi

Kristján Gunnarsson – lífshlaupið

08. apríl 2025 | kl. 06:00

Sigurður Bjarklind

Sonja Sif Jóhannsdóttir skrifar
24. febrúar 2025 | kl. 12:35

Sigurður Bjarklind

Jón Már Héðinsson skrifar
24. febrúar 2025 | kl. 10:00

Sigurður Bjarklind

Jan Eric Jessen skrifar
24. febrúar 2025 | kl. 08:00

Sigurður Bjarklind – lífshlaupið

24. febrúar 2025 | kl. 08:00

Sigurður Bjarklind

Jón Ívar Rafnsson og Karl Ásgrímur Halldórsson skrifa
24. febrúar 2025 | kl. 07:00