Fara í efni
Minningargreinar

Sigurður Bjarklind

Ég kveð með söknuði vin minn og félaga, Sigurð Bjarklind. Við vorum samstarfsfélagar í Menntaskólanum á Akureyri í rúm fjörutíu ár. Við urðum fljótt góðir vinir, þar sem við deildum svipuðum viðhorfum til lífsins, nemenda og skólans. Ég á margar góðar minningar frá Sigurði þar sem við ræddum um lífið í fjölbreytileika sínum, um nemendur sem vildu gera vel og um skólann sem honum þótti mjög vænt um.

Sigurður var afburðakennari af gamla skólanum í jákvæðri merkingu. Hann hafði undraverðan náttúrukraft og ótrúlega orku – ekki síst í kennslunni. Hann kenndi af ástríðu, var ekki bundinn af kennslufræðilegum formum og náði einstaklega vel til nemenda sinna. Þeim þótti vænt um hann og honum um þá. Hann lagði sig fram um að sjá styrkleika hvers og eins og horfa til jákvæðrar heildarmyndar. Það er sérstaklega ánægjulegt að hitta fyrrum nemendur hans sem hafa haldið áfram í heilbrigðisvísindum – þeir eiga ekki nógu sterk orð til að lýsa því hversu vel hann undirbjó þau fyrir háskólanám.

Í mörg ár hafði ég þann sið að fara upp í skólann annan hvern laugardagsmorgun til að lesa og undirbúa mig. Fljótlega fóru samstarfsfélagar mínir að líta við, ræða starfið, gefa góð ráð og leita ráða. Sigurður var einn þeirra. Stundum færði hann mér vísu sem hann hafði ort um morguninn á hlaupunum, en stundum ræddum við alvarlegri mál. Líf Sigurðar var ekki alltaf auðvelt, og kannski var hann sjálfur flóknasti hluti þess. En hann hafði vilja til að takast á við lífið og kjark til að taka í hjálparhönd þegar á þurfti að halda.

Sigurður var mér traustur vinur. Hann studdi mig í starfi, veitti góð ráð og var hreinskilinn þegar honum fannst eitthvað mega fara betur. Hann var hreinn og beinn í framkomu og hafði takmarkaðan áhuga á langdregnum fundarsetum. Þó komum við okkur saman um að hann mætti á þá fundi sem ég bað hann um.

Hann var mikill náttúruunnandi, hafði unun af því að ganga á fjöll og sótti þangað orku og gleði. Hann bjó sér bústað austur í Kinn, þar sem hann ræktaði og smíðaði af sömu ástríðu og í kennslunni og þangað var gaman að sækja hann heim. Það var vani okkar Sigurðar þegar við heilsuðumst að faðmast traustlega og segja í kímni hvor við annan: „Helvítið þitt.“ Ég sakna þessa. Það er erfitt að kveðja góðan vin. Gerður Kristný skáld orðar þessa kveðju- og saknaðartilfinningu vel þegar hún segir í ljóði sínu, Í minningu um skáldbróður.

Vindurinn
blaðar í
hinni heiðu bók

örlög okkar
skráð með flugi fugla

Nú losnar
ein síðan
og fýkur
að viðsjálli vorsólinni

Ég votta Margréti og fjölskyldu þeirra Sigurðar innilega samúð.

Jón Már Héðinsson

Sigurður Bjarklind

Sonja Sif Jóhannsdóttir skrifar
24. febrúar 2025 | kl. 12:35

Sigurður Bjarklind

Jan Eric Jessen skrifar
24. febrúar 2025 | kl. 08:00

Sigurður Bjarklind – lífshlaupið

24. febrúar 2025 | kl. 08:00

Sigurður Bjarklind

Jón Ívar Rafnsson og Karl Ásgrímur Halldórsson skrifa
24. febrúar 2025 | kl. 07:00

Sigurður Bjarklind

Sigurlaug Anna Gunnarsdóttir skrifar
24. febrúar 2025 | kl. 06:00

Gísli Bragi Hjartarson

Snjólaug Sveinsdóttir skrifar
14. febrúar 2025 | kl. 11:15