Sigurður Bjarklind fæddist 7. desember 1947. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 10. febrúar 2025.
Foreldrar Sigurðar voru Sigríður Björnsdóttir Bjarklind, f. 1925, d. 2013, og Jón Sigurðarson Bjarklind, f. 1913, d. 2002. Systkini Sigurðar eru Sveinn A. Bjarklind, samfeðra, f. 1935, Björn Bjarklind, f. 1946, d. 2021, Jón Bjarklind, f. 1949, og Unnur Bjarklind, f. 1951, d. 2002.
Sigurður giftist Ólöfu Magnúsdóttur árið 1969, þau skildu. Sonur þeirra er Magnús Bjarklind, f. 1969, eiginkona hans er Ragna Kemp Haraldsdóttir, f. 1973. Börn þeirra eru Atli, f. 2000, og Ólöf Halla, f. 2005.
Árið 1976 kvæntist Sigurður Margréti Ástu Skúladóttur, f. 1947. Sonur hennar er Arnaldur Skúli Baldursson, f. 1971, eiginkona hans er Katrín Eyjólfsdóttir, f. 1971. Sonur Katrínar er Eyjólfur, f. 1994. Synir Arnaldar Skúla og Katrínar eru Baldur Rökkvi, f. 2002, og Dagur Skúli, f. 2005. Börn Sigurðar og Margrétar eru 1) Ívar Bjarklind, f. 1974, dóttir hans er Hulda Bjarklind, f. 1997, og 2) Halla Bjarklind, f. 1980, og synir hennar eru Egill Gauti, f. 2002, Ari Valur, f. 2005, og Ívar Hrafn, f. 2008.
Sigurður ólst upp við Langholtsveg í Reykjavík. Hann útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1968. Hann er með BSc-gráðu í læknisfræði frá Háskóla Íslands, próf í heimspekilegum forspjallsvísindum frá Heimspekideild HÍ, próf í uppeldis- og kennslufræðum frá Félagsvísindadeild HÍ og löggiltur heilbrigðisfulltrúi frá Umhverfis- og heilbrigðisráðuneyti.
Sigurður fluttist til Akureyrar árið 1976, hóf þá störf sem kennari við Menntaskólann á Akureyri og starfaði þar allt til ársins 2017, þegar hann varð sjötugur. Sigurður kenndi einnig við Háskólann á Akureyri, frá 1987 til 2017. Hann kenndi einkum líffræði, líffærafræði og skyldar greinar og þótti afburða kennari; ljóst er á viðbrögðum nemenda hans, eftir að akureyri.net birti frétt um andlátið, að hann var örlagavaldur í lífi margra þeirra; kveikti áhuga sem varð til þess að eftir stúdentspróf fetuðu þeir braut læknisfræðinnar eða annara fræða svipaðrar gerðar.
Sigurður Bjarklind var árum saman kunnasti fallhlífarstökkvari landsins og stökk um 800 sinnum á árunum 1966 til 1991. Þá var hann þekktur fyrir gönguskíðaiðkun og langhlaup, ekki síst fjallahlaup; gjarnan var einmitt haft á orði að Sigurður gengi ekki á fjöll – hann hlypi á fjöll.
Útför Sigurðar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 24. febrúar, klukkan 13.