Sigurður Bjarklind

Í dag verður borinn til grafar einn mesti snillingur sem ég hef á ævi minni kynnst. Siggi Bjarklind er mér afskaplega mikilvæg fyrirmynd og mun alltaf verða.
Siggi Bjarklind var einstaklega góður kennari og frásagnarstíll hans svo skemmtilegur að honum tókst að gera allt námsefni áhugavert. Hann braut upp kennslustundir með bráðfyndnum sögum og skemmtilegum uppátækjum og byggði einfaldlega upp andrúmsloft sem var þess eðlis að maður hlakkaði alltaf til að mæta í tíma til hans. Siggi hafði mikil áhrif á mitt námsval í gegnum allt háskólanámið og ég get þakkað honum að stórum hluta fyrir það að hafa fundið þann skemmtilega vettvang sem ég starfa á í dag.
Siggi er einnig einhver mesti sigurvegari sem ég hef kynnst. Hann einfaldlega naut þess að vera til. Hann hafði mikla ástríðu fyrir því að kenna lífefnafræði, frumulíffræði og skyldar greinar og starfaði við það áhugamál alla tíð. Milli kennslutarna skellti hann sér í fallhlífastökk og náði að mér skilst um 800 slíkum á sínum ferli. Hann var algjörlega óhræddur við að fara óhefðbundnar leiðir; lét nemendur sjálfa sjá um að halda utan um mætingu í skyldumætingarkerfi MA og veitti þeim sem nenntu ekki að fylgjast með „akademískt frelsi“ til að yfirgefa tímann svo þeir trufluðu ekki aðra nemendur, án þess að refsa þeim með neinum hætti – svo dæmi séu tekin. Og hann var alltaf klár í að bregða á leik:
- Eitt sinn læstu nemendur hann inni í skólastofunni sinni á 3. hæð Möðruvallabyggingarinnar. Hann leysti það einfaldlega með því að stökkva út um gluggann, hlaupa upp tröppurnar og koma aftan að nemendunum.
- Hann stundaði það þegar nemandi sofnaði í tíma hjá honum að biðja alla aðra nemendur um að fara hljóðlega út úr stofunni, og svo skellti hann hurðinni á eftir sér.
- Einn félagi minn sat á fremsta borði við kennaraborðið þegar hann sat yfir lokaprófi í félagsfræðigrein, en hann hafði aldrei kennt þessum félaga mínum og þekkti hann ekkert. Þegar nokkrar mínútur voru liðnar af lokaprófinu setti hann báða fæturna upp á kennaraborðið og hvíslaði til þessa félaga míns: „Eru þetta ekki flott stígvél?“ en hann var klæddur í brún leðurstígvél. Svo stóð hann fljótlega upp og fór að fikta í gardínunum í stofunni og var með frekari fíflalæti, svo þessi félagi minn þurfti að halda niðri í sér hlátrinum allt prófið.
Svona gæti ég lengi haldið áfram. En Siggi var ekki bara afburðakennari og með eindæmum skemmtilegur, heldur líka einfaldlega góður maður. Vinkona mín sem glímdi við prófkvíða sagði mér frá því að hún hefði eitt sinn tekið lokapróf í fagi hjá honum í sér stofu og þótt prófið ganga illa. Þegar hann hafi komið til hennar í prófinu hafði hún sagt honum að henni liði ekki vel, en hann gerði allt til að stappa í hana stálinu. Fljótlega eftir að prófinu lauk fór þessi vinkona mín á hárgreiðslustofu og sat þar þegar síminn hennar hringdi. Þá hafði Siggi grafið upp símanúmerið hennar og hringdi í hana til þess eins að segja henni að hún hefði náð prófinu.
Eftir að skólagöngu minni í MA lauk hef ég heyrt frá fjölmörgum öðrum fyrrverandi nemendum Sigga Bjarklind að hann hefði verið einn besti kennari sem þeir höfðu nokkurn tímann haft. Gleðin og ástríðan sem geislaði af Sigga hefur gert nám þúsunda nemenda skemmtilegra og eftirminnilegra. Ég efast um að til séu mikið skýrari dæmi um farsælan starfsferil heldur en þann sem Siggi Bjarklind átti.
Siggi Bjarklind var einstakur maður og ég er afar þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast honum. Minningarnar um þennan frábæra mann mun ég bera með mér alla ævi.
Jan Eric Jessen


Sigurður Bjarklind – lífshlaupið

Sigurður Bjarklind

Sigurður Bjarklind

Gísli Bragi Hjartarson
